Alltaf átt erfitt með íslensku jólasveinana

Virpi Jokinen er skipuleggjandi og fyrirlesari.
Virpi Jokinen er skipuleggjandi og fyrirlesari. mbl.is/Árni Sæberg

Virpi Jokinen flutti til Íslands frá Finnlandi fyrir tilviljun árið 1993 þegar hún tók sumarstarfi hér á landi. Upphaflega ætlaði hún að halda för sinni áfram en ílengdist og er hér enn, 29 árum seinna, en hún segir birtuna og heita vatnið vera það sem hún heillaðist fyrst af. Íslenska viðhorfið, að þetta reddist allt saman, var líka það sem heillaði hana.

Þegar kemur að jólunum er Virpi lítið að stressa sig og segir að í minningunni séu jólin í Finnlandi afslappaðri en á Íslandi, en það eru þó 20 ár síðan hún eyddi jólunum í Finnlandi. „Jólasánan gefur aðfangadeginum rólegan blæ og það er með öllu óvíst að fjölskyldur klæðist sparifötum á aðfangadag. Ég er nokkuð viss um að Finnar gefi að meðaltali færri gjafir en Íslendingar um hver jól,“ segir Virpi.

Virpi segist fyrst og fremst vera móðir tveggja barna á grunnskólaaldri. Hún hefur þó fengist við ýmislegt í gegnum árin en fyrir fimm árum stofnaði hún skipulagsaðstoðina Á réttri hillu og lauk í framhaldi skipuleggjendanámskeiði í Helsinki. Í dag er hún skipuleggjandi og fyrirlesari sem hefur að eigin sögn mikinn áhuga á að taka ó-ið úr óskilamunum í grunnskólum landsins. Hún er líka vefari með myndlistarmenntun og nú síðast fór hún í gegnum diplómanám á meistarastigi í jákvæðri sálfræði.

Skógjafirnar mikil áskorun

„Bara svona okkar á milli þá hef ég alltaf átt erfitt með íslensku jólasveinana, vitandi það að Jólasveinninn býr á Korvatunturi í Finnlandi. Eftir að ég eignaðist börnin þá kynntist ég skógjöfum, sem mér finnst mikil áskorun. Þessar gjafir eru mikill streituvaldur, svo ekki sé talað um kostnaðinn við þær fyrir Grýlu miðað við fjölda barna í landinu,“ segir Virpi þegar hún er spurð að því hvort henni hafi fundist eitthvað skrítið við jólahefðir Íslendinga.

„Og svo er þessi skógjafahefð þannig að einstakir foreldrar fá litlu um það ráðið, því það vill enginn vera foreldrið sem býður ekki jólasveinunum að kíkja inn heima hjá sér,“ segir Virpi.

Virpi eldar ekki finnskan jólamat en hún eldar á finnskan máta. Í því felst að elda stóran skammt af jólamatnum í einu svo hann dugi í nokkra daga. „Ég elda sem sé ekki nýjan rétt alla daga, öll jólin. Í Finnlandi eru reykta skinkan, kartöflu-, rófu- og gulrótabökurnar og sömu hefðbundnu salötin borðuð öll jólin. Daglega eru kannski soðnar kartöflur en bökurnar eru bara hitaðar og því mjög lítil fyrirhöfn í kringum matinn um hátíðirnar,“ útskýrir Virpi.

Á aðventunni útbýr hún svo jólastjörnur úr smjördeigi og sveskjusultu að finnskri hefð. Hún segir einfaldari bakstur ekki vera til.

Virpi tekur fram fyrsta jólaskrautið hinn 1. desember.
Virpi tekur fram fyrsta jólaskrautið hinn 1. desember. mbl.is/Árni Sæberg

Nægjusöm og heldur hlutunum einföldum

Virpi flækir ekki málin að óþörfu og er frekar nægjusöm. Því heldur hún hlutunum eins einföldum og unnt er. „Börnin sjá um að skreyta jólatréð og ég skreyti það sem kallast heima hjá okkur „jólaborðið“ í stofunni með uppáhaldsjólaskrautinu, jólaljósum og ýmsu góðgæti. Ég passa upp á að allir geti farið í hreint rúm um jólin en legg annars enga sérstaka áherslu á hreingerningar fyrir jólin. Jólakveðjurnar á Rás 1 eru í miklu uppáhaldi hjá mér,“ segir Virpi.

Sú hefð sem hún heldur hvað fastast í er að skrifa jólabréf. „Í byrjun aðventunnar er fyrsta jólaskrautið tekið fram og er það geymt í sér kassa þannig að það þarf ekki að fara í gegnum allt jólaskrautið í leit að því. Efst í þeim kassa er alltaf bókin Jólin koma og jólabréf sem ég hef skrifað mér á þrettándanum tæpu ári áður og pakkað niður með jólaskrautinu. Ég lýk frágangi jólanna með því að skrifa niður nokkrar línur og kem bréfinu fyrir efst í „1. desember-kassanum“ í geymslunni,“ segir Virpi.

Hún segist koma sjálfri sér á óvart á hverju ári og man aldrei hvað það var sem var henni efst í huga um síðustu jól. „Í bréfinu legg ég áherslu á þakklæti, tel upp það góða sem gerðist um jólin og skrifa eitthvað um mikilvægustu atburðina sem í vændum eru í fjölskyldunni á komandi ári.“

Í kassanum er meðal annars bókin Jólin koma eftir Jóhannes …
Í kassanum er meðal annars bókin Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum. mbl.is/Árni Sæberg

Tími hvíldar og rólegheita

„Ég reyni að hafa í huga að jólin eru tímabil, aðventan og nokkrir hátíðardagar á dimmasta tíma ársins og því er þetta fyrst og fremst tími hvíldar, notalegheita og samveru þegar það á við,“ segir Virpi um það besta við jólin. Henni finnst gjafirnar frá börnunum, sem þau útbúa í skólanum, einnig með því dýrmætasta. „Það eru nánast einu gjafirnar sem ég fæ, enda hef ég afþakkað gjafir í nokkur ár núna. Um hátíðirnar er svo notalegt að vaka í það minnsta eina nótt yfir góðri bók eða púsluspili,“ segir Virpi.

Oft er talað um að jólin megi ekki koma fyrr en búið er að þrífa ákveðna hluti eða gera ákveðna hluti. Í huga Virpi er það ekki þannig og segist hún þurfa að gera fátt til þess að jólin komi. Jólin séu oft mismunandi frá ári til árs og er sveigjanleiki og núvitund því lykilhugtökin hjá Virpi yfir hátíðirnar.

„Ég legg áherslu á að útbúa tímanlega gjafirnar fyrir börnin. Það er gott að vera með nóg af góðum mat til að þurfa að fara sem sjaldnast út í búð um hátíðirnar. Svo er mikilvægt að vera með nóg að lesa og því fer ég nokkrar ferðir á bókasafnið á aðventunni. Einnig er gaman að vita af nýju borðspili undir jólatrénu því það er svo notalegt að geta spilað saman um jólin.“

Mikilvægast að sleppa samanburðinum

Í starfi sínu sem skipuleggjandi hjálpar Virpi fólki að ná áttum og koma skipulagi á hlutina. Hún segir ekki sérstaklega mörg verkefni rata á sitt borð fyrir jólin, en á þrettándanum komi sannarlega fleiri sem óska eftir skipulagsaðstoð.

„Áhyggjulaus jól er það sem ég óska öllum. Mestu máli skiptir eflaust hugarfar okkar, þakklæti og að sleppa samanburðinum við aðra. Það er alltaf einhver sem gerir meira og betur og því er mikilvægt að muna að jólin eru ekki keppni og notalegt jólahald tekur á sig óteljandi margar mismunandi myndir. Þegar við erum þakklát fyrir allt það sem við eigum nú þegar og látum okkur langa í það þá þráum við síður eitthvað mikið meira. Liður í þessu hjá mér er að hlusta ekki á leiknar útvarpsauglýsingar í bílnum. Þegar það tímabil hefst þá finn ég til uppáhaldsgeisladiskana mína og hlusta á þá í umferðinni í staðinn. Ég hef komist að því að þetta stuðlar að aukinni vellíðan hjá mér á aðventunni.“

Þegar kemur að jólagjöfum ráðleggur Virpi fólki að gæta hófs. „Allar þær efnislegu gjafir sem við gefum öðrum, og fáum sjálf, verða að hlutum sem þarf að hlúa að innan heimilisins: Nota, geyma og farga rétt þegar að því kemur. Ef við viljum ekki eða þurfum ekki gjafir komum þá þeim skilaboðum áleiðis í tæka tíð. Og sömuleiðis ef okkur eða börnin okkar vantar eitthvað ákveðið, látum þá nánustu fjölskylduna vita af því og aukum þannig líkurnar á því að gjafirnar hitti í mark,“ segir Virpi.

Hún bendir á að við séum svo miklu meira en bara neytendur og að jólin snúist um margt annað en það sem er keypt fyrir peninga. Fólk eigi því að hugsa út í hversu langt inn í næsta ár það er tilbúið til að borga fyrir kostnaðinn við jólahaldið.

„Það má sleppa því að baka“

Þrifin og baksturinn eiga það til að vaxa fólki í augum. Virpi segir að fólk megi sýna sér meiri samkennd, það þurfi ekki allir að hafa áhuga á bakstri og matseld. „Það má baka ef maður vill og svo má líka alveg sleppa því að baka,“ segir Virpi og minnir fólk á að tala við sjálft sig eins og við myndum tala við góða vini, sýna skilning og hvetja áfram í stað þess að fara í niðurrif.

„Nú til dags eru híbýli okkar oft það snyrtileg að það er engin sérstök ástæða til að þrífa sérstaklega vel fyrir jólin. Og ef þrif eru okkur áskorun dagsdaglega þá er ástæðulaust að ætlast til meira af okkur rétt fyrir jólin. Það er góð hugmynd að einbeita sér að þeim herbergjum þar sem mesta samveran verður, eins og eldhúsinu og stofunni. Ef við treystum okkur ekki til að bjóða vinum og fjölskyldu heim, þá gæti samveran kannski farið fram einhvers staðar annars staðar en akkúrat heima hjá okkur?“

Jólin geta líka verið flókin fyrir stórar fjölskyldur og fyrir samsettar fjölskyldur. Fyrir jólin er því gott að vera með einfalt og skýrt skipulag sem allir eru meðvitaðir um.

„Hvar verða börnin og foreldrarnir, hvers konar boð, ef einhver, verða í fjölskyldunni eða vinahópnum? Einnig er gott að vera búin að hugsa og ræða hvað við erum tilbúin að taka þátt í miklu fyrir og um jólin. Það er í lagi að takmarka þátttöku okkar í boðum og viðburðum ef við finnum að við þurfum þess, því jólin eru ekki kapphlaup. Það nægir að jólin okkar séu nógu góð, við þurfum hvorki að toppa okkur sjálf né aðra. Mikilvægast er að koma fallega fram við hvert annað og gæta hófs,“ segir Virpi að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál