Góðar hugmyndir fyrir jólasveininn

Að finna jólagjöf fyrir barn er ekkert mál: ef snjósleði, dúkka eða dótabíll kemur í ljós þegar pakkinn er opnaður ljómar barnið af gleði og jólunum er borgið.

Öllu flóknara er að finna gjöf fyrir fullorðna. Smekkur fólks er svo misjafn og það sem einn bráðvantar á annar til í mörgum eintökum. Það sem einum þykir til prýði vill næsti maður helst fela uppi á háalofti. Sagt er að það sé „hugurinn sem gildir“, en allir vilja samt frekar gefa jólagjöf sem fær þiggjandann til að brosa allan hringinn og eiga einstaklega ánægjuleg jól.

Hér eru nokkrar tillögur fyrir metnaðarfull jólabörn sem fallast hendur þegar kemur að því að velja réttu gjöfina:

Rimowa-ferðataska

Íslendingar eru allra þjóða mest á ferð og flugi og helst ættu landsmenn allir að eiga sterkbyggða og fallega ferðatösku sem þolir hvað sem er. Af öllum þeim fínu töskum sem eru í boði eru fáar sem geta skákað Rimowa, og eru t.d. silfurlitu áltöskurnar sannkölluð hönnunarklassík sem mun standa fyrir sínu í marga áratugi.

Til að gera töskuna enn skemmtilegri má reyna að hafa það fyrir reglu á ferðalögum að koma við í næstu Rimowa-búð og biðja um límmiða, en flestar búðirnar eru með sérhannaða límmiða til reiðu, tileinkaða sinni borg. Taska sem þakin er límmiðum segir skemmtilega sögu.

Rimowa Original Cabin kostar 800 evrur í netverslun Rimowa.com.

PlayStation 4 Pro með Red Dead Redemption II

Það stefnir í nokkuð gott frí í kringum jól og áramót og um að gera að nota tímann til að hverfa á vit ævintýranna í góðum tölvuleikjum. PlayStation 4 ber höfuð og herðar yfir keppinautana og þó svo að þessi öfluga leikjatölva kosti sitt þá er hún alls ekki dýr ef tekið er með í reikninginn hve mörg hundruð stunda af góðri afþreyingu hún getur veitt. Er PlayStation ekki bara til þess gerð að spila leiki heldur hentar hún líka til að horfa á Netflix eða hlusta á uppáhaldslögin á Spotify, svo aðeins séu nokkur dæmi nefnd.

Þegar kemur að því að velja rétta leikinn þessi jólin þá er fátt sem trompar Red Dead Redemption II. Leikjaunnendur eru hreinlega að missa sig yfir þessum kúrekahetjuleik þar sem hér um bil allt er leyfilegt.

PlayStation 4 Pro pakki með Red Dead Redemption II kostar um 65.000 kr. hjá Elko.

Hanskar frá Dents

Áhugamenn um James Bond verða ekki fyrir vonbrigðum með hanska frá Dents. Njósnari hennar hátignar, sem er þekktur fyrir góðan smekk, klæddist forláta Dents-leðurhönskum í sinni nýjustu mynd og óhætt að segja að þeir hafi farið honum vel. Fleiri hafa dálæti á Dents, eins og t.d. Karl Bretaprins sem leyfir fyrirtækinu að nota innsigli sitt.

Úrvalið er mikið og vörurnar frá Dents ekkert sérstaklega dýrar. Fyrir þá sem vilja sneiða hjá leðri er m.a. hægt að mæla með prjónuðu Glock-vettlingunum sem eru nokkurs konar blanda af fingralausum hanska og lúffu. Tekur hönnunin mið af þörfum skotveiðimanna en hentar líka vel nútímafólki sem er stöðugt með puttana á snertiskjá snjallsímans.

Glock-vettlingarnir kosta rétt rúmlega 18 pund hjá netversluninni Dentsgloves.com.

Sannar gjafir UNICEF

Öll langar okkur í hitt og þetta: flottari sólgleraugu, dýrari strigaskó, stærra sjónvarp. En þó svo okkur langi í margt, þá er fátt sem okkur bráðvantar. Með þak yfir höfuðið, við góða heilsu og með ísskápinn fullan af mat eigum við í raun allt til alls.

Væri þá ekki betra að nota jólagjöfina til góðs, og hjálpa þeim sem skortir jafnvel brýnustu lífsnauðsynjar?

UNICEF hefur um nokkurra ára skeið boðið landsmönnum að kaupa Sannar gjafir: vörur sem bæta líf barna og bágstaddra um allan heim.

Í netversluninni Sannargjafir.is er hægt að velja t.d. bóluefni á 997 kr., stóran pakka af vatnshreinsitöflum á 5.021 kr. eða skammt af ormalyfjum á 800 kr. Fyrir aðeins 2.990 kr. má kaupa hlýjan vetrarfatnað handa barni á flótta undan ófriði og eymd.

Er leitun að betri gjöf, enda hafa Sannar gjafir slegið rækilega í gegn.

Hlaupahjól frá Xiaomi

Þeir sem fylgjast vel með fréttum hafa eflaust tekið eftir að rafhlaupahjólaleigur hafa sprottið upp víða um heim og eru hlaupahjólin jafnvel til trafala á sumum stöðum enda skilin eftir á gangstéttum hér og þar og þvælast fyrir gangandi vegfarendum.

Rafmagnshlaupahjólaleigur eru ekki enn búnar að nema land á Íslandi, og er skýringin ef til vill sú að hálft árið er of mikið af snjó og hálku á gangstígum til að hjólin nýtist vel. En þessi farartæki eru fjarska sniðug og handhæg yfir vor- og sumarmánuðina: þau eru ódýr, taka sáralítið pláss, ná allt að 25 km hraða og hafa í kringum 30 km drægi á einni hleðslu.

Xiaomi-hlaupahjólið má m.a. kaupa hjá Amazon.de á 689 evrur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál