Samveran skiptir mestu máli

Þórhildur Einarsdóttir.
Þórhildur Einarsdóttir. mbl.is/Unnur Karen

Þórhildur Einarsdóttir er í MBA-námi um þessar mundir og starfar sem sjálfstæður ráðgjafi í markaðsmálum og við vefsíðugerð. Hún hefur einnig verið að aðstoða fólk við listaverkakaup og innanhússráðgjöf.

„Jólin og ekki síst aðventan eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þetta er tími samveru með fjölskyldu og vinum og snýst um að gefa af sér ekki síður en að gefa gjafir. Maður verður meðvitaðri um það að skapa góðar stundir með þeim sem manni þykir vænt um og leggur sig fram um að finna tíma til að eyða í góðum félagsskap. Það þarf ekki alltaf að vera flókið heldur einfaldlega bara það að fara í göngutúr eða setjast niður á kaffihús. Þá er ekki síður mikilvægt að minna sig á að taka stundir inn á milli einn með sjálfum sér, að hugleiða og leita inn á við. Þrátt fyrir að tíminn fram að jólum geti verið nokkuð erilsamur hef ég með tímanum lært að njóta hans betur, ekki síst þar sem ég er ekki að eltast við eins mikið og áður.“

Á alltaf til hráefni í frönsku súkkulaðikökuna

Þeir sem þekkja til Þórhildar vita að hún gerir þá allra bestu frönsku súkkulaðiköku sem völ er á.

„Franska súkkulaðikakan er uppskrift sem ég gríp oft til enda finnst mér hún mjög einföld að gera. Í henni eru fá hráefni og eina sem þarf er skál og pískur. Ég á alltaf til hráefni í eina franska en þó gerist það að fjölskyldumeðlimir og ég laumumst í súkkulaðið sem á að vera í kökuna svo ég er með birgðatalningu reglulega. Ef ég geri kökuna fyrir jólin reyni ég að dressa hana upp þannig að hún verði jólaleg í útliti. Í staðinn fyrir að setja súkkulaði ofan á hana strái ég flórsykri yfir hana, skreyti með hindberjum eða fræjum úr granatepli og reyni að skapa smá jólastemningu í kringum hana. Súkkulaðið sem ég set alla jafna ofan á hana hef ég hins vegar í könnu svo þeir sem vilja geti hellt því yfir sína sneið. Það er ekki sparað súkkulaðið í þessari uppskrift og því þarf ekki mikið til að fullnægja súkkulaðiþörfinni. Hún er góð ein og sér en mér finnst best að hafa rjóma með eða ís ef hún er borin fram á heitum sumardögum.“

Hlustar á falleg jólalög og -sálma

Hvernig skreytir þú á jólunum?

„Hafandi í huga að mér finnst gaman að skreyta en leiðinlegt að ganga frá jólaskrauti reyni ég að nota mikið náttúrulegt skraut eins og köngla, greinar og mosa sem ég skila svo út í náttúruna þegar hátíðin er yfirstaðin. Með því að nota sem mest lifandi og náttúrulegt skraut spara ég líka geymslupláss en ég hef síðustu ár meðvitað verið að grynnka á dóti í geymslunni. Ég næ mér í eitt og annað úti í náttúrinni eins og greinar og köngla og hef jafnvel notað tækifærið þegar ég fer í Sorpu og fundið eitthvað þar í greinahrúgunni. Ég kaupi líka bæði amaryllis og eucalyptus og set í vasa með furugreinum og set jafnvel líka litla jólaseríu. Í eldhúsinu hef ég stóran vasa á eyjunni sem er að sjálfsögðu miðpunkturinn en í hann set ég lítið jólatré og skreyti. Þá hef ég hnetur, epli og mandarínur í skálum á völdum stöðum í húsinu sem er líka hollt og gott snakk fyrir fjölskyldumeðlimi. Þar sem þetta er einn myrkasti tími ársins og jólin að sjálfsögðu hátíð ljóssins er ég með mikið af kertum og notalegum jólaljósum bæði inni og úti. Ég keypti mér fyrir nokkrum árum Georg Jensen-aðventukrans sem ég er mjög ánægð með og svo föndraði ég fyrir síðustu jól hurðakrans úr flaueli sem verður settur upp aftur í ár.“

mbl.is/Unnur Karen

Þórhildi finnst hátíðlegt að hlusta á falleg jólalög.

„Það er eflaust misjafnt hvað fólki finnst hátíðlegt en mér finnst mjög hátíðlegt að hlusta á falleg jólalög og þá einkum jólasálma. Við förum ekki í kirkju á aðfangadag en mér finnst hins vegar mjög notalegt og hátíðlegt að fara á jólatónleika í kirkju og fer ég stundum í kirkju milli jóla og nýárs. Jólin 2019 fór ég á jólaóratoríu Bachs í Kataryna-kirkjunni í Stokkhólmi, sem mér fannst mjög gaman að hlusta á. Þá finnst mér alltaf mjög hátíðlegt þegar jólaklukkurnar hringja inn jólin í útvarpinu kukkan sex.“

Finnst notalegt að stússa í eldhúsinu

Leikur matur stórt hlutverk á jólunum?

„Matur og samvera er það sem einkennir jólahaldið á mínu heimili. Við stórfjölskyldan sem eyðum jólunum saman erum samhent og samtaka í undirbúningnum og það er ótrúlega notalegt og skemmtilegt að vera að stússa í eldhúsinu, spjalla og hlusta á góða tónlist meðan allir leggja hönd á plóg við að undirbúa jólamatinn. Ég hef líka gaman af öllum þessum matarhefðum tengdum jólunum og eru ýmis box sem maður merkir við hvað það varðar. Nægir þar að nefna hangikjötið sem við borðum á jóladag, piparkökurnar, möndlugrautinn og sörugerðina.“

Frönsk súkkulaðikaka

200 g dökkt súkkulaði

200 g smjör

4 egg

2 dl sykur

1 dl hveiti

Aðferð

1. Hitið ofninn í 175°.

2. Setjið smjörpappír í botninn á hringlaga formi og smyrjið hliðar. Athugið að nota ekki form með lausum botni.

3. Bræðið súkkulaði og smjör í potti við vægan hita.

4. Þeytið egg og sykur saman.

5. Bætið súkkulaðiblöndunni varlega saman við eggjablönduna og hrærið vel saman.

6. Bætið hveitinu út í og hrærið.

7. Bakið í 25 til 30 mínútur. Kakan á að vera smá blaut í miðjunni.

8. Meðan kakan bakast gerið þið kremið. Berið fram með rjóma eða ís.

Súkkulaðikrem

150 g dökkt súkkulaði

70 g smjör

2 msk. síróp

Setjið öll hráefnin í pott og bræðið við vægan hita.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál