Skellur að fá ekki hund í jólagjöf

Jóhanna Ýr Hallgrímsdóttir.
Jóhanna Ýr Hallgrímsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhanna Ýr Hallgrímsdóttir markaðsstjóri er spennt fyrir aðfangadagskvöldi. Hún gerir alltaf ís á jólunum en ætlar nú að prófa sig áfram með Toblerone-súkkulaðimús. Hún fer ekki í mörg jólaboð í desember en verður í stóru boði á aðfangadagskvöldi með Finnboga Ágústssyni unnusta sínum og dóttur þeirra Hugrúnu Lind, stjúpdætrunum Guðrúnu Lilju og Sædísi Önnu Finnbogadætrum og fleira góðu fólki.

Jóhanna hefur áhuga á öllu sem tengist matargerð og bakstri og segir jólin skemmtilegan tíma á matvörumarkaðnum.

„Í mörg ár á skólabekk einkenndist desember alltaf af prófum og tilheyrandi stressi, það hefur því verið mikill léttir síðustu ár að geta bara slakað á og notið aðdraganda jólanna.

Fyrir mér eru jólin tími fjölskyldunnar og rólegheita, það er ekki mikið um jólaboð og veislur í minni fjölskyldu fyrir utan eitt og eitt boð, en það dreifist vel í desember svo það sleppur.“

Hvernig verða jólin?

„Það verður mikið fjör á aðfangadagskvöld. Foreldrar mínir, þau Guðrún Björk Geirsdóttir og Hallgrímur Óli Björgvinsson, verða með okkur ásamt Jóhönnu Hjörleifsdóttur ömmu minni, Birtu Lind Hallgrímsdóttur systur minni og Þórlaugu Ágústsdóttur systur unnusta míns. Við stefnum á að vera 10 saman þetta árið. Nú eru samningaviðræður hafnar um jólamatinn en við erum ekki alveg sammála um hvað eigi að vera á boðstólum, aðalatriðið er að finna eitthvað sem hentar öllum og spila út frá því. Mig grunar samt að eldamennskan muni enda á pabba en hann er frábær í eldhúsinu og hef ég lært margt af honum. Hann fær vanalega símtal þar sem hann gefur ráðleggingar með sósur, súpur eða eldun á kjöti í kringum jólin.“

Maturinn og samveran það sem mestu máli skiptir

Jóhanna segir pakkana skipta minna máli með árunum.

„Þá skipar samveran og maturinn alltaf stærri sess. Ég ólst upp við að á aðfangadag var mikið lagt í matinn hjá pabba og mamma sá um eftirréttinn og uppdekkingu á borðinu sem var ávallt stórglæsilegt.“

Er eitthvað sérstakt sem þú eldar eða bakar alltaf á jólunum?

„Ef það er eitthvað sem verður alltaf að vera á jólunum þá er það Toblerone-ísinn klassíski. Ég ætla líka að prófa að gera Toblerone-súkkulaðimús, svo það verða tvær tegundir af eftirréttum í boði þetta árið.“

Mælir ekki með að setja jólatréð í fullum skrúða í geymsluna

Jóhanna kann margar skemmtilegar sögur frá jólunum hér á árum áður.

„Pabbi ákvað eftir ein jólin að spara sér vinnu næstu jól og ákvað að pakka jólatrénu niður með öllu á, skrauti og seríu. Hann setti bara svartan ruslapoka yfir tréð og fór með það í geymsluna. Ég get ekki sagt að mamma hafi verið ánægð þegar hann kom næstu jól með tréð beyglað og fullskreytt úr geymslunni þegar mamma var búin að koma sér í skap til að hafa það notalegt og skreyta tréð. Við skulum orða það þannig að pabbi hefur ekki sett upp né tekið niður jólatréð síðan.“

Hver er besta gjöf sem þú hefur fengið á jólunum?

„Í mörg ár var ég alltaf að safna í búið og var með ákveðinn lista, þannig að þegar ég loksins keypti mér íbúð þá átti ég allt í eldhúsið, skrautmuni og fleira. Þannig að allt í búið var vel þegið og ég mæli með að safna hægt og rólega allavega svona klassískum hlutum. Ég mikið fyrir að fá eitthvað nytsamlegt í jólagjöf og í fyrra óskaði ég mér að fá góða gönguskó í jólagjöf og fékk þá. Þeir komu sér heldur betur vel í kórónuveiruástandinu þegar líkamsræktarstöðvum var lokað reglulega.“

Talandi um misheppnaða jólagjöf þá á Jóhanna skemmtilega minningu um jólagjöf sem var ekki eins og hún hélt.

„Ég á það til að verða of spennt fyrir hinu og þessu og ein jólin talaði stóri bróðir minn um að hann ætlaði að gefa mér hund í jólagjöf. Ég sagði öllum í bekknum frá því, fór og keypti hundaól og alls konar fylgihluti fyrir hund. Svo kom skellurinn, ég fékk bara engan hund í jólagjöf, minnir að þetta sé eina aðfangadagskvöldið sem ég hef farið að gráta. Stuttu seinna eignaðist ég svo loksins hundinn Skugga því ég gat ekki hætt að hugsa um að eignast hund og græjaði það bara sjálf.“

Toblerone-súkkulaðimús

Uppskriftin dugar í 8-10 glös eftir stærð

500 g Toblerone-súkkulaði (gróft saxað)

150 g smjör

4 egg

600 ml stífþeyttur rjómi (auka 500 ml til skrauts)

Saxað Toblerone og rifsber til skrauts

Bræðið gróft saxað Toblerone og smjör yfir vatnsbaði.

Þegar súkkulaðiblandan er slétt og fín er hún tekin af hitanum og leyft að standa í um 5-7 mínútur (hrært í af og til).

Eggin eru pískuð saman og bætt saman við í nokkrum skömmtum, hrært vel í blöndunni á milli.

Um 1/3 rjómans er þá blandað saman við súkkulaðiblönduna með sleif, síðan er restinni af rjómanum vafið saman við.

Skipt niður í glösin, kælið í að lágmarki þrjár klukkustundir (einnig í lagi að plasta og geyma yfir nótt).

Skreytið með þeyttum rjóma, rifsberjum og Toblerone.

Uppskriftin er eftir Berglindi á Gotteri.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál