Villt kynlíf og vímugjafar virðast aldrei langt undan

Rannveig Borg Sigurðardóttir lögfræðingur, sem nýverið gaf út sína fyrstu bók, Fíkn, er orðin spennt fyrir jólunum sem hún ætlar að halda í Sviss, með einkasyni sínum, móður sinni og bróður. Hún leggur meira upp úr skemmtun og útiveru en mörgu öðru eins og Svisslendingum er einum lagið yfir hátíðina.

„Við fjölskyldan erum lítil eining. Mér finnst gott að vera heima hjá mér með stráknum mínum. Við reynum að fara á skíði. Ég á von á því að bróðir minn, kona hans og mamma komi út til okkar, en við höfum tvisvar verið bara tvö saman um jólin sem er dásamlegt líka. Við höfum búið í Sviss í tíu ár og erum farin að tileinka okkur ýmislegt sem þar er gert á jólunum.“

Hvernig eru jólin í Sviss miðað við þau íslensku?

„Svisslendingar eru mikið fyrir útiveru, þannig að þegar þeir eiga lausan tíma, þá sjá þeir sér leik á borði og fara upp á fjöll. Þeir leggja lítið upp úr matnum á jólunum en eru oft með „fondue chinoise“, sem er niðurskorið kjöt sem þeir dýfa í kjötsoð, og hafa svo sósur með. Svisslendingar eru á skíðum allan daginn og því er fondue hentugur matur. Það tekur ekki meira en hálftíma að undirbúa réttinn og samveran í eldamennskunni er sett í forgrunn.

Ég reyni að halda í þessa upplifun á jólunum. Mér finnst dásamlegt að fara með son minn í kaþólska messu á aðfangadag klukkan sex. Þetta er falleg barnamessa þar sem þau eru látin sitja fremst í kirkjunni. Messan er öll sniðin að börnunum og hún er styttri og aðgengilegri en aðrar messur.“

Er vanalega með krúttleg jól

Rannveig er alltaf einstaklega vel til fara og hefur gaman af því að klæða sig upp á á jólunum.

„Við erum nú vanalega með voðalega krúttleg jól. Ég er ekki búin að ákveða hvað verður í jólamatinn en það er alltaf súkkulaði-fondue í eftirrétt, því það er í uppáhaldi hjá syni mínum. Ég hef stundum verið með hægeldaða T-bone-steik þar sem það er ágætt að leyfa henni að eldast á 100 gráðum á meðan við förum í kirkjuna. Ég borða þó ekki kjöt lengur og ætli ég leyfi ekki fjölskyldunni sem verður úti með mér að vera meira með í ráðum með matinn. Ég legg meira upp úr upplifun og útiveru.

Við puntum okkur alltaf mikið. Í fyrra sem dæmi vorum við mjög fín, þó við höfum bara verið tvö á jólunum. Ég var í fínum kjól og háum hælum. Ég passa alltaf að kaupa fallegar gjafir. Kaupi eitthvað fyrir mig frá syni mínum og svo fáum við vanalega fullt af bókum fyrir jólin. Mér finnst alveg hreint yndislegt að fá eins margar íslenskar bækur og hægt er og svo jafnast fátt á við að liggja undir teppi með heitt te og Nóa konfekt og lesa.“

Er spennt fyrir fyrstu bókum annarra rithöfunda

Rannveig er búin að vera að lesa fyrstu bækur annarra rithöfunda að undanförnu.

„Mér finnst svo skemmtilegt að skilja þennan reynsluheim betur og hvað það er mikil vinna að gefa út bók. Hvað maður gefur mikið af sér í þetta starf í raun og veru, það er eitthvað sem ég hefði aldrei getað ímyndað mér. Ég fór til Parísar nýlega og þá fór ég inn í franska bókabúð, sem er eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Þessar gamaldags litlu krúttlegu bókabúðir eru líkt og annar heimur. Það var lítið barnahorn í þeirri sem ég heimsótti og sonur minn sem les að jafnaði ekki mjög lengi í einu, lá inni í horninu og las bækur í örugglega klukkutíma. Í búðinni var búið að stilla upp athyglisverðum bókum og búið að gera lítinn útdrátt úr þeim. Ég tók sérstaklega eftir fyrstu bókum nýrra höfunda og fann áhugaverða höfunda sem mér þykir einstaklega vænt um. Eldri höfundar kynna sig sjálfir, svo það er til fyrirmyndar að hafa uppsetninguna svona eins og í París.“

Hvernig sérðu rithöfundarstarfið fyrir þér? Ætlarðu að skrifa fleiri bækur?

„Ég þarf að finna tíma því mig langar að skrifa meira. Ég er með fullt af hugmyndum í höfðinu sem mig langar að skrifa um. Sem dæmi langar mig að skrifa meira um þann heim sem ég lifi og þvælist í þar sem ég held að sé mikilvægt að skrifa um konur í fyrirtækjaheiminum.“

Hvernig lýsir þú þessum heimi?

„Ég er innanhússlögfræðingur í stóru alþjóðlegu fyrirtæki og hef verið að vinna hjá nokkrum stórum alþjóðlegum fyrirtækjum og einnig sem lögfræðingur á stofu. Það er bara, hvað sem hver segir, erfitt að vera kona í karlaheimi. Til að haldast í þessum heimi þá verð ég að vinna í góðu andrúmslofti. Ég vinn með góðu fólki en kröfurnar eru miklar og ef andrúmsloftið væri vont eða eitrað, þá gæti ég þetta ekki. Það er mikið í húfi í vinnunni, þar sem ég vinn mest með kaup og sölu fyrirtækja, og stórar fjárhæðir. Sem dæmi keypti fyrirtækið yfir tveggja billjóna evra fyrirtæki í sumar.“

Skiptir lífinu niður til að geta skrifað

Hvernig ferðu að því að vera einstæð móðir í Sviss, í kröfuhörðu starfi og námi og að skrifa skáldsögu?

„Ég tek þetta í hlutum, þannig virkar lífið hjá mér. Ég skrifaði mest af bókinni þegar ég var ekki í skólanum. Ég tek námið mjög hægt, í raun eitt fag í einu, og er núna í hléi þar til í september á næsta ári út af miklu álagi í vinnunni og til að geta fylgt bókinni eftir. Þegar mikið er að gera í vinnunni þá skrifa ég ekki.

Ég horfi lítið á sjónvarp og djamma ekki, þannig fær maður fullt af nýjum tíma og svo er ég yfirleitt með „au pair“ hjá mér sem tekur hluta af ábyrgðinni hér heima.“

Hvernig sérðu fyrir þér framtíðina?

„Það er enginn 75 ára fyrirtækjalögfræðingur í starfi í dag, svo ég sé fyrir mér að sinna ráðgjöf og skrifum í fullu starfi sem einskonar seinni feril á lífsleiðinni. Þó ég sé að mennta mig í almennri fíkn, þá verður fókusinn minn alltaf á átröskun, þar sem ég hef kynnst stjórnleysinu hvað mest sjálf.“

Hvaða ráð áttu fyrir fólk sem vill upplifa innihaldsrík jól á þessu ári?

„Kannski bara að taka Svisslendinga til fyrirmyndar og gera eitthvað með fjölskyldunni úti á jólunum. Að vera ekki að stressa sig of mikið á mat og pökkum, heldur að gera eitthvað skemmtilegt á heilbrigðan hátt. Það gerir manni gott að gera ánægjulega hluti. Áhugamál og skemmtun týnist niður þegar fólk er á valdi fíknar.“

Þar sem fíkn er yfir og allt um kring

Skáldsagan Fíkn hefur nú þegar vakið talsverða athygli lesenda sem gefa henni góða dóma fyrir meðal annars frumlegheit og raunsæi, en hún fjallar um líf Ellerts sem umturnast þegar hann heillast af myndlistarkonunni Freyju Negroni sem hefur nýlega snúið heim frá Ítalíu eftir erfiðan skilnað.

„Hann reynir að fylgja Freyju eftir í tryllingslegri rússíbanareið þar sem fíkn er yfir og allt um kring. Villt kynlíf og vímugjafar virðast aldrei langt undan. Lygarnar og svikin vinda svo upp á sig.“

Hvernig tilfinning er það að gefa út sína fyrstu bók?

„Nú í dag finnst mér það frábært en þetta er nýtt fyrir mér og vissulega búið að vera mikill tilfinningarússíbani sem ég hef ekki upplifað áður. Ef þú hefðir spurt mig rétt áður en bókin kom út, þá hefði ég líklegast svarað að mig langaði að hætta við allt saman. Ég var svo hrikalega hrædd. Ég hugsaði með mér: ,,hver þykist þú vera?“

Nú hafa viðtökurnar verið góðar. Ekki satt?

„Jú, og er ég einstaklega þakklát fyrir það sem ég hef lesið og séð og þá sérstaklega fyrir þá sem hafa skrifað umsagnir við upplestur bókarinnar á Storytel þar sem fjölmargir rita umsagnir um að þeir tengi við söguna,“ segir Rannveig og heldur áfram: „Þó mikið fari fyrir kynlífi og spennu í bókinni fjalla umsagnirnar á Storytel ekki um það. Lesendur virðast tengja við upplifun aðstandenda í bókinni og þeirra sem eru að glíma við fíkn á hinum ýmsu sviðum. Þeir virðast lifa sig inn í söguna sem mér þykir alveg svakalega vænt um.

Það að taka þátt í jólabókaflóðinu er svo allt önnur saga. Ég er ekki alveg komin þangað. Bókin var að koma út og ég er að hitta fólk og það er gaman. Í raun verð ég að viðurkenna að mér finnst þetta ein skemmtilegasta upplifun sem ég hef farið í gegnum. Það er ekki margt sem ég hef gert sem ég byrja á og týni tímanum í. Þegar ég hef þurft að fara á fund þá hefur mig langað að skrifa meira og beðið eftir að komast aftur í tölvuna. Ég vissi ekkert hvað ég var að fara að skrifa, hugsaði um söguna á milli þess sem ég skrifaði hana, og lifði mig svo mikið inn í söguna að ég gat verið alveg miður mín yfir því sem var að gerast hjá sögupersónunum, þó ég væri að skrifa framvindu sögunnar sjálf.“

Sagan bjó innra með henni

Rannveig segir söguna hafa komið til hennar og hún hafi í raun skrifað sig sjálf.

„Ég lifði mig svo inn í söguna að ég var inni í bókinni. Ég hef heyrt þetta frá öðrum rithöfundum, en það var magnað að upplifa þetta sjálf, það hvernig maður getur farið inn í annan heim og séð persónurnar fyrir sér, ljóslifandi í huganum.“

Rannveig er í námi við Kings College í fíknifræðum og áhugavert að lesa þá þekkingu í gegnum söguna, þar sem bæði er fjallað um glansmyndina en einnig það sem enginn segir frá. Minningarnar sem fólk heldur í þegar það er í bata, til að halda sig frá því sem það skaðaði sig með.

„Já, mér þykir svo vænt um þann hluta bókarinnar, til dæmis þegar Freyja vaknar á vinnustofunni sinni og lítur í símann sinn, til að athuga við hvern hún var að tala kvöldið áður. Það er eitthvað sem margir geta án efa lifað sig inn í.“

Svo er það baslið við að halda í hið hefðbundna líf. Sem dæmi að hugsa um börnin sín.

„Hluti bókarinnar fjallar einmitt um þann hluta sem er svo mikilvægur. Það hvernig fólk virðist geta boðið sér upp á allskonar hluti, en svo þegar það er gengið of langt og það gæti náð til barnanna, þá held ég að það sé gott að stoppa. Þegar maður er orðinn hræddur um barnið sitt.“

Titill bókarinnar minnir á að sagan er ekkert grín

„Svo tala einstaklingar sem kljást við fíkn um að þeir elski börnin sín jafn mikið og aðrir en að huglæga og líkamlega þráhyggjan taki yfir allt sem skiptir mestu máli. Bókin er í það minnsta áhugaverð saga en kápa bókarinnar minnir okkur á að umfjöllunarefnið er ekkert grín.“

Hvað ætli þeir sem eru að glíma við fíknivanda séu að fara í gegnum á jólunum?

„Ég held að jólin geti oft verið erfiður tími. Í raun oft sá erfiðasti því þá getur fólk verið að fást við svo mikið. Þá er oft mesta stjórnleysið og þá er oft byggt á verstu minningunum. Þeir sem eiga hamingjusamar góðar fjölskyldur átta sig oft ekki á hvað fólk í óheilbrigðum fjölskyldum eru að fara í gegnum. Hvað jólin og hátíðisdagar geta verið erfiðir.

Fyrir börn geta jólin verið hræðilegur tími þar sem mikil drykkja og rifrildi einkenna heimilislífið. Jólin eru því oft virkilega kvíðavaldandi.“

Fíkn er ástarsaga í grunninn. Eða í það minnsta tilraun fólks til að elskast. Er það ekki?

„Jú, við getum í það minnsta sagt að ást komi við sögu í bókinni en hún er svolítið þráhyggjukennd og sjúk en það er alveg ást þarna líka. Lífið er ekki bara svart eða hvítt. Sagan bullaðist út úr mér og ég skrifaði bara það sem mig langaði að skrifa um. Tilgangurinn með sögunni var að fá fólk til að muna hvernig hlutirnir eru raunverulega, ef við tökum allar kenningar og módel og setjum það til hliðar og tengjum í tilfinningarnar okkar í staðinn.

Mér eru svo minnisstæð orðin hennar Freyju í bókinni þegar hún segir: ,,Ég er ekki lengur Freyja listamaður sem er að slá í gegn, ég er bara gangandi vandamál því ég fæ mér aðeins oftar í glas en Ella finnst við hæfi.“

Þetta er eitthvað sem við verðum að horfa á raunsætt og átta okkur á. Við getum ekki bara litið á fólk sem veikt, það er líka með allskonar styrkleika sem vert er að skoða.

Sjálf get ég lifað mig inn í þetta því eins og ég hef fjallað um áður í viðtölum, þá var ég með átröskun þegar ég var yngri og get tengt við þessa upplifun Freyju. Á sama tíma þá gekk mér mjög vel í skóla. Ég sinnti mörgu, átti góða vini og fleira. Vandinn getur bara orðið svo stór og tekið yfir hvernig aðrir sjá viðkomandi. Af þessum sökum finnst mér svo mikilvægt að við séum umburðarlynd hvert gagnvart öðru og áttum okkur á því að fíkn er flókin.“

Settist ekki niður til að skrifa um kynlíf

Aðstandandinn er svo oft uppfullur af ótta og telur sig vita betur en fíkillinn. Hvaðan svo sem sú hugmynd er komin.

„Allar eða að minnsta kosti margar kenningar innan fíknifræða eru réttar að mínu mati en þær horfa á vandamálið út frá mismunandi hliðum.

Þeir sem vilja gagnrýna sjúkdómamódelið sem dæmi þurfa bara að skoða heilann með heilaskanna til að sjá afleiðingar sem dæmi drykkju.

Svo eru vísbendingar um að áföll raski „oxýtósin“-kerfi líkamans.

Bókin er fyrir almenning og ekki gerð til að fræða heldur frekar til að fá fólk til að tengja. Enda erum við öll í sama liði.“

Af hverju er svona mikið kynlíf í bókinni?

„Af því að þetta er stjórnlaust fíknisamband á milli Freyju og Ella. Því meira sem ég hugsaði um persónurnar í bókinni, þeim mun meira fannst mér passa að setja inn smá kynlífsfíkn. Svo er sagan um ungt fólk, rétt undir og yfir þrítugt, þá er eðlilegt að það sé mikið kynlíf. Drifkrafturinn í söguþræðinum sýnir einnig hversu háður Elli er Freyju. Mér fannst þetta bara passa.

Ég settist samt ekki niður og ákvað að skrifa bók um kynlíf. Það bara gerðist.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál