„Ég er ekki með neina jólaþráhyggju“

Elínborg Sturludóttir.
Elínborg Sturludóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elínborg Sturludóttir dómkirkjuprestur segir jólin hápunkt ársins hjá prestum, sem oftar en ekki þurfa að finna jafnvægið á milli vinnu og þess að upplifa hátíðina með þeim sem þeir elska mest. Hún er mikið jólabarn í eðli sínu og hlakkar alltaf til jólanna sem henni finnst yndisleg.

„Jólin vekja hjá mér góðar tilfinningar. Nú í seinni tíð eru jólin jafnframt annasamur tími þannig að ég þarf að undirbúa þau vel svo annir þeirra verði ekki streituvaldur!“

Er eitthvað sem þú gerir alltaf á jólunum?

„Ég fer auðvitað alltaf til kirkju og í sparifötin alla jóladagana. Ég hlusta líka mikið á fallega tónlist, en auðvitað hefur líf mitt og fjölskyldunnar litast af því undanfarin 18 ár að ég hef verið prestur og um jólin eru prestar önnum kafnir við að messa. Við fjölskyldan höldum hefðbundin jól eins og aðrir með veglegri máltíð á aðfangadag og rólegheitum á jóladag þar sem við lesum bækur og höfum það gott.“

Finnst jól og sól ekki fara saman

Elínborg hefur aldrei farið á sólarströnd um jólin eins og færist í vöxt að gera.

„Jól og sól finnst mér ekki eiga saman en kannski á það eftir að breytast. Auðvitað getur maður fundið helgi jólanna hvar sem er, hvort sem það er á sólarströnd eða sjúkrahúsi. En í mínum huga eiga jólin og heimilið saman, mér finnst þetta vera heilög tvenna! Ég er hins vegar ekki mjög stíf varðandi jólahaldið. Það þarf ekkert endilega allt að vera alltaf eins.

Ég er ekki heldur með neina jólaþráhyggju. Það þarf ekki að gera stórhreingerningu heima hjá mér fyrir jólin, eða allt að vera fullkomið, en fjölskyldan mín hefur lært að aðlaga sig því að við hjónin höfum ríkar skyldur um hátíðarnar og þurfum þess vegna að vera sveigjanleg. Það hefur líka sett mark á jólahaldið að við höfum í yfir 20 ár búið langt frá stórfjölskyldunni þannig að við höfum ekki farið í jólaboð um hátíðarnar eins og flestir gera, einfaldlega af því að veður, vegalengdir og færð hafa komið í veg fyrir það!“

Mikilvægt að njóta jólaföstunnar

Hvað getur þú sagt mér um örpílagrímagöngur frá Dómkirkjunni í aðdraganda jólanna?

„Ég verð með örpílagrímagöngur á aðventunni og þema þeirra verður án efa það að njóta jólaföstunnar. Forðast asa og streitu en leggja ríka áherslu á kyrrð og frið og fegurð.

Ég reikna með að síðasta örgangan fyrir jól verði 15. desember.“

Hvernig ræktar þú trúna á jólunum?

„Um jólin legg ég bara fyrst og fremst áherslu á að taka við gleðiboðskap jólanna og njóta þeirra. Ég hins vegar legg mig fram um að nota aðventuna, jólaföstuna, til að rækta trúna, fara inn á við eins og gamla hefðin gerir ráð fyrir. Það er að leyfa aðventunni að vera föstutími þar sem dregið er úr ofgnótt og neyslu og meira lagt upp úr jólaundirbúningi með helgun og hreinsun. Ég fer sem dæmi ekki margoft á jólahlaðborð eða eltist við alla tónleika og viðburði. Þvert á móti. Ég legg mig fram um að draga úr asa og streitu og lifi hófsömu lífi.“

Þurfti að fresta jólunum eitt árið

Hvernig gerir þú vel við þig og fjölskylduna í mat á jólunum?

„Þegar börnin mín voru lítil var alltaf hangikjöt á aðfangadagskvöld af því að það var svo fljótlegt og ég alltaf að messa. En eftir að þau urðu liðtæk í eldhúsinu var farið að elda kalkún. Dóttir mín hefur borið hitann og þungann af þeirri eldamennsku undanfarin ár. Nú er hún hins vegar orðin vegan og það setur strik í reikninginn því nú þarf að vera margréttað til að allir fái eitthvað við sitt hæfi! Ég hygg að þetta sé dæmigerður nútímalúxusvandi! En ég held mig við það að gera alltaf heimagerðan ís og sörur og oft hef ég gert enska jólaköku, sem börnunum mínum finnst ekki jafn góð og mér, en mamma gefur mér alltaf hvíta lagtertu sem hún bakar og mér finnst algerlega nauðsynleg með kaffinu á jóladagsmorgun!“

Áttu skemmtilega sögu að segja af þér á jólunum?

„Jólin 2006 var ég barnshafandi og þreyttari en endranær. Það hafði verið mikið að gera í aðdraganda jóla og svo var ég með guðsþjónustu á Kvíabryggju klukkan tvö á aðfangadag og svo með barna- og fjölskyldumessu í Grundarfjarðarkirkju klukkan fimm. Þegar við vorum búin að borða kvöldmatinn var ég svo þreytt að ég sofnaði í stofusófanum þegar komið var að því að taka upp pakkana og þegar ég var búin að sofa þar í dágóða stund og krakkarnir mínir að leika sér með fyrstu gjafirnar sem komu úr fyrstu pökkunum flutti ég mig inn í rúm og þau frestuðu jólunum. Síðar um kvöldið reif ég mig á fætur og var með miðnæturmessu. Við tókum upp gjafirnar á annan dag jóla! Þannig að við frestuðum bara jólunum!“

Gott fyrir andlegt líf að ganga um í þögn

Hvernig verða jólin þín á þessu ári?

„Ég mun syngja messu sem verður útvarpað á aðfangadagskvöld og svo verður miðnæturguðsþjónusta í Dómkirkjunni. Ég messa svo á 2. dag jóla, prédika á gamlárskvöld og syng messu á nýársdag. Þess á milli mun ég örugglega bara njóta þess að vera heima hjá mér með mínu fólki, lesa og fara í gönguferðir.“

Fyrir þá sem vilja öðlast meira andlegt líf á jólunum, áttu nokkrar góðar hugmyndir að deila með okkur?

„Ég mæli eindregið með því að fólk sæki kirkju. Yfirleitt fær maður um nóg að hugsa með því og svo er tónlistin sem við fáum að hlýða á í jólamessunum svo nærandi. Það þarf auðvitað ekki að segja Íslendingum að bækur ýti undir andlegt líf, því það gera þær. Þess vegna tilheyrir að lesa góða bækur um jólin. Ég les einkum fagurbókmenntir og ljóð. Mér finnst það líka gott fyrir andlegt líf að ganga um í þögn og hlusta á náttúruna og hugsa. Þótt það geti verið yndislegt að ganga um með eitthvað í eyrunum þurfum við líka að draga úr áreitinu og gefa okkur svigrúm til að hugsa sjálfstætt eða ganga um með góðum vini eða ástvini og tala saman. Innihaldsríkt samtal er alveg sérlega nærandi og gott.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál