„Eftir að ég eignaðist börn er þetta enn meiri stemning“

Listamaðurinn Sigríður Beinteinsdóttir varð sextug á þessu ári en á sama tíma fagnar hún 40 ára starfsafmæli en hún var ekki nema tvítug þegar hún hóf tónlistarferil sinn. Hún segir frá jólahefðum sínum í Jólablaði Nettó: 

„Þetta var rosalega mikið og stórt ár. Í mars hlaut ég heiðursverðlaun hlustendaverðlaunanna fyrir framlag mitt til tónlistar. Það var mikill heiður,“ segir Sigríður og bætir við:

„Um leið og Covid sleppti fór allt á fullt. Ég hef verið að skemmta á viðburðum fyrir fyrirtæki og alls konar uppákomum og það verður nóg að gera út desember.“

Á hátíðlegum nótum

Jólatónleikarnir „Á hátíðlegum nótum“ hafa verið fastur liður hjá Sigríði síðan 2009 en þeir voru haldnir 3. desember í ár. „Það er mjög gaman að undirbúa jólatónleikana. Undirbúningurinn byrjar strax í janúar því þá bóka ég salinn og hljóðfæraleikarana.“

Tónleikarnir voru sérstaklega  veglegir í ár.

„Ég stækkaði bandið og bætti við blásurum og slagverki og var með fjóra frábæra gestasöngvara.“

Síðustu vikurnar fyrir tónleika er sérstaklega mikið að gera því þá er lokahönd lögð á sviðsmyndina í samstarfi við lýsingameistara Hörpu. Mikil vinna fer einnig í búningaval og alla hönnun. „Ég skipti um kjóla þrisvar til fjórum sinnum á tónleikum og í ár var ég líka í smóking sem var steinaður svo hann myndi glitra því það þarf alltaf að vera smá bling á jólunum,“ segir Sigríður glöð í bragði.

Hún leggur mikið upp úr lagavali.

„Ég legg mikið í lagalistann og er lengi að velja lögin, í samstarfi við hina söngvarana, auðvitað. Ég er kannski með 100 laga lista til að byrja með og plokka svo úr. Röðin skiptir máli líka; það er ekki sama hvaða lög eru hlið við hlið. Svo eru alltaf einhverjar stórar bombur,“ segir hún.

Sigríður er alltaf með danspör á sviðinu því þetta er hátíð barnanna, eins og hún segir. Í ár var yngsta parið 5 ára. Á tónleikadaginn sjálfan er lokarennslið æft og síðan fylgja tvennir tónleikar. „Daginn eftir er ég eins og sprungin blaðra en þetta er rosalega gaman.“

Jólahefðir og jólagleði

„Ég er mikil jólastelpa og er alltaf með jólastöðvarnar í gangi í bílnum,“ segir Sigríður. Hún setur upp jólaljós og nýtur þess að horfa á jólamyndir. Henni finnst jólin vera tími fjölskyldunnar og það er eitthvað við þennan árstíma sem gefur „hlýju í hjartað“, eins og hún segir.

„Eftir að ég eignaðist börn er þetta enn meiri stemning. Við byrjum að skreyta snemma. Þótt þetta sé dimmur tími þá er hann skemmtilegur. Það er eitthvað sem gefur gleði.“

Það eru nokkrar hefðir sem Sigríður er mjög fastheldin á.

„Á Þorláksmessu er alltaf skata. Jólin koma ekki fyrr en ég finn lyktina af skötu. Ég er að vestan og þar er skata mikið borðuð. Þegar ég var krakki þá borðuðum við skötu kannski einu sinni í mánuði. Núna borða ég hana bara á Þorláksmessu. Hún verður að vera. Þannig kyngi ég jólunum inn. Síðan, ef ég elda skötuna sjálf, sýð ég hangikjötið á Þorláksmessukvöld því það drepur niður lyktina. Það er hefð hjá mér á aðfangadag að bjóða upp á heitt súkkulaði og smákökur fyrir þau sem koma við með pakka og svo setjumst við niður til að spjalla.“

Á aðfangadagskvöld heldur Sigríður líka fast í hefðirnar. „Það er hamborgarhryggur í matinn á mínu heimili. Við borðum klukkan sex og hlustum alltaf á útvarpsmessuna. Þá eru jólin komin. Í ár kemur systir mín til mín á aðfangadag með börnin sín og pabbi minn, sem er orðinn níræður, kemur líka,“ segir hún með mikilli tilhlökkun í röddinni. 

Jólaball hjá ömmu Siggu

Sigríður ólst upp í hópi sjö systkina og eðlilega var mikið fjör á heimilinu. Hún lýsir því hversu erfitt var að bíða eftir því að opna pakkana en mamma þeirra var hörð á því að fyrst þyrftu allir að hjálpast að við að ganga frá eftir matinn.

„Ég held að hún hafi viljandi verið að teygja þetta á langinn til að búa til enn meiri spennu. Ég hef haldið í þessa hefð líka með krökkunum mínum. Fyrst þarf að vaska upp, svo getum við opnað pakkana.“

Uppáhaldsjólaminning Sigríðar er af jólaballinu sem amma hennar og nafna hélt fyrir barnabörnin á aðfangadagskvöld.

„Þegar við vorum búin að opna pakkana fórum við til ömmu minnar á Langholtsvegi, sem var nafna mín. Þar var hlaðið kaffiborð. Hún spilaði á píanó og svo dönsuðum við í kringum jólatréð. Öllum krökkunum var hrúgað saman, ég man eftir ilmi af heitu súkkulaði og það var svo fallega skreytt. Aðfangadagskvöld var ein stór veisla.“

Uppskriftin sem Sigríður vill deila með lesendum er einmitt jólaís ömmu hennar sem er einfaldur og svo góður að allir bíða eftir honum með mikilli eftirvæntingu.

½ l rjómi

3 egg

6 msk. sykur

½ tsk. salt

½ tsk. vanillusykur

1 plata suðusúkkulaði frá Nóa Síríus (eða annað súkkulaði)

Aðferð

Þeytið rjóma og setjið til hliðar. Þeytið egg og sykur í annarri skál. Það þarf að þeyta mjög vel þar til þetta er orðið ljósgult og engin sykurkorn eftir. Síðan er salti og vanillusykri bætt út í og það er nauðsynlegt að smakka aðeins til. Súkkulaðið er skorið smátt. Setjið rjómann út í egg- og sykurblönduna og blandið honum varlega saman við með sleif. Blandið síðan súkkulaðikurlinu varlega saman við. Það er gott að hella blöndunni í sílikonform, annað hvort hringlaga eða aflöng, og setja síðan í frysti. Svo er þetta tekið fram á aðfangadag, hvolft á falleg fat og skreytt með berjum, rjóma, súkkulaði og/eða karamellusósu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál