Ásdís hefur búið í Noregi í 26 ár og lætur drauma rætast

Ásdís Fjóla Ólafsdóttir.
Ásdís Fjóla Ólafsdóttir.

Myndlistarkonan Ásdís Fjóla Ólafsdóttir hefur búið í Noregi í 26 ár. Hún heldur í íslenskar hefðir og blandar þær hinum norsku og notar listræna hæfileika sína til að gera fallegt í kringum sig á jólunum. Listakona hafði unnið öruggt fast starf í textílgerð fyrir Norröna í yfir tvo áratugi þegar hún sagði starfi sínu lausu í mars á þessu ári til að geta snúið sér alfarið að myndlistinni.

Hún byrjaði fyrst sem saumakona hjá Norröna en vann sig fljótt upp í yfirmannsstöðu í hönnunar- og framleiðsludeild. Ásdís býr nú í Tønsberg í Noregi með eiginmanni sínum, Tommy Bönsnæs, tveimur dætrum og einni fósturdóttur.

„Ég flutti hingað til Noregs á sínum tíma með þáverandi manni mínum, honum Gunnari Þór Ragnarssyni, og eignuðumst við tvær dætur saman, þær Emilíu, sem nú er orðin 22 ára, og Ísabellu, sem nú er 17 ára. Við keyptum okkur flugmiða aðra leið frá Íslandi og bjuggum á hóteli fyrstu dagana í Osló þar sem við þekktum ekki nokkurn mann né vorum með vinnu. Við bjuggum í Osló um tíma og fluttum síðan til Drammen en bæði höfum við búið í Noregi öll þessi ár. Í dag er ég gift norskum manni og giftum við okkur í sumar eftir 13 ára sambúð. Þegar við kynntust átti hann dótturina Sophie, sem nú er nítján ára og ég kalla bónusdóttur mína.“

Jólin í Noregi ekki ósvipuð jólunum á Íslandi

Ásdís er mikil jólakona og segir jólin í Noregi mjög lík jólunum á Íslandi en þó ekki alveg eins.

„Það er mjög mikið af mat hjá okkur á jólunum. Þar sem ég er gift norskum manni verðum við að ná að halda í bæði norsku og íslensku matarhefðirnar á jóladögunum. Þó svo að ég myndi helst vilja hamborgarhrygginn á aðfangadag hef ég þurft að sætta mig við norska jólamatinn, sem er „ribbe“ eða purusteik, sem er mjög góður matur líka.“

Hvað fleira eruð þið með í matinn á jólunum?

„Á Þorláksmessu erum við með „lutefisk“ sem er nokkurs konar harðfiskur sem er blautlagður í lút með beikoni, hvítri sósu, baunastöppu og kartöflum.

Á aðfangadag erum við með „ribbe“ og svo „riskrem“, sem er kaldur grjónagrautur blandaður með þeyttum rjóma og vanillusykri með sólberjasósu, í eftirrétt. Á jóladag erum við með íslenskan mat. Við byrjum þá matinn með Óla pabba

aspassúpu. Svo erum við með hamborgarhrygg með öllu tilheyrandi. Á annan í jólum erum við með „pinnekjøtt“, sem eru gufusoðin söltuð og þurrkuð lambarif, og hangikjöt. Þessir tveir kjötréttir eru mjög líkir í bragði og meðlæti, svo við borðum þá oft saman á jólunum.“

Setur mikinn metnað í jólaskrautið heima

Myndlist Ásdísar hefur vakið athygli víða enda gerir hún falleg verk sem snúast oft um líf og reynslu konunnar.

Ertu mikið að mála á þessum árstíma?

„Já nú má segja að ég máli allt árið um kring. Áður en ég hætti í fastri vinnu var nánast aldrei frí hjá mér þar sem ég notaði allar helgar og sumarfrí í að mála.

Svo er ég einnig þekkt fyrir að skreyta mikið heima hjá mér fyrir jólin. Ég hef alltaf fengið dæturnar með mér í undirbúninginn og erum við þá með jólaföndur þar sem við gerum aðventustjaka, bökum og gerum alls konar sem krefst sköpunargleði og skemmtunar.

Stelpurnar mínar eru fæddar og uppaldar í Noregi, svo það var snemma talað um hvort íslenski jólasveinninn myndi gefa þeim í skóinn en við sáum að það gæti verið skrítið og erfitt að útskýra fyrir norskum vinum að vera með slíka mismunum á okkar heimili. Hér í Noregi fá flest börn svokallað jóladagatal. Það getur verið allt frá einföldu súkkulaðidagatali í dagatal með pökkum.“

Býr til pakkadagatal fyrir dæturnar

Ásdís elskar að gera pakkadagatal fyrir dætur sínar.

„Ég hef gert það í gegnum árin og geri það ennþá, þó svo að stelpurnar okkar séu allar orðnar stórar. Jafnvel elsta dóttir mín, sem er orðin 22 ára, fær ennþá jóladagatalið sitt.

Þær fá það áfram alveg þangað til það kemur barnabarn, þá færist pakkadagatalshefðin frá mér til barnabarna minna.“

Ásdís er ein þeirra sem kunna að njóta sín á jólunum; að gera fallegt og huggulegt í kringum sig og halda í hefðir fyrri jóla.

„Ég elska jólin og aðdraganda þeirra. Þegar við vöknum saman á morgnana í desember þá set ég á rólega jólatónlist og stelpurnar opna litla gjöf. Það er ómissandi að upplifa gleðina sem vaknar innra með þeim einungis af því þetta er svo hugguleg og yndisleg hefð,“ segir hún.

Í Noregi er nóg til af trjám og fer fjölskyldan vanalega saman út í skóg að sækja jólatréð.

„Við erum með þá hefð að fara út í skóg og höggva okkar eigið jólatré. Þá finnum við okkur eins stórt tré og hægt er inn í húsið okkar.“

Hvað viðkemur jólagjöfum er hún mikið fyrir skapandi gjafir.

„Ég hef alltaf verið fyrir að gefa skapandi gjafir og gjafir sem fær fólk til að upplifa eitthvað nýtt í lífinu. Að mínu mati eru listgjafir mjög mikils virði, ekki síst þar sem mikið er keypt af drasli í samfélaginu í dag sem fólk kastar nánast daginn eftir. List skapar tilfinningar hjá gefanda og þiggjanda og tapar aldrei verðmæti sínu.“

Ætlar að búa á Spáni yfir vetrartímann

Hvað dreymir þig um að fá að gjöf þessi jólin?

„Það er erfitt að segja. Jú, annars, ég er með eina jólaósk fyrir manninn minn, sem er ekki beinlínis jólagjöf, en þar sem ég verð mikið ein í desember að mála á Spáni hef ég óskað mér að hann geri fyrir mig jóladagatal.“

Hvað væri sniðugt að gefa fólki sem langar að fara af stað að skapa sína eigin list?

„Það er svo mikið hægt að gefa þeim sem eru skapandi. Startsett fyrir myndlist, svo sem akríl- eða vatnsliti. Línóleum-þrykkbúnaður er einfaldur og ekki of dýr til að byrja með, en getur verið mjög skemmtilegur fyrir bæði unga sem aldna.

Annars er mikið til af flottri myndlist frá listamönnum, þrykk eða eftirprentanir, myndlistarkort, dagatöl og langar mig þá að nefna listadagatal frá frænku minni henni Heiðdísi Helgadóttur.“

Frá íslensku jólunum saknar Ásdís helst jólaboðanna með fjölskyldunni, íslenska konfektsins og íslensku jólasveinanna svo eitthvað sé nefnt.

Ásdísi hefur gengið betur en hún vonaði í fullu starfi sem listakona.

„Ég hef bæði selt meira en ég átti von á og einnig verið með fleiri sýningar. Ég var með tvær sýningar í sumar sem gengu mjög vel og er ég nú á föstum samningi við þrjú listagallerí hér í Noregi og í samræðum við nokkur fleiri.

Ég gæti hugsað mér að sýna verkin mín einnig á Íslandi bráðlega en nú fyrir jólin er ég búin að vera að undirbúa einkamyndlistarsýningu sem hófst hinn 18. nóvember í Galleríinu hér í bænum okkar. Ég er búin að vera að mála sex daga vikunnar og svo er ég líka að fara að þrykkja lítógrafík.“

Ásdís kann vel við sig í sól og hita og er því að undirbúa flutning til Marbella á Spáni yfir vetrartímann.

„Ég verð á Spáni að mála fyrir enn eina sýninguna sem verður um páskana, í Galleri-ER Sandefjord í Noregi. Um þessar mundir og nær alla mína tíð hafa málverkin mín fjallað aðallega um konur. Það er svo mikið af tilfinningum, fegurð og styrk að finna í kvenfólki.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál