Sigríður á eitt best skreytta heimili Reykjavíkur

Sigríður Ásdís Þórhallsdóttir.
Sigríður Ásdís Þórhallsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Ásdís Þórhallsdóttir, eða Sigga Dísaeins og hún er kölluð, er mikið jólabarn sem er kannski ekki skrýtið því hún á afmæli 14. desember. 

Sigga Dísa starfar í móttökunni í verslun Origo í Borgartúni og er alltaf í miklu jólaskapi í versluninni. Það fer ekkert fram hjá viðskiptavinum og samstarfsfólki hennar. Hún smitar þannig út frá sér jólastemningunni.

„Stundum held ég að af því að ég fæddist 10 dögum fyrir jól að ég sé svona mikið jólabarn. Ég er líka mjög spennt að halda upp á afmælið mitt og síðan koma jólin þannig að það er nóg að gera hjá mér í desember,“ segir hún.

Sigga Dísa segist skreyta mjög mikið þannig að það er alltaf komin jólastemmning á heimilið hennar í lok nóvember.

„Mamma og pabbi gáfu mér í afmælisgjöf í fyrra jólaskraut inn á salernið sem ég hef hengt upp, sturtuhengi, baðmottu og klósettseta í stíl með jólasveinum. Þetta hefur slegið í gegn hjá vinum og kunningjum sem koma í heimsókn um jólin, sumir springa úr hlátri og liggja hér í kasti þegar þau kíkja inn á bað,“ segir hún og brosir.

Sigríður Ásdís ásamt syni sínum, Ólafi Ólafssyni.
Sigríður Ásdís ásamt syni sínum, Ólafi Ólafssyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Klæðir sig í jólaföt alla daga í desember

„Ég klæði mig í jólaföt alla daga í desember og mæti þannig klædd í vinnuna mína hjá Origo. Ég er alltaf með jólaeyrnalokka, klæði mig í jólakjóla, jólapeysur, jólabuxur, jólasokka og jólavesti um jólin. Ég smita án efa út frá mér jólastemmninguna enda alltaf í sérlega góðu jólaskapi í desember,“ segir hún og brosir.

„Það er skemmtileg stemmning í Origo fyrir hátíðarnar. Við skreytum auðvitað í versluninni en það mætti alveg meira skraut að mínu mati, ég er ekkert að vinna með mínimalískan lífsstíl þegar kemur að jólaskrauti. En við erum í jólaskapi í versluninni, spilum jólalög og höfum bara sérlega gaman fyrir jólin.“

„Ég er meira fyrir gamalt jólaskraut, jólasveina og helst þarf allt að vera í rauðum lit, uppáhaldsskrautið mitt er fyrsta jólaskrautið sem ég keypti mér sem eru jólafígúrur að róla sér í tré, algjörar dúllur. Ég byrjaði í fyrra að safna jólalukkutröllum sem eru sjúklega sæt og mér finnst voðalega gaman að spila jólalög af gömlum plötum. Ég á mikið jólaskraut frá ömmu minni og foreldrum mínum sem er gamalt og hefur að einhverja merkingu og mér þykir vænt um. Ég er minna fyrir hlutlaust, hvítt, nútímalegt jólaskraut, mér finnst það mjög fallegt en finnst það ekki passa inn á mitt heimili.“

Dugleg að horfa saman á jólamyndir og spila

Sigga Dísa segist alltaf elda kalkún á aðfangadagskvöld.

„Við erum hér þrjú, sonur minn og dóttir eru með mér. Þau eru 12 og 14 ára og það er auðvitað mjög skemmtilegt að vera með þeim á jólunum. Við höfum það geggjað notalegt litla fjölskyldan í Kópavoginum. Við erum dugleg að horfa saman á jólamyndir og við spilum líka mikið borðspil. Við höfum það notalegt og kósí á jóladag og borðum kökur og konfekt, erum bara í náttfötunum og horfum á jólamyndir. Það er bara æðislegt finnst okkur. Ég slepp sem betur fer við jólaboð á jóladag. Mínar uppáhaldsjólamyndir eru Elf og Bad Santa. Þær eru alltaf í sjónvarpstækinu hér á heimilinu um jólin. Svo er Trölli stal jólunum með Jim Carrey alltaf klassísk jólamynd. Við horfðum einmitt á hana þegar við vorum að skreyta um daginn.“

Sigga Dísa er með gervijólatré og skreytir það með jólaskrauti sem henni þykir sérlega vænt um.

„Jóladúkurinn undir trénu er frá ömmu minni sem hún bjó til og svo á ég nokkrar jólakúlurnar eru frá henni líka en svo hef ég keypt eitt og annað í útlöndum sem mér finnst gaman að raða saman.“

Bakar smákökur fyrir jólin

„Ég hef gaman að baka smákökur fyrir jólin. Jólatónlistin hljómar líka um heimilið enda elska ég jólalög. Ég geymi að spila þau þar til í 1. desember, maður má heldur ekki fá leið á jólalögunum, þau byrja svolítið snemma á útvarpsstöðvunum. Í desember er ég alltaf með „Jóla-dagsins“ á Instagram þar sem ég set mynd af því sem ég er í þann daginn, hægt er að fylgjast með því Instagraminu mínu sem er siggadisa.“

Hún tekur þátt í uppsetningunni á vasaljósa jólaleikritinu Jólaskógurinn í Guðmundarlundi. „Skógurinn er skreyttur með ljósum og alls konar skrauti og er mjög flottur. Leikritið er inni í skóginum og þar myndast ævintýraleg jólastemmning. Það eru sýningar frá 27. nóvember og út allan desembermánuð. Jólaskógurinn var haldinn í fyrsta skipti í fyrra og verður aftur núna í ár og það er mikil tilhlökkun hjá mér og öllum sem taka þátt í því, það koma allir út úr skóginum í miklu jólastuði,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál