Binni Glee verður á Akureyri um jólin

Brynjar Steinn Gylfason, betur þekktur sem Binni Glee, veit fátt betra en að vera á Akureyri á jólunum. Hann er búinn að skreyta allt heima hjá sér með bleiku jólaskrauti og kaupa alls konar jólailmkerti sem gera upplifunina einstaka. 

Binni Glee, áhrifavaldur og raunveruleikastjarna, hefur það náðugt þessa dagana. Hann er að undirbúa sig fyrir nýja þáttaröð af Æði og alls konar önnur spennandi verkefni sem hann getur illa sagt frá að svo stöddu.

Vegna tímans sem hann hefur haft að undanförnu er hann nú búinn að skreyta allt heimili sitt með bleiku jólaskrauti.

„Ég flutti til Reykjavíkur í maí á þessu ári og verð að segja að það er aðeins rólegra og meira kósí á Akureyri en hér í miðborginni. Ég kann vel við mig í fallegu íbúðinni minni á Hverfisgötu en það er mjög mikið af fólki í Reykjavík og frekar mikil læti.“

Binni Glee setur rólegheit og frið framar mörgu öðru í lífinu og saknar fjölskyldunnar, sem hann mun hitta á jólunum.

Hvaða hug berðu til jólanna?

„Ég er mikið jólabarn og er byrjaður að hlusta á jólalög. Ég er einnig búinn að vera að kaupa mér piparkökur og alls konar jólakökur. Ég er búinn að skreyta allt hér heima.

Íbúðin mín er hvít og stílhrein og hér fæ ég að ráða hvernig hlutirnir líta út. Ég er búinn að eyða peningum í skraut á netinu og var að klára að setja seríur á svalirnar.“

Þeir sem þekkja Binna Glee vita að snjór er honum mikilvægur.

„Ég fer ekki óttalaus inn í jólin þar sem ég er í fyrsta skiptið einn hér í miðborginni. Ég er heppinn með staðsetningu og hef heyrt að hér sé mjög jólalegt, sem ég er spenntur að upplifa, en ég óttast að það muni ekki snjóa og það verður erfitt fyrir mig.“

Finnst bleiki liturinn flottur inni í íbúðinni á jólunum

Af hverju valdirðu þér bleikt jólaskraut?

„Ég er vanur öllu grænu og rauðu en vildi hafa bleikt hjá mér því íbúðin er hvít og það passar bara svo vel að vera með allt bleikt. Ég er meira að segja með bleikt jólatré.“

Binni Glee taldi mikilvægt að flytja í höfuðborgina til að vera nær þeim sem hann vinnur fyrir.

„Fólkið á Akureyri er svo gott og það er þægilegt að vera þar en þegar maður er orðinn svona stór stjarna á samfélagsmiðlum verður maður að vera hér í bænum,“ segir Binni Glee og útskýrir lífið í sviðsljósinu aðeins betur. „Það getur verið stressandi að vera frægur. Bara það að fara út í búð getur verið erfitt. Ég er með félagskvíða og þótt ég elski að fólk vilji taka myndir með mér og tala við mig getur það líka verið erfitt. Ég reyni að setja fókusinn á að fólk er ástæða þess að ég er vinsæll og ástæða þess að ég get unnið við að skemmta mér í lífinu. Í grunninn er ég mjög mikið fyrir kyrrð og ró og því á ég best heima í litlu bæjarfélagi.“

Þegar Binni Glee var sextán ára var líf hans frekar rólegt og gott að eigin sögn.

„Svo breyttist allt. Sumt er jákvætt og annað neikvætt. Ég upplifi mjög mikið þakklæti eins og ég sagði áður og ánægju en svo stundum upplifi ég neikvæða hluti, eins og stress og kvíða og pressu frá samfélaginu.“

Verður á Akureyri á jólunum

Binni Glee biður vanalega ekki um neitt í jólagjöf en er mjög hrifinn af því að fá peningagjafir.

„Ef ég fæ pening að gjöf get ég valið mér það sem mig langar í í staðinn fyrir að fá bara eitthvað sem ég þarf ekki. Eins og ilmvatnsgjafasett sem mér líkar ekki. Fjölskyldan mín er meira bara að gefa mér pening, þá ræð ég hvað ég kaupi. Annars er ég mikið fyrir ilmkerti þessa stundina. Ég elska kertin frá Bath & Body Works. Það eru að koma 20 nýjar tegundir af kertum frá þeim, handsápur og fleira áhugavert fyrir heimilið á jólunum. Ég kaupi mikið af vörum frá þeim núna.“

Hvernig verða jólin?

„Ég ætla heim á Akureyri og verja jólunum með fjölskyldunni. Það er svo dásamlegt, ég er vanalega að stússa við að kaupa gjafir á Þorláksmessu, fer í jólahúsið og á fleiri staði, síðan sef ég út á aðfangadag jóla. Það er svo mikil stemning á Akureyri á jólunum. Ég er spenntur fyrir matnum. Við erum alltaf með hamborgarhrygg og brúnaðar kartöflur, sem mér finnst best í heimi. Svo á jóladag þá fer ég alltaf í matarboð hjá systur pabba og svo er ég bara að gera eitthvað huggulegt með fjölskyldunni á jólunum. Ég rúnta alltaf með vinum mínum á milli jóla og nýárs. Það er alltaf snjór á jólunum á Akureyri og þessi stemning, að keyra í snjó, finnst mér mjög heillandi. Þess vegna er ég smávegis stressaður að það verði ekki nægur jólasnjór í Reykjavík því fólk er búið að segja mér að það sé ekki mikill snjór hér. Sumir hata snjó en mér finnst hann svo kósí.“

Karlar vilja sokka og ilmvatn

Hvernig er verkaskiptingin á heimili þínu á Akureyri?

„Mamma eldar alltaf matinn, því hún treystir ekki pabba til þess. Svo erum við öll saman að borða og opna pakkana. Þau fara vanalega í kirkju á aðfangadag eftir að við höfum opnað pakkana. Þá er ég vanalega heima að hvíla mig. Ég á eina systur, sem er besta vinkona mín. Hún er fimm árum yngri og það er bara allt mjög notalegt heima hjá okkur.“

Hvers óska karlmenn sér í jólagjöf á þessu ári?

„Ilmvatns og sokka. Ég er ekki viss, en ég hugsa alltaf um ilmvatn og sokka sem gjöf fyrir karlmenn. Ég myndi reyna að komast að því hvort hann vill mjög herralegan ilm eða ilmvatn eins og ég geri. Svo þetta með sokkana; það er bara eitthvað svo notalegt og sætt. Ég upplifi eins og margir karlar þurfi nýja sokka. Fæturnir þurfa að lykta vel og allir verða að eiga gott ilmvatn.“

Binni Glee á sinn eigin bíl á Akureyri en ferðast um í strætó eða fer á milli staða gangandi þegar hann er í Reykjavík.

„Það er svo langt síðan ég keyrði bílinn minn síðast að ég get ekki beðið eftir að fara að keyra í snjónum á Akureyri.

Ég bara elska að keyra um og skoða jólaskrautið, ljósin og bara skoða Akureyri alla, sem er svo mikill jólabær.“

Að fá ömmu sína til landsins væri draumur

Hvað geturðu sagt okkur um þig sem enginn veit?

„Ég sprengi aldrei flugelda og held ekki á blysi. Ég er ekki fyrir hávaða eða óvæntar sprengingar, svo um áramótin þá stend ég inni og horfi út um gluggann heima. Ég held að enginn viti þetta um mig.“

Ertu klár í að elda?

„Ég veit ekki hvort ég er bestur í því en ég get alveg eldað. Sérstaklega auðvelda rétti. Ég fékk æfingu í því þegar ég var á ketó. Ég elda oft fisk og þannig en ég þakka ketó mína eldamennsku og núna held ég bara áfram að gera góðan mat fyrir mig þótt ég sé hættur á ketófæði.“

Hvernig verða jólafötin þín á þessu ári?

„Ég er ekki búinn að hugsa út í það en ég er oftast í svartri skyrtu og fínum svörtum buxum. Á Akureyri er ég vanalega náttúrulegri í útliti. Í Reykjavík fer ég meira yfir strikið í klæðaburði. Svo yfir jólin er ég í kósí heimagalla, borða jólakökur og heitt súkkulaði og horfi á góða jólamynd. Uppáhaldsjólamyndin mín er Home Alone og svo er Elf dásamleg.“

Ef þú gætir fengið eina ósk uppfyllta á jólunum, hver væri hún?

„Það væri að fá ömmu mína frá Filippseyjum til landsins. Hún er uppáhaldið mitt í öllum heiminum en vegna kórónuveirunnar hef ég ekki getað farið að heimsækja hana.

Ég ólst mikið upp hjá henni, en hún flutti utan 2008. Tíminn líður svo hratt og ég er svo mikill ömmustrákur að ég vildi helst af öllu vera með henni á jólunum. Af henni er eina inrammaða myndin á heimilinu. Það er aldrei stress í kringum ömmu, hún er svo róleg og er mjög mikið elskuð af öllum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »