Leynitrixið hans Simma Vill

Sigmar Vilhjálmsson ætlar að steikja nokkra hamborgara um jólin.
Sigmar Vilhjálmsson ætlar að steikja nokkra hamborgara um jólin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmar Vilhjálmsson er þekktur fyrir frumlega hamborgara og hér er uppskriftin hans að ekta „jólabörger“. Hann deilir einnig matseðli fjölskyldunnar á aðfangadag með lesendum Jólablaðs Nettó: Sigmar, eða Simmi Vill eins og flestir kalla hann, leggur mikið upp úr matargerð og samveru með fjölskyldu í kringum jólin.

„Við höfum haft það fyrir sið að stórfjölskyldan hittist í skötu á Þorláksmessu og þá skiptum við með okkur gjöfum. Um kvöldið er farið í miðbæjarrölt ef veður leyfir, annars er Þorláksmessukvöld nýtt til að undirbúa matargerðina á aðfangadag.“

Matseldin hefst um hádegi

Aðfangadagur fer að miklu leyti í matarundirbúning.

„Matseldin hefst um hádegi. Á mínu heimili er jólamaturinn humar eða aspassúpa í forrétt, rjúpur í hliðarrétt og hreindýralundir í aðalrétt með alls konar skemmtilegu meðlæti, eins og rauðvínsperum, villisveppasósu og sætkartöflurétti. Í eftirrétt er heimagerður ís eða mús; í ár verður það súkkulaðipiparkökumús sem er einmitt nýjung hjá okkur í Minigarðinum fyrir þessi jól. Í fyrra var það klárlega Þristamúsin sem heillaði þjóðina.“

Simmi vandar sig sérstaklega við aðalréttinn svo hann heppnist vel. „Þegar hreindýralund er elduð skiptir miklu máli að snyrta hana vandlega og fjarlægja allar sinar. Síðan er henni lokað á pönnu við snöggsteikingu um hádegi og hún látin standa alveg til kl. 17.52 undir kryddjurtum. Síðan er lundin elduð í ofni í mesta lagi átta mínútur. Þegar klukkan hringir á RÚV þá er lundin tekin út og látin standa á meðan forrétturinn er borðaður. Þá er hún til.“

Spilað fram á nótt

Hreindýrið er aðeins einn af mörgum hápunktum kvöldsins.

„Eftir átveisluna taka við hefðbundin pakkaopnunarstörf með kaffi og konfekti. Upp úr miðnætti ráðast úrslit í borðspilakeppni fjölskyldunnar. Sigurvegarinn er krýndur og fær glaðning.“

Ekta jólabörger Simma Vill

175 g Barion-borgari

reykt beikon, steikt

djúpsteiktur (eða örbylgjuhitaður) camembert

trönuberjasósa (eða sulta, má vera bláberja)

Barion-gráðaostssósa

klettasalat

flögur með dilli

salt, pipar og rósmarín

Aðferð

Gott er að krydda hamborgarann með salti, pipar og smá rósmarínkryddi.

Setjið gráðaostssósu og klettasalat á neðra brauðið. Síðan kemur hamborgarinn með beikoni og camembert-osti. Loks fer trönuberjasósan yfir (ekki mikið) og dillflögur efst til að fá stökka áferð. Lokið borgaranum síðan með efra brauðinu.

Gott er að smjörsteikja brauðið að innanverðu til að gera þetta sérlega safaríkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál