Sofnuðu öll til skiptis yfir jólapökkunum

Edda Björgvinsdóttir leikkona hefur upplifað allskonar jól.
Edda Björgvinsdóttir leikkona hefur upplifað allskonar jól. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að sögn Eddu Björgvins er æðislega áríðandi að hafa stemningu, stuð, kerti, mandarínur og jólaseríur hreint alls staðar í desember, enda segir hún að jólin bjargi hreinlega skammdeginu.

„Ég byrja að tína jólaskrautið upp á fyrsta degi aðventunnar. Þetta er náttúrlega uppeldið, en ég ólst upp við að það var ekkert byrjað að skreyta fyrr en kveikt var á fyrsta aðventukertinu. Jólatréð var aldrei skreytt fyrr en á aðfangadag og síðan falið. Þegar það var afhjúpað þyrptust börnin svo inn í gleðikasti,“ segir Edda og bætir við að hún hafi sjálf tileinkað sér þennan sið.

„Ég hef reynt að vera í þessum dúr. Ekki að skreyta of snemma og ekki byrja að spila jólalög of snemma. Svo á ég náinn ættingja sem byrjar að spila jólalög í nóvember og spilar þau út febrúar. Ég ber fulla virðingu fyrir því, það bjargar geðheilsu hans,“ segir Edda og hlær, en að hennar mati draga jólin fram gleði og hlýju í fólki.

„Ef við þurfum einhvern tímann á því að halda, þá er það núna. Akkúrat í ljósi þess sem hefur verið að gerast í samfélaginu. Ég held að það sé óskaplega gott ef allir gleyma sér, fara að faðmast, kveikja á kertum og finna kærleikstilfinningu í brjóstinu. Íslendingar eru svo magnaðir, við förum í sveiflur öll saman og ég get vel trúað því að við náum að taka höndum saman núna og fara í jólasveifluna sem aldrei fyrr.“

Dreymir hinn fullkomna desember

Aðventan getur verið strembinn tími fyrir leikara, sér í lagi þá sem leika í jólasýningum og áramótaskaupinu. Edda hefur fengið að kynnast jólastressinu af eigin raun, og dreymir hana því um hinn fullkomna jólamánuð sem einkennist eingöngu af notalegheitum.

„Við hjónin lentum stundum í því að vera saman á milljón og þurfa síðan að kaupa jólagjafir á Þorláksmessu og redda öllu. Það var hræðilegt. Ég verð að játa að það auðveldar leikurum sem eru í jólasýningum, eða áramótaskaupinu, að eiga einhvern að til þess að passa að börnin fái jólin. Ég man þegar ég var orðin einstæð móðir hvað það var kvalafullt að geta ekki átt mánuðinn eins og ég sá alltaf fyrir mér í hillingum. Mig dreymdi að jólamánuðurinn færi bara í að kveikja á kertum, heimsækja vini og ættingja, fá mér kakó með rjóma hér og þar, baka piparkökur og vera í einhverju föndur- og bökunarstússi,“ segir Edda og bætir við að ennþá hafi ekki tekist að láta þann draum rætast. En hvað gerði hún til að vinda ofan af versta jólastressinu þegar álagið var mikið?

„Í rauninni er dálítið sorglegt að segja það, en þeir sem ofhlaða sig af vinnu eða áhyggjum ná eiginlega ekkert að vinda ofan af því. Ég man að einhvern tímann var maturinn ekki tilbúinn hjá okkur fyrr en á miðnætti því það var svo mikið að gera. Við þurftum að fela allar klukkur fyrir börnunum, og ég man hvað það var kvalafullt að reyna að halda sér vakandi á meðan verið var að taka upp pakkana. Við sofnuðum öll til skiptis. Þetta eru verstu jólin sem ég man, en síðan hefur þetta aldrei verið svona slæmt. Síðustu jól hef ég náð að borða á réttum tíma, það er strax svo rosalegur sigur frá því í gamla daga þegar maður var á hlaupum og var heppinn ef maður náði að borða fyrir klukkan átta,“ segir Edda. En skyldi hún sjá fram á notaleg jól í ár?

„Það sem hefur gerst nýverið er að börnin eru komin með eigin fjölskyldur. Ég er því hætt að reyna að draga þau öll til mín heldur borða ég hjá þeim til skiptis, sem er alveg dásamlegt. Þá fæ ég frí. Ég segi þó ekki að við skiptumst á, því einhleypingarnir í minni fjölskyldu hafa gjarnan borðað hjá mér og svo höfum við farið og knúsað alla fjölskylduna eftir matinn. Núna síðustu tvenn jól hef ég þó verið hjá börnunum mínum, en það er ótrúlega notalegt og yndislegt. Þá lokar maður bara á eftir sér heima og hefur kertin og mandarínurnar tilbúnar, svo þegar maður kemur heim eftir allt saman er allt tandurhreint og fínt. Ég er strax farin að upplifa miklu minna stress, og ég veit að þessi draumadesember á eftir að koma.“

Í jólasveinabúningnum langt fram á sumar

Það er ekki hægt að sleppa af Eddu takinu án þess að biðja hana að rifja upp einhverja hressilega og eftirminnilega jólasögu, enda af nógu að taka.

„Ég er nú búin að segja söguna af því þegar við urðum að henda jólatrénu af því að kötturinn meig á það allan desember, og allir kettir í hverfinu, nokkrum sinnum. Hún er eiginlega orðin dálítið gömul, en það var hroðalegur harmur,“ segir Edda létt í bragði og afræður að dusta rykið af gamalli sögu af syni sínum, Björgvini Franz, í staðinn.

„Ég átti mjög sérviskulegan dreng sem neitaði ein jólin að pakka niður jólasveinabúningnum sínum. Hann fór síðan í honum niður í bæ 17. júní. Systir hans, sem var orðin unglingur, neitaði að ganga við hliðina á honum því hún skammaðist sín svo hroðalega mikið. Hann tók samt ekki annað í mál en að klæðast búningnum og það var enginn að þræta við þann þrjóskupúka. Þannig að það er jólabúningasagan sem enginn mun gleyma. Við foreldrarnir vorum svo frjálslynd að við vorum ekki að fetta fingur út í þetta, en systir hans hét því að hún myndi aldrei nokkurn tímann fara með okkur neitt þar sem barnið myndi verða sér til skammar aftur,“ bætir Edda við, sem einnig lumar á heilræði fyrir landsmenn.

„Friður, gleði og húmor á jólunum eru skilaboðin mín til þjóðarinnar. Steingleymið svo öllum leiðindum. Ég legg til að desember verði tekinn í það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál