Bjó til jóladagatal úr gömlum gallabuxum

Tónlistarkonan Guðrún Árný er mikið jólabarn. Fyrir hver jól setur fjölskyldan upp jólaþorp inni í stofu. Þau halda líka upp á jóladagatal sem Guðrún Árný bjó til úr gömlum gallabuxum og laumar ýmsum glaðningum og góðgæti ofan í hvern vasa.  Hún sagði frá jólahefðum sínum í Jólablaði Nettó:

Desember er að mestu frátekinn fyrir tónlist en hinir árlegu jólatónleikar Guðrúnar Árnýjar fóru fram í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði 11. desember.

„Ég er svakalega hefðbundin þegar kemur að jólatónlistinni. Ég breyti lítið lagavalinu mínu, því fyrir mér er það jólalegast sem maður er vanur að heyra og heyrir ár eftir ár. Ég bæti bara örlitlu nýju við.“ 

Guðrún Árný gaf einmitt út glænýtt lag fyrir jólin.

„Ég var að gefa út nýtt jólalag sem er um mig og minninguna þegar ég hitti manninn minn fyrst. Þegar maður gefur út lag sem er svona persónulegt, þá tekur það alveg á taugarnar. Ég er svo stolt af laginu; ég samdi bæði lag og texta. Það heitir Desember og er á öllum miðlum,“ segir hún og bætir við að hún vonist til að sem flestir hlusti á lagið.  

Afslöppun og jólaís

Guðrún Árný segist vera frekar vanaföst í kringum jólin. „Ég baka það sama á hverju ári. Jólaboðin eru fastur punktur á aðventunni, bæði nokkrir hittingar fyrir aðfangadag og svo stórfjölskylduhittingarnir eftir jól. Svo er mikilvægt að muna að slaka á. Ef ég fer ekki úr náttfötunum, þá slaka ég mest á,“ segir Guðrún Árný hlæjandi og bætir við:

„Þetta er ágætt trix.“

Á aðfangadag fagnar fjölskyldan heima við og stundum eru ömmur og afar með.

„Við setjumst niður að borða kl. 18. Hlustum á klukkurnar hringja inn jólin og borðum saman og hlustum á messuna. Svo opnum við pakkana og fáum okkur ís seint um kvöldið.“

Ísinn er eiginlega hápunkturinn.

„Mín helsta hefð er að gera jólaísinn hennar ömmu minnar; án hans væru bara ekki jól hjá mér. Mér finnst hann svo góður að ég borða yfir mig og geri hann þess vegna BARA á jólunum.“ Þegar við biðjum Guðrúnu Árnýju um að deila uppskriftinni með lesendum, segir hún kímin: „Amma mín myndi bilast ef ég deildi ísuppskriftinni, svo ég læt það duga að deila uppáhaldssmákökunum okkar.“ 

Engiferkökur (piparkökur)

500 g púðursykur

2 egg

250 g smjörlíki

500 g hveiti

1 tsk. ger (lyftiduft)

1 tsk. matarsódi

1 tsk. negull

1 tsk. kanill

2 tsk. engifer

Krem

1 eggjahvíta

Flórsykur

Vanilla

Matarlitur


Aðferð

Stillið ofninn á 200°C. Hrærið saman smjörlíki, púðursykri og kryddi. Hrærið síðan eggjunum saman við. Bætið hveiti, geri (lyftidufti) og matarsóda út í deigið og hrærið öllu saman.

Best er að fletja deigið út með því að setja stóra kúlu á smjörpappír, leggja annað blað af smjörpappír ofan á og rúlla yfir með kökukefli. Svo er efri smjörpappírinn tekinn af og form notuð til að skera út kökur. Þannig þornar deigið ekki með of miklu hveiti.

Bakið kökurnar við 200°C í 8–10 mínútur.

Til að búa til kremið er best að þeyta eggjahvítuna og bæta flórsykri út í smám saman þar til kremið er orðið hæfilega þykkt. Setjið nokkra vanilludropa út í og þann matarlit sem þið viljið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál