Fyrstu jól dótturinnar áttu að vera fullkomin

Nína Richter var búin að sjá fyrstu jól dóttur sinnar …
Nína Richter var búin að sjá fyrstu jól dóttur sinnar fyrir sér sem fullkomin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar Nína Richter, blaðamaður, eignaðist sitt fyrsta barn, dótturina Vigdísi, var hún svo sannarlega búin að sjá fyrir sér hin fullkomnu fyrstu jól litlu fjölskyldunnar. Allt átti að vera upp á tíu, hún ætlaði að föndra öll jólakortin og vera búin að kaupa og pakka inn öllum jólagjöfum í október. Þegar klukkan sló 18.00 á aðfangadag var hins vegar ljóst að jólin yrðu ekki eins og hún hafði hugsað sér.

Jólin 2014 eru í minningunni eins og einhver grínmynd. Vigdís dóttir okkar var þriggja mánaða. Hún svaf illa fyrstu mánuðina og það var einstaklega kalt í veðri þessa mánuði og gosmengun í borginni að auki, þannig að skammdegið hafði einkennst af inniveru,“ segir Nína í viðtali við Jólablað Morgunblaðsins.

Nína er gift Kristjáni Hrannari Pálssyni organista og í dag eiga þau saman tvö börn, þau Vigdísi sjö ára og soninn Helga fimm ára. Jólin 2014 voru önnur jólin þeirra saman eftir eins og hálfs árs samband sem hafði einkennst af alvarlegum veikindum í fjölskyldunni. „Ég var þannig ekki í góðu jafnvægi, streitan upp úr öllu valdi og sjálfsmyndin frekar hökkuð. Ég hef sennilega ætlað að bæta fyrir það með því að fyrstu jólin hennar Vigdísar skyldu vera fullkomin. Við foreldrarnir myndum eiga fullkomnar minningar, við myndum taka fullkomnar ljósmyndir sem barnið gæti skoðað seinna og við myndum gefa hvort öðru fullkomnar gjafir. Við myndum borða fullkominn mat að auki og litla leiguíbúðin okkar átti að vera tandurhrein, stíliseruð og jólaleg eins og dúkkuhús á jólamarkaði í Vínarborg. Við keyptum svo mikið af jólaljósum fyrir þetta litla rými að það var eins og hásumar í stofunni allan desember. Svo ætlaði ég auðvitað að líta óaðfinnanlega út meðan á öllu þessu stæði,“ segir Nína.

Planið um að kaupa allar jólagjafirnar og pakka stóðst. Það gerði líka planið um að gera hin fullkomnu heimagerðu jólakort. Jólakortin slógu alveg í gegn og var Kristján ofboðslega hrifinn af kortunum sem tilvonandi eiginkona hans hafði föndrað. „Svo flott að hann fór að taka pantanir fyrir fjölskyldu og vini þangað til ég var, í byrjun desember, með pöntun upp á 120 heimaföndruð kort. Kristján vildi líka gera piparkökur en vildi baka þær sjálfur og mála þær. Hann hafði aldrei bakað piparkökur áður þannig að þetta kom að mestu leyti í minn hlut. Ég held að ég hafi aldrei bakað piparkökur síðan heldur kaupi ég þær bara tilbúnar,“ segir Nína.

Nína mun aldrei aftur elda neitt fimmréttað.
Nína mun aldrei aftur elda neitt fimmréttað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimmréttað á aðfangadagskvöld

Í uppskriftinni að hinum fullkomnu jólum var að sjálfsögðu matseðillinn. Það átti að vera fimmréttað í kvöldmatnum og svo var hún líka með fínan hádegisverð. „Ég hafði séð fyrir mér að Kristján myndi taka þátt í þessu með mér en þegar ég horfi til baka sé ég að hann var ennþá að jafna sig eftir veikindin og hafði hvorki áhuga á né getu til að halda jól, hvað þá vinna heimsmeistarakeppnina í jólahaldi. Þannig að ég tók þetta bara sóló, gersamlega að drepast úr gremju,“ segir Nína.

Þar að auki voru þau bókuð í matarboð á Þorláksmessu og í gigg í miðborginni. Giggið fól í sér að þau myndu flytja 300 kílóa rafmagnsflygil út úr íbúðinni sinni, upp þrjár hæðir á litlum veitingastað, syngja þar og spila í einn og hálfan tíma, pakka saman, sækja barnið í pössun og fara síðan og versla, kaupa þrjár tegundir af villibráð. Síðan áttu þau að fara í kósí Þorláksmessurölt um bæinn með kakó áður en þau færu heim að leggja lokahönd á undirbúning.

„Þegar í matarboðið var komið tilkynnti annar gestur að staðurinn sem bókaði okkur hefði farið á hausinn daginn áður. Ég fór inn á baðherbergi og grét af feginleik þegar ég fékk fréttirnar. Það segir sennilega sitt um streitustigið.“

Á aðfangadagsmorgun vaknaði svo Nína ónýt úr þreytu. Þá uppgötvaðist að hún hafði gleymt að kaupa avókadó í laxasalat sem hún ætlaði að gera að hefð frá og með þessum jólum.

„Ég fékk síðan símtal upp úr hádegi þar sem ættingi A, sem hafði tekið að sér að koma jólagjöfum til ættingja B, sagði að hann gæti ekki afhent gjafirnar af því að honum fannst svo langt síðan ég sá ættingja B. Ég var með pottana í eldhúsinu á fullu en tókst samt að græja kæró og auðvitað dótturina með í bíltúr í þarnæsta bæjarfélag til að hengja gjafir á hurðarhún, þar sem enginn var heima.

Á leiðinni heim tókum við Kristján síðan öskurrifrildi í bílnum. Honum fannst ég meðvirk. En mér fannst ég vera fórnarlambið, að reyna að útbúa hin fullkomnu jól fyrir alla og gera öllum til geðs, alltaf.“

Ómáluð með úfið hár og grátbólgin augu

Þegar litla fjölskyldan var komin heim eftir útstáelsið fór Nína á fullt í eldhúsinu. „Þetta var fyrir tíma samfélagsmiðlakúltúrs eins og hann er í dag, en ég ákvað samt að reyna að taka alla matseldina upp í tölvunni minni og framleiða einn lítinn sætan matreiðsluþátt. Ég byrjaði á að tala um forréttina á meðan ég raðaði á diskinn og horfði á vísana á klukkunni æða áfram. Mér fannst ég líka rosa feit á skjánum þannig að ég skipti um föt og byrjaði aftur. Þá varð tölvan rafmagnslaus,“ segir Nína.

„Ég byrjaði aftur. „Komið þið sæl og gleðileg jól, ég heiti Nína og nú er aðfangadagur, hér er á boðstólum grafið ærfillet, heitreyktar gæsabringur, léttreykt folald, kengúra með mangósalsa, innbakað lambafillet og að lokum creme brûlée ásamt ris à la mande í eftirré...“ og þá vaknaði barnið. Kristján rétti mér hana öskrandi rauða, hún var þyrst og það gekk fyrir öllu.“

Þegar klukkan sló sex var því ekkert annað tilbúið en forréttirnir, sem hún bar fram á sófaborðinu því eldhúsborðið rúmaði ekki alla fimm réttina og meðlæti. „Ég opnaði síðan fyrsta jólapakkann fyrir dóttur mína, sem glápti á hann áhugalaus. Ég var ómáluð með hárið úfið og grátbólgin augu, lystarlaus af stressi,“ segir Nína.

„Gott að heyra að ég væri ekki ein“

Fyrstu jólin voru ákveðin eldskírn fyrir Nínu, sem hefur síðan þá lært að forgangsraða hlutunum betur. „Það þarf alls ekki að taka allar hefðirnar, heldur kannski bara velja þær sem henta mér og minni fjölskyldu. Maður er ekkert verra foreldri þó að maður taki ekki alla orðabókina af jólasiðum. Hvað er ómissandi og hvað er maður að gera út af vana eða skyldurækni? Er maður kannski að framfylgja jólahefðum fyrir fólk sem er ekki á staðnum eða dó jafnvel fyrir löngu!“

Fyrir jólin 2015 skrifaði hún stuttan pistil um þessi fystu jól barnsins og birti á netinu. Þá rigndi yfir hana pósti og athugasemdum frá konum sem sögðust vera eða hafa verið í þessari sömu stöðu. „Ég held að þetta jóla-ofurálag sé frekar útbreitt. Það var gott að heyra að ég væri ekki ein í þessu, þó að mér finnist það svolítið dapurlegt líka.“

Nína segir að það hafi tekið þau fjölskylduna smá tíma að finna taktinn í jólahaldinu og þau læri auðvitað eitthvað með hverju árinu. Jólahaldið er að mestu hennar deild enn þá en Kristján er kirkjuorganisti og vinnur því mikið á þessum árstíma, sérstaklega yfir stórhátíðina. „Hann er til dæmis að tónlistarstýra og spila í tveimur messum á aðfangadag þetta árið, þar af syng ég í annarri, og hvort það er ekki annað eins á jóladag.“

Mun aldrei aftur elda neitt fimmréttað

Fjölskyldan hefur því lagað jólahaldið að sér, sem Nína segir miklu betra fyrir þau öll, og sérstaklega geðheilsu hennar. „Til dæmis er það ekki endilega þægilegast fyrir mín börn að taka þessa klassísku íslensku dagskrá; að bíða allan daginn, borða þunga máltíð í sparifötum, þar næst eftirrétt, og mega síðan opna tugi pakka á mettíma þegar komið er fram yfir háttatíma. Þetta hentar örugglega sumum fjölskyldum en virkar ekki vel hjá okkur. Ég virði það samt fullkomlega að fólk vilji halda í hefðir, og dæmi alls engan. Þetta er bara eitthvað sem hver og einn þarf að gera upp við sig.“

Á aðfangadagskvöld opna þau því bara hluta af pökkunum og leyfa börnunum að byrja á hádegi. Síðan eru þau með góðan fisk eða kjúkling í hátíðarbúningi í kvöldmatinn. „Eitthvað sem er létt í maga, krökkunum finnst gott og er einfalt og fljótlegt að elda. Ég mun aldrei aftur elda neitt fimmréttað. Og við afþökkum yfirleitt jólaboð yfir stórhátíðina. Það bíður bara þangað til börnin verða eldri,“ segir Nína.

Síðan hefur hún markvisst reynt að færa dagskrána yfir á jóladag. Þá er andrúmsloftið rólegra og fjölskyldan nýtur tímans saman betur. Þau borða afganga frá kvöldinu áður í nýjum náttfötum, opna afganginn af pökkunum saman, baka smákökur úr tilbúnu deigi, horfa á jólamyndir, sofa og lesa.

Spurð hvað hún ætli að hafa í matinn í ár segist Nína eiginlega ekki hafa pælt í því, sem er sennilega gott merki að hennar mati. „Krakkarnir hafa beðið um kjötbollur eða hangikjöt með kartöflum og uppstúf. Engin kengúra, ekkert rugl.“

Jólin koma þó ekki nema hún fái tvennt; panettone-köku og rósakál. „Ég vann í sælkeraverslun í miðbænum fyrir nokkrum árum og þar lærði ég að meta ítölsku hátíðarkökuna panettone. Einmitt svona kaka sem maður kaupir bara tilbúna, sem er fínt fyrir batteríin. Svo borða ég yfirleitt rósakál með hátíðarmat, lagað að ítölskum sið með ólífuolíu, sítrónu og smá salti. Það koma engin jól án rósakáls.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál