Ásdís hefur búið í París í 37 ár - svona eru jólin

Ásdís Ólafsdóttir.
Ásdís Ólafsdóttir.

Ásdís Ólafsdóttir listfræðingur er búsett í París. Hún er forstöðumaður Maison Louis Carré, sem er safn hannað af Alvari Aalto í nágrenni Parísar. Hún er hrifin af hefðbundnu jólahaldi Parísarbúa en segir fátt jafnast á við íslensku jólin. 

Ásdís segir að frakkar séu frekar afslappaðir þegar kemur að jólaundirbúningi eða allavega ef hún miðar við Norðurlandabúa.

„Í byrjun desember er kveikt á ljósaskreytingum við Champs Elysées og aðrar breiðgötur og stórverslanir eins og Galeries Lafayette eru með líflegar gluggaskreytingar fyrir börn á öllum aldri. Miðað við Ísland heyrist ekki mikið af jólalögum, nema bara rétt fyrir hátíðarnar.“

„Ég hef búið í Frakklandi í 40 ár, hversu ótrúlegt sem mér finnst það hljóma, þar af 37 ár á Parísarsvæðinu. Ég kom hingað til náms í listasögu og fór síðan að vinna og þannig æxlaðist að ég settist hér að,“ segir hún og þegar hún er spurð um jólin í París segir hún að þau séu misjöfn eftir þjóðfélagshópum, trúarbrögðum og uppruna. „Hin hefðbundnu kaþólsku jól byrja á miðnæturmessu og er ekki borðað fyrr en eftir hana. Jólahald er ekki í eins föstum skorðum og á Íslandi, það er til dæmis misjafnt hvort gjafir eru opnaðar á aðfangadagskvöld eða jóladagsmorgun. Almennt einkennast jólin af því að fjölskyldur koma saman til að borða góðan mat og drekka góð vín. Borðhald getur tekið óralangan tíma!“

Menning og listir skipta hana alltaf máli

„Menning og listir skipta mig alltaf miklu máli og það er upplagt að nota jólafríið og skammdegið til að fara á sýningar, í leikhús og sjá annað skemmtilegt.“

Hvað með fatnað og að gera sig til. Franskar konur hafa einstakt lag á því, hvernig hefur það smitast til þín?

„Það er aðeins misjafnt eftir þjóðfélagshópum hvað fólk hefur sig mikið til. Meðal okkar vina er klæðnaður frekar afslappaður. Mér finnst Íslendingar gera meira úr því að klæða sig upp á hátíðum. Mér finnst alltaf gaman að breyta til og gera mig fína og skrifa það frekar á íslenska arfinn en þann franska,“ segir hún.

Hvað ertu vanalega með að borða og getur þú sagt mér aðeins frá því hvernig þú samhæfir þínar hefðir staðnum sem þú býrð á?

„Maðurinn minn er franskur og við höfum fundið eins konar jafnvægi í okkar jólasiðum. Ágreiningsefni var lengi klukkan hvað við ættum að borða á aðfangadagskvöld, ég vildi borða frekar snemma og hann seinna. Við enduðum með því að fara eins konar milliveg. Við borðum það sem okkur langar í, oft ostrur og sjávarfang í forrétt, síðan fasana, flamberaðan hörpudisk eða annað góðgæti. Í eftirrétt hef ég yfirleitt „riz a l'amande“ eftir danskri uppskrift frá mömmu. Í minni barnæsku var það haft á undan matnum með möndlugjöf, en ég vel að hafa það í eftirrétt með sósu úr rauðum berjum í stað hinnar hefðbundnu sveskjusósu. Við fáum okkur yfirleitt gott kampavín í fordrykk og með matnum. Þannig að þetta er orðið eins konar samsull af frönskum og íslenskum siðum.“

Ásdís vinnur í fallegu umhverfi sem hún segir hafa áhrif á daglega lífið á margan hátt.

„Ég er svo lánsöm að vinna í sérlega fallegu húsi eftir Alvar Aalto, þar sem húsgögn, lampar og annað er allt upprunalegt. Ég hef alltaf verið fagurkeri og daglegt umhverfi mitt skiptir mig miklu máli. Það er kannski þess vegna sem ég elska París, þó að hún geti verið erfið er hún alltaf falleg.“

Frakkar eru með fallegustu byggingar veraldar að marga mati. Hvað er fallegasta umhverfið sem þú hefur komið í yfir hátíðina, í því samhengi?

„Mér finnst gaman að ganga um gömlu París í jólabúningi, fara inn í yfirbyggðar götur, svokallaða „passages“ þar sem eru litlar verslanir með fallega og sérstaka hluti. Setjast á kaffihús og virða fyrir mér mannlífið, ganga meðfram Signu eða yfir torgið hjá Louvre í ljósaskiptunum. Ég held ég sé næmari fyrir andrúmslofti en fyrir einstaka byggingum.“

Fyrir þá sem hafa alltaf dreymt um að ferðast til Parísar á jólunum. Með hverju mælir þú?

„Ég myndi mæla með því að fara á alla vega einn mjög góðan veitingastað í gömlu fallegu umhverfi. Fá sér kampavínsglas á „terrössu“, fara í óperuna eða Fílharmoníuna og heimsækja eitt af söfnunum í sögulegu rómantísku byggingunum í Mýrinni. Miðnæturmessan í reykelsisilmi í hverfiskirkjunni kemur manni í hátíðarskap og Versalir standa alltaf fyrir sínu.“

Hvers saknarðu helst frá Íslandi?

„Ég sakna fjölskyldunnar og ferska kalda loftsins, vetrarsólar, norðurljósa, gönguferða og rjúkandi sundlauga.“

Nú býrð þú í vöggu tísku og hönnunar í heiminum að margra mati. Hvað er góð tíska í þínum huga?

„Hugmynd mín um góða tísku hefur þróast undanfarin ár, nú vel ég frekar að kaupa færri en betri flíkur sem eru persónulegri og endast lengur. Það er alltaf gaman að fylgjast með sköpuninni á tískuvikunni, þar sem koma fram ferskir og áræðnir hlutir, líkt og í listum.“

Ásdís er farin að hlakka til jólanna þar sem hún verður með fjölskylduna sína á Íslandi þessi jól.

„Þótt mér þyki fínt að eiga mín afslöppuðu frönsku jól hlakka ég til að eiga þennan tíma með stórfjölskyldunni. Það er einhver hátíðleiki sem minnir mig á bernskuna og tilhlökkunina sem mig langar að gefa 10 ára dóttur minni hlutdeild í.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál