Þú getur ekki tekið jólin úr stráknum

Guðmundur Egill Bergsteinsson.
Guðmundur Egill Bergsteinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Egill Bergsteinsson, eigandi frumkvöðlafyrirtækisins Lightsnap, leggur mikinn metnað í frumlegar og persónulegar jólagjafir. Fatnaður og raftæki leynast aldrei í jólapökkum frá Guðmundi. Morgunganga í mildu vetrarveðri kemur Guðmundi í jólaskap.

„Það er eitthvað við brakið í snjónum í hverju skrefi sem kitlar nostalgíutaugina, sem er jú það sem jólin snúast um fyrir mér, að minnast þess hversu yndislegt það var að vera barn og hversu mikilvægt það er að hægja aðeins á og labba í snjónum af og til.“

Hvað er ómissandi um jólin?

„Já, það er góð spurning. Ég segi nú alltaf stundum að Egils Malt og Appelsín er það sem gerir jólin fín. En ætli það sé ekki jólatónlistin sem skiptir mig mestu máli um jólin, þótt ölið sé gott. Tunglið, tunglið taktu mig er til dæmis í miklu uppáhaldi hjá mér og kemur mér í jólagírinn þótt það sé ekki hefðbundið jólalag. Svo eiginlega bara allt sem ég finn sem er með kirkjuklukknahljómi. Ég er algjör „sökker“ fyrir stemningunni. Ætli það sé ekki að mestu komið frá henni ömmu, hún er mikið jólabarn. Það mætti nánast kalla mig barnabarn jólanna.“

Guðmundur er heppinn þar sem hann á mjög marga vini. „Það getur þess vegna verið mikill hausverkur að dæla út gjöfum á alla. Ég hef tekið upp á því sem skipuleggjandinn í öllum mínum vinahópum að sameina alla í pöbbarölt yfir hátíðirnar. Þetta hefur vakið mikla lukku og kallast hið árlega jólaslabb og ég hef reynt að halda þetta hvert einasta ár. Þarna hafa allir mínir vinir möguleika á því að kynnast á jöfnum grundvelli og aldrei sakar það að fá sér einn til tvö jólabjóra með. Ég er og hef alltaf verið mjög skipulagður og reglusamur og vinirnir hafa stundum látið það fara í taugarnar á sér en þeir eru yfirleitt mjög sáttir með jólaslabbið,“ segir Guðmundur.

„Í jólagjafainnkaupum legg ég mikinn metnað í frumleika og reglugerð. Ég til dæmis kaupi eina jólagjöf og fæ mér einn jólabjór, það hefur endað misvel en það er alla vega eftir bókinni. Mamma, pabbi og systir mín fá alltaf skemmtilegar gjafir frá mér, en mesti metnaðurinn fór alltaf í fyrrverandi. Jólin 2016 gaf ég henni til dæmis myndaalbúm með svona „soft“ nektarmyndum af sjálfum mér sem okkur fannst afskaplega fyndið. Ég hef aldrei verið mikið fyrir að gefa föt eða raftæki, þannig að ég reyni að gefa persónulegar gjafir,“ segir hann.

Guðmundur segist aldrei hafa séð eftir persónulegu gjöfunum sem hann hefur gefið. Fyrir nokkrum árum gaf hann vinum sínum heimagerð Pókemónspil en hann var þar í hlutverki Gummasaurs. „Ég tók gömul Pókemónspil og skóf myndina af Pókemóninum og photoshoppaði mynd af mér með Pókemónbakgrunn og límdi hana í staðinn.“

„Þessi hugmynd spratt upp þegar ég var yngri, þá gaf pabbi mér fyrsta Pókemónpakkann í afmælisgjöf og út frá því þá byrjaði ég að safna Pókemónspilum. Ég var kominn með frekar gott safn þótt ég segi sjálfur frá. Eftir að ég opnaði fyrsta pakkann þá var ekki aftur snúið, ég var kominn með Pókemónæði. Og líklega farinn að hugsa aðeins lengra en aðrir Pókemónsafnarar. Ég var farinn að búa til mína eigin Pókemóna í hausnum og gefa þeim trikk eða galdra og nöfn. Ég leit ekkert vel út hjá samnemendum mínum þegar ég var að kalla á Appir eða Hollem. En það sem mig vantaði á þessum tíma var að geta sett hugmyndir mínar á Pókemónspilin. Ekkert varð úr Appir eða Hollem og Pókemónæðið minnkaði og fjaraði út.

Það var síðan fyrir fimm árum þar sem ég er að grafa í gömlum kössum að ég finn Pókemónsafnið. Fullt af minningum fylgdu safninu en þá mundi ég einmitt eftir Appir og Hollem og fer aðeins að pæla í þessu og hvernig ég gæti gert svona Pókemónspil. Ég fékk þá hugmynd að photoshoppa og úr því varð þessi gjöf. Ég gaf vinum mínum sem voru gamlir Pókemónsafnarar spilin og segja þeir að þetta sé sjaldgæfasta Pókemónspilið á markaðnum í dag. Hefði verið gaman að hafa mig í glansi. Lengi lifi Pókemón.“

Hefur þú búið til aðrar sniðugar gjafir?

„Faðir minn á það til að gleyma eða týna fötunum sínum út um hvippinn og hvappinn. Þegar hann finnur til dæmis ekki peysuna sína gengur hann oftar en ekki í fataskáp sonarins til að grípa sér eitthvað að láni. Það verður þá í framhaldinu til þess að ég finn ekki tiltekna flík þegar ég ætla svo í hana. Eitt skiptið þegar ég var búinn að leita dyrum og dyngjum að uppáhaldslopapeysunni minni og uppgötvaði svo að pabbi væri líklega með hana ákvað ég að þá um jólin myndi ég bara prjóna peysu fyrir hann. Ég hef reyndar aldrei verið mikill prjónakall þótt maður grípi í þá endrum og eins og maðurinn er ekki beint í „small“ en það tókst á endanum. Eftir á að hyggja hefði ég samt líklega átt að velja einfaldara munstur. Þótt ég hafi verið með smá sinaskeiðabólgu og axlirnar ansi stífar á aðfangadagskvöld var það alveg þess virði.

Hlutir sem hægt er að safna, leika sér með eða spila allt í senn hafa alltaf heillað mig. Ég man til dæmis hvað ég öfundaði systur mína af gríðarstóru Pox-safninu hennar og færni hennar með sleggjuna á sínum tíma þótt ég hafi verið of ungur sjálfur til að komast upp á lagið með það. Jójó-æðið er líka eitthvað sem ég hefði mikið verið til í að upplifa. Verandi af þeirri kynslóð sem ég er af átti Pokémon því skiljanlega hug minn allan á mínum yngri árum en engu minni athygli fengu þó Dracco-kallarnir sem ég safnaði í gríð og erg. Ein jólin ákvað ég að föndra mína eigin Dracco-kalla úr fímóleir og gefa í gjafir. Ég varð kannski helst til stórtækur og lét mér ekki nægja að gera eingöngu fyrir mína nánustu. Mér fannst stórfjölskyldan, vinirnir, skólafélagarnir, kennarar, þjálfarar og sundlaugarverðir auðvitað öll þurfa að eignast „custom made Dracco-kall by Gummi“. Á endanum urðu þeir því 103 talsins.“

Þú getur tekið strákinn úr jólanáttfötunum, en þú getur ekki tekið jólin úr stráknum er setning sem faðir Guðmundar sagði oft og segir reyndar enn. „Hann er jafnvel enn meiri jólaálfur en ég. Hann er byrjaður að skreyta heima í byrjun október,“ segir Guðmundur um föður sinn og segist enn ekki vaxinn upp úr jólunum.

mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál