Það þarf ekki að kosta mikla peninga að búa til rétta jólastemningu

Halla Bára Gestsdóttir er einn af höfundum bókarinnar Desember sem …
Halla Bára Gestsdóttir er einn af höfundum bókarinnar Desember sem kom út á dögunum. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Halla Bára Gestsdóttir er höfundur bókarinnar Desember, sem hún skrifaði ásamt eiginmanni sínum, Gunnari Sverrissyni, og vinkonu þeirra, Margréti Jónsdóttur leirlistakonu á Akureyri og Móheiði dóttur Margrétar. Halla Bára segir að það þurfi ekki að kosta mikla peninga að búa til sanna jólastemningu og rétt lýsing geti skipt sköpum til þess að hafa það sem best. 

„Hugmyndin að Desember er hreint ekki okkar hjóna. Við tvö hefðum líklega ekki farið í að gera bók sem þessa þótt hún falli vel að okkar útgáfu hjá Home and Delicious. Þegar við vorum að vinna við síðustu bókina okkar, Heimili, þá tókum við myndir hjá Margréti Jónsdóttur, leirlistakonu á Akureyri, sem er góð vinkona okkar. Við vorum að sjálfsögðu heilmikið að spjalla við hana og Móheiði, dóttur hennar, og í spjallinu vörpuðu þær fram þeirri hugmynd að þær langaði svo til að gera jólabók og hvort við værum kannski til í að gera hana með þeim.

Við vorum strax til í það og þarna í september í fyrra byrjuðum við á undirbúningi á fullu og myndatökur hófust snemma í desember. Það var skemmtilega nýtt að vinna að bók á okkar vegum með öðrum en gat ekki verið betra en með þeim mæðgum. Við veltum mikið fyrir okkur efnistökum og uppsetningu og vorum sammála um að bókin ætti að vera um desember, aðventuna og jólin. Áherslan er ekki á jólin sjálf heldur vikurnar fram að jólum – hún er um þennan dimmasta tíma ársins og hvernig má njóta hans, sama hver við erum og hvaðan við komum. Desember byggist á innblæstri og hugmyndum fyrir hlýja og einlæga samveru án allrar tilgerðar og upphefðar og svo eru þar gómsætar uppskriftir sem þær mæðgur gera mikið fyrir sig og sína á þessum árstíma. Þær uppskriftir eru hins vegar þannig að margir eiga eftir að elda þær og baka aðra mánuði ársins og taka Desember niður úr hillunni í mars jafnt sem maí,“ segir Halla Bára.

Hér má sjá kökur á kökudiski eftir Margréti Jónsdóttur leirkerasmið.
Hér má sjá kökur á kökudiski eftir Margréti Jónsdóttur leirkerasmið. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Þegar hún er spurð hvort þau hjónin séu mikil jólabörn segir hún að þau séu meira svona desemberbörn.

„Við erum fyrir allt það ljúfa sem desember getur boðið okkur upp á. Í venjulegu árferði er töluvert um að vera hjá okkur í desember, það eru afmæli í desember sem oft verða að jólaboðum og svo höfum við verið að gefa út bækur sem þarf að sinna í desember. Í flestum tilfellum eyðum við svo jólunum á Akureyri hjá foreldrum, tengdaforeldrum, afa og ömmu og það er rosa jólalegt!“

Hvað er það við jólin sem er heillandi?

„Jólin geta verið yndislegur tími fyrir fólk en þau geta líka verið erfið fyrir marga. Þau kalla fram svo miklar minningar sem geta verið sárar og því getur þessi tími sem jólin eru verið allt annað en gleðilegur. En það sem gerir jólin heillandi, fyrir mig og okkur fjölskylduna, eru líka vikurnar fram að jólum. Við höfum það mottó að vilja og reyna að hafa alla daga góða daga og það sama á við um desember. Við köllum bara fram aðra stemningu í myrkrinu með ljósum, mat og bakstri, góðri lykt, tónlist, fallegum blómum, jólakvikmyndum og ýmsu sem til fellur. Svo þegar kemur að jólunum sjálfum, þá hefur desember ekki einkennst af bið eftir þessum nokkru dögum, heldur þvert á móti leitt okkur ljúflega inn í jólin.“

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Hvað getur fólk gert til að búa til ríkulega jólastemningu án þess að það kosti of mikla peninga og tíma?

„Ég hugsa alltaf fyrst um ljós og lýsingu í formi kerta, sería og pappastjarna því að mínu mati er það alltaf lýsing sem skapar stemningu, sama hver árstíminn og tilefnið er. Hvít loftlýsing í botni gerir ekki mikið til að skapa hlýtt andrúmsloft og vellíðan ef ekki þarf hreint og beint á henni að halda, heldur þarf að deyfa ljós og leyfa mýktinni að flæða. Ég vil ekki hafa seríur og pappastjörnur með hvítu ljósi heldur gylltu og ekki spillir ef hægt er að stilla styrkinn á ljósinu.

Við höfum ekki verið mikið í því að kaupa annað skraut því þetta er svo mikilvægt atriði að mínu mati og gerir allra mest. Lykt af smákökubakstri er alltaf heillandi á þessum árstíma. Að taka fram alla kassa með jólaskrauti liðinna ára, raða því fallega saman og kalla fram minningar með gömlu skrauti og jafnvel lúnu. Fegurðin er ekki fólgin í fullkomnun, heldur þvert á móti. Annars sýnir nýja bókin okkar á einstaklega fallegan hátt hvernig má kalla fram einstaka jólastemningu án fyrirhafnar eða kostnaðar,“ segir Halla Bára.

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Hvað kemur þér í jólaskap?

„Það er ekki eitthvað eitt heldur svo margt en mér finnst það alltaf vera tengt minningum sem vakna við að sjá og heyra, finna lykt, smakka og koma við. Þetta ár sem við höfum verið að vinna að þessari bók hefur oft komið fram jólatilfinning innra með mér sem mér finnst einmitt styðja það sem ég er að tala um að kveiki þetta jólaskap.

Þegar við vorum að mynda í desember í fyrra var mjög margt og mikið jólalegt í gangi hjá okkur. Þegar við mynduðum mestallan matinn í febrúar, og allt var á kafi í snjó á Akureyri, þá kom þessi tilfinning oft fram. Við mynduðum hins vegar nokkrar uppskriftir í júlí og ágúst, þegar sumarið var í hápunkti fyrir norðan og hitinn um 25 gráður, og ég viðurkenni að þá gerði þessi tilfinning lítið vart við sig. Þannig að það má segja að desember hafi komið nokkrum sinnum hjá okkur á einu ári og jólin verið extra löng! Ég hlakka mikið til aðventunnar og jólanna að þessu sinni, margt skemmtilegt í gangi en hvað skemmtilegast finnst mér þó að við hjónin eigum 20 ára brúðkaupsafmæli á gamlársdag. Því ætlum við að fagna.“

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Mæðgurnar Móeiður og Margrét leggja á borð.
Mæðgurnar Móeiður og Margrét leggja á borð. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál