Fangasveinn er fjórtándi jólasveinninn

Jólavertíðin er hafin hjá Fangaverki.
Jólavertíðin er hafin hjá Fangaverki. Samsett mynd

Aðeins 57 dagar eru til jóla og því ekki seinna vænna en að fara huga að jólaskrauti og gjafakaupum. Þetta vita fangarnir sem hanna og framleiða vörur fyrir Fangaverk. Jólavörurnar streyma nú inn, en þó í takmörkuðum magni að sögn Auðar Margrétar Guðmundsdóttur, verkefnastjóra í fangelsinu á Hólmsheiði. 

Jólavörurnar, sem eru allt frá kertastjökum til heklaðra setta á Kay Bojesen hönnunarapa, fást í vefverslun Fangaverks sem opnaði fyrr á þessu ári. 

„Það seldist mikið fyrsta daginn og hekluðu settin kláruðust eiginlega bara. Svo ég mæli með því að fólk hafi hraðar hendur á ef það sér eitthvað sem því líst vel á,“ segir Auður í samtali við mbl.is. 

Hugmyndin að jólasettunum á apana, sem skreyta mörg íslensk heimili um þessar mundir, kom á síðasta ári og varð að veruleika í ár. „Þeir eru úti um allt og það er skemmtilegt að skreyta þá aðeins fyrir jólin,“ segir Auður sem átti hugmyndina að settunum.

Nú getur apinn sem prýðir mörg íslensk heimili farið í …
Nú getur apinn sem prýðir mörg íslensk heimili farið í jólaföt fyrir hátíðirnar. Ljósmynd/Fangaverk

Jólavörurnar frá Fangaverki eru skemmtilegar og einstakar líka, því allar eru þær jú hannaðar í fangelsunum. Þá er búið að hanna myndir af hinum klassísku íslensku jólasveinum og prýða þeir kertastjaka. 

Fjórtánda jólasveininum var bætt við og fékk hann nafnið Fangasveinn og er líkt og sköpunarmeistarar sínir, á bak við lás og slá. 

„Við hugsuðum þetta sem svona söfnunarvöru, þú getur bætt einum og einum í safnið. Það eru allir jólasveinarnir þrettán og svo bættum við einum við sem er hann Fangasveinn,“ segir Auður og bætir við að þau haldi fast í húmorinn á Hólmsheiði.

Fangasveinn kemur ofan af Hólmsheiði.
Fangasveinn kemur ofan af Hólmsheiði. Ljósmynd/Fangaverk

Ekki byrjuð að hlusta á jólalög

Þó jólavertíðin sé formlega hafin þarf að hafa í huga að það er aðeins október. Fangarnir eru því ekki byrjaðir að hlusta á jólalög með vinnunni en gera má ráð fyrir að meiri jólaandi færist yfir mannskapinn þegar líður á nóvember. 

„Við komumst að samkomulagi um að setja seríur í gluggann um miðjan nóvember,“ segir Auður. 

Auður segir að jólavörurnar séu fullkomnar í gjafapakka frá fyrirtækjum og hvetur fyrirtæki til þess að láta gott af sér leiða með því að versla inn gjafir hjá þeim. Fangaverk er ekki rekið í hagnaðarskyni heldur er ágóðinn notaður í að kaupa efnivið fyrir næstu verkefni. Því er um einskonar hringrás að ræða, enda nota þau mikið af endurvinnanlegum efnum í framleiðslu sína. 

Gluggagægir er á meðal þeirra sveina sem prýða kertastjakana frá …
Gluggagægir er á meðal þeirra sveina sem prýða kertastjakana frá Fangaverki. Ljósmynd/Fangaverk
mbl.is