Svona pródúserar Hanna Kristín jólin

Hanna Kristín Skaftadóttir er komin í jólaskap.
Hanna Kristín Skaftadóttir er komin í jólaskap. mbl.is/Árni Sæberg

Hanna Kristín Skaftadóttir, lektor og fagstjóri viðskiptagreindar við Háskólann á Bifröst, er hreinlega ekki komin svo langt að hugsa til jóla. Hún leggur mest upp úr upplifun á jólunum og að vera með börnum sínum. 

„Ég geri sterklega ráð fyrir því að vera á Íslandi á jólunum. Almennt hef ég í gegnum tíðina ekki viljað hafa of mikil plön um hátíðarnar og frekar viljað njóta kyrrðar og samveru með krökkunum mínum án þess að vera í stressi.“

Hanna Kristín er ekki upptekin af því með hverjum hún er á jólunum svo framarlega sem hún er með börnunum sínum. Hún hefur upplifað jólin víða um heiminn og tekið sitt lítið af hverju og tileinkað sér frá ólíkum stöðum.

„Ein jólin okkar í Bandaríkjunum var þáverandi maðurinn minn á vakt á spítalanum þar sem hann starfaði sem læknir og ég og synir mínir vorum ein á aðfangadag. Þá tókum við upp á því að gera bara allt í sameiningu við þrjú, ég og synir mínir tveir, og búa til aðfangadagshátíð eftir okkar höfði. Þeir útbjuggu matseðil sjálfir og settu hann upp í wordskjali. Þá voru valkostir á matseðlinum sem hentuðu öllum; forréttur, aðalréttur, meðlæti og eftirréttur sem var hægt að velja um, og auðvitað drykkir. Þeir prentuðu svo út matseðlana, lögðu á borð og ég eldaði alls kyns kræsingar sem þeir höfðu valið. Engin krafa var af minni hálfu um að maturinn væri hátíðlegur.“

Jólin eru fyrir alla

Eina hugsunin þessi jólin og í raun öll önnur jól er að allir fái það sem þá langar í.

„Annar sona minna þessi jólin var þjónninn sem tók niður pantanir og hinn reiddi fram réttina á borðið. Ég sá svo um að matreiða allt það sem þá langaði í. Strákarnir voru svo sniðugir að þeir meira að segja voru með nafn á þessum tilbúna veitingastað okkar. Þetta voru æðisleg jól og skemmtilegt að gera svona öðruvísi með strákunum. Til að toppa þessa sögu alveg þá nokkrum dögum áður hafði verið jólastund í skólanum hjá strákunum. Þar var búið að æfa klassísk og hress jólalög sem krakkarnir sungu, í jólapeysum. Æðislegur tónlistarkennari stýrði söngnum og þvílíkt og annað eins jólaatriði hef ég aldrei áður séð. Þetta var alveg eins og í bíómynd. Ég hugsa að þetta sé ein sú allra hátíðlegasta stund sem ég hef upplifað.“

Hanna Kristín kynntist því að vinir hennar í Bandaríkjunum vörðu tímanum meira með kjarnafjölskyldunni og vinum en stórfjölskyldunni.

„Ein jólin, þegar ég var ólétt að dóttur minni, þá fór ég ekkert til Íslands yfir hátíðarnar og fagnaði hátíðardögunum bara með krökkunum mínum og vinafólki. Á jóladag þau jólin var ég í matarboði hjá vinkonu minni og með foreldrum hennar og systkinum. Það var mjög skemmtileg og hátíðleg upplifun. Hún eldaði mikinn veislumat og það voru á boðstólum kalkúnn, trönuberja-„relish“, sætkartöflustappa með sykurhúðuðum pekanhnetum og fleira gotterí. Þetta var svakalega amerískt veisluborð og mjög hátíðlegt. Almennt í matarboðum sem ég hef farið í í Bandaríkjunum þá hefst veislan snemma og endar mjög snemma. Einnig fannst mér meira um að börnin séu almennt með foreldrunum í veislum og heimsóknum hjá vinafólki og þess vegna er byrjað snemma – svo allir geti farið heim með börnin á skikkanlegum tíma.“

Meira úrval af skrauti í Bandaríkjunum

Skreytir þú mikið heima hjá þér á jólunum?

„Ég var lítið í því hér áður fyrr en hef gert meira af því undanfarin ár eftir að hafa búið í Bandaríkjunum. Það er svo mikið skreytt í Bandaríkjunum og alls konar skemmtilegar skreytingar í boði sem maður sér sjaldan á Íslandi. Svo ég hugsa að ég haldi áfram að skreyta. Það skapar líka skemmtilega samverustund og minningar fyrir börnin og mig.“

Hvað gerirðu aldrei á jólunum?

„Ég reyni nú fyrst og fremst að sleppa öllu stressi. Mér finnst miklu skemmtilegra að leyfa bara jólunum að koma og njóta þess að vera með mínum nánustu. Ég hef reynt að finna meðalveginn á því að hafa hátíðlegt og skapa ákveðna stemningu um jólin og síðan að láta ekki hefðir hlaupa með okkur krakkana í gönur. Held að krakkarnir kunni líka að meta það að hafa ekki of mikið stress. Síðan hefur mér þótt betra að sleppa áfengi um hátíðarnar – en að því sögðu sleppi ég almennt áfengi.“

Leyfir vanalega öðrum að elda á jólunum

Hvernig mat eldar þú?

„Ég get því miður ekki státað af því að vera mikill kokkur um hátíðarnar. Ég er ágæt í eldhúsinu fyrir almenna eldamennsku en þegar kemur að stórhátíðarmat hef ég yfirleitt deilt deginum með öðrum sem eru ráðabetri en ég í eldhúsinu. Ef ég fæ einhverju ráðið finnst mér mjög gott að fá kalkúnabringu, sætar kartöflur, gott salat og svona almennt mat í léttari kantinum. Trönuberjameðlætið sem ég fékk í Bandaríkjunum hjá vinkonu minni var líka alveg hrikalega gott. Svo er frönsk lauksúpa alltaf mjög góð í forrétt.“

Hvað með gjafir og fleira skemmtilegt?

„Mér finnst skemmtilegt að gleðja börnin mín um jólin með pökkum en þess utan er ég ekki mikil pakkamanneskja. Ein jólin vorum við strákarnir mínir á Tenerife og það var bara ágætt að vera ekki á handahlaupum með pakkasendingar á Þorláksmessu. Við vorum bara í góðum gír á ströndinni að slaka á og þamba virgin-kokteila.“

Gefurðu þér jólagjöf árlega?

„Mér finnst allt í lagi að dekra smá við sig á jólunum, fara sem dæmi í spa og kaupa smávegis pakka eða eitthvað sem mann er búið að langa í lengi. Ég er strax komin með augastað á dekurgjöfinni í ár sem mig langar í og hugsa að ég gefi mér það í jólagjöf. En það allra besta er samt að hjúfra sig undir teppi, lesa góða bók og fá sér tebolla. Til að toppa það er mjög ljúft ef það snjóar úti og maður kveikir á kertum.“

Jólin eru aldrei eins

Áttu sögu af þér, á einhverjum umbreytingatíma, þar sem þú breyttir jólunum þínum?

„Ég er ekki mikil manneskja hefða til að byrja með, svo að umbreytingar á jólunum hjá mér hafa verið gegnumgangandi. Það hefur mikið breyst hjá mér undanfarin ár með jólin. Allt frá því að vera með maka og þrjú börn í Bandaríkjunum, vera ein með maka mínum yfir jólin í Montréal, með stórfjölskyldunni á Tenerife og yfir í að vera ein með þrjú börn á Íslandi yfir jólin. Eini fastinn og hefðin sem ég held í er að krakkarnir mínir fái að njóta sín og þau upplifi rólegheit, gleði og einlæga fjölskyldustund.“

Fjárhagur skiptir miklu máli á jólunum því við þurfum jú fé til að gera fallegt í kringum okkur og gera hlutina vel. Sumir eru góðir í að gera mikið úr litlu og aðrir hafa sparað lengi fyrir jólunum. Hvernig hugsar þú þetta?

„Það er bara þannig að ég legg ekki mikið upp úr gjöfum og set þess í stað stemninguna miklu meira í andrúmsloftið og upplifunina, að þetta sé tími samvista og friðar. Síðan hef ég notað sama jólaskrautið ár eftir ár. Ætli ég myndi ekki flokkast sem týpan sem er góð í að gera mikið úr litlu. En ég er klárlega samt ekki á þeirri línu að hefja pakkainnkaupin snemma á árinu. Ég leyfi systur minni alfarið að bera þann kyndil. Ég er þekkt fyrir að spekúlera ekki einu sinni í gjafakaupum fyrr en mögulega á Þorláksmessu.“

Hanna Kristín dáist að fólki sem byrjar snemma að plana jólin.

„Ég er óttalegur sveimhugi og hef oftar en ekki staðið mig að því að nánast rétt ná að koma mér í kjólinn fyrir jólin. Mér hefur líka þótt ákveðinn sjarmi yfir því að plana ekki alltof snemma heldur bara sleppa tökunum og einbeita mér frekar að upplifun barnanna. Það gerist ekkert slæmt þó svo ég nái ekki að klára að gera allt fullkomið fyrir jólin. Ætli ég sé ekki bara mjög afslöppuð týpa gagnvart hátíðarundirbúningi almennt. Það er svo margt annað að stressa sig á í lífinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál