„Ég verð ekki þreytt­ur ef verk­efn­in gefa mér gleði“

Vignir Ljósálfur Jónsson byrjar að undirbúa jólin á undan mörgum …
Vignir Ljósálfur Jónsson byrjar að undirbúa jólin á undan mörgum öðrum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vignir Ljósálfur Jónsson, kennari og umsjónarmaður skólabókasafnsins í Laugarnesskóla, byrjar formlega að telja niður til jóla 100 dögum fyrir jól. Vignir er alltaf með hugann við jólin og byrjar stundum að undirbúa hátíð ljóss og friðar með margra mánaða fyrirvara. Hjá honum snúast jólin um að gleðja og njóta lífsins. 

„Við vorum með Kanasjónvarpið heima og ég man eftir því að rétt fyrir sex var Disneyþáttur í sjónvarpinu. Það var alltaf slökkt á miðjum þætti af því að klukkan var orðin sex,“ segir Vignir um jólahefðirnar á æskuárunum í Sandgerði. Í matinn var reyktur svínahnakki og var sú hefð tilkomin vegna þess að það var það síðasta sem var eftir í búðinni.

„Pabbi var kaupmaður, það var mikil jólastemning og ég var mikið að væflast um í búðinni. Eitt skipti kom einhver sem hafði gleymt að kaupa í matinn fimm mínútur í lokun og pabbi seldi jólasteikina okkar. Það eina sem var til var reyktur svínahnakki fyrir okkur. Öllum fannst það svo gott að eftir það var það alltaf í matinn.“

Það er jólalegt á bókasafninu hjá Vigni í Laugarnesskóla.
Það er jólalegt á bókasafninu hjá Vigni í Laugarnesskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

100 dagar til jóla

Jólalög hafa alltaf skipað stóran sess í lífi Vignis og hefur hann að undanförnu deilt einu jólalagi á dag með vinum sínum á Facebook. Áður fyrr byrjaði hann ekki að hlusta á lögin fyrr en á aðventunni en núna leyfir hann sér að hlusta á þau allan ársins hring. Á hverju ári finnur hann nýtt þema til að deila með fólki.

„Mér finnst gaman að deila með fólki og fá viðbrögð við því,“ segir Vignir meðal annars um það sem drífur hann áfram. „Í eitt skiptið var ég með Harry Potter-þema. Þá birti ég 100 myndir af persónum úr Harry Potter fyrir jólin og sá fyrsti til þess að giska á persónurnar fékk Harry Potter-póstkort frá mér. Það varð til skemmtileg samkeppni í vinahópnum. Systir mín sem er kennari í Fjölbrautaskóla Suðurnesja tók þátt með nemendum sínum. Þau byrjuðu alla morgna á því að giska og unnu ansi oft.“

Jóaltréð er með Harry Potter-hatt.
Jóaltréð er með Harry Potter-hatt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vignir segir mismikla vinnu fara í það sem hann tekur sér fyrir hendur 100 daga fyrir jól. Fyrir nokkrum árum fléttaði hann hjartapoka og hengdi upp í jólatré í búð systur sinnar, Spiral hönnun. „Ágóðinn fór til Neistans, styrktarfélags hjartveikra barna. Það er gaman að gefa af sér. Eitt skipti birti ég myndir af tíu kirkjum sem ég deildi með fólki. Fyrst birti ég mynd af hurðarhúninum, svo hurðinni og að lokum birti ég myndir af allri kirkjunni. Hluti af sumarfríinu fór í að finna kirkjur úti á landi og taka myndir af þeim. Stundum fékk ég lykil að kirkjunum eins og í Hvalsneskirkju,“ segir Vignir. Hann segir að sumt fólk hafi verið ótrúlega naskt þegar kom að því að giska á kirkjurnar þó að mikið sé um gamlar kirkjur úti á landi.

Vignir taldi niður til jóla með persónum úr Harry Potter …
Vignir taldi niður til jóla með persónum úr Harry Potter eitt árið. Eggert Jóhannesson

Fær orku úr því að gleðja

„Ég er einn af fáum sem senda enn jólakort,“ segir Vignir sem sendir um 100 heimaföndruð jólakort ásamt eiginmanni sínum, Marteini Tryggvasyni Tausen. „Ég get gleymt stað og stund þegar ég sest niður og föndra. Þá hlustar maður kannski á Storytel. Það kemur sér mjög vel þegar maður vinnur á skólabókasafni og þarf að komast yfir margar barnabækur,“ segir Vignir sem hefur átt það til að vera mjög metnaðarfullur.

„Eitt árið ætlaði ég að föndra jólakort með englum en svo sá ég fram á að klára það ekki. Ég endaði á að föndra hvít kort með rauðu HIV-slaufunni og kláraði englakortin árið eftir. Það kostar meira að senda jólakort núna en áður fyrr og það er leiðinlegt að það fást ekki jólafrímerki lengur. En þetta kemur allt aftur til manns. Það er ótrúlega gefandi.“

Hér má meðal annars sjá jólaföndur sem Vignir hefur skapað …
Hér má meðal annars sjá jólaföndur sem Vignir hefur skapað í gegnum árin. Ljósmynd/Aðsend

Vignir hefur komist í meira návígi við dauðann en margir aðrir. Hann missti maka úr HIV og sjálfur varð hann mjög veikur fyrir um tveimur áratugum. „Það getur vel verið að það sé ástæðan fyrir því að ég legg áherslu á að njóta og vera í núinu,“ segir Vignir.

Þegar hann var sem veikastur og þurfti að fara í veikindafrí hafði vinur hans orð á því að hann hefði aldrei haft jafnmikið að gera en hann tók upp á því að senda öllum börnunum í stórfjölskyldunni póstkort í hverri viku. Uppátækið endaði í hinsegin göngunni.

„Ég verð ekki þreyttur ef verkefnin gefa mér gleði. Þegar ég var í myndmenntadeildinni í Kennaraháskólanum var ég líka í fullri vinnu. Það var ekkert mál af því mér fannst það svo skemmtilegt,“ segir Vignir. Þankagangur Vignis skýrir ef til vill af hverju hann hefur tíma til að gleðja svo marga og komast yfir margt í aðdraganda jólanna, hann fær orku úr því sem hann gerir.

Fyrsta jólakortið sem Vignir sendi þegar hann var sjö ára, …
Fyrsta jólakortið sem Vignir sendi þegar hann var sjö ára, árið 1963. Vignir fann kortið eftir andlát móður sinnar. Ljósmynd/Aðsend

Vignir á eina dóttur og þrjú afabörn. Dóttir hans er fædd í lok desember og er auðvitað mikið jólabarn eins og hann sjálfur. Barnabörnin fá mikla athygli í desember og hafa sumar hefðir sem hann skapaði með dóttur sinni fengið framhaldslíf hjá barnabörnunum. Afi Ljósi eins og barnabörnin kalla hann útbýr jóladagatal fyrir afabörnin með 24 pokum annað hvert ár, árin á móti gefa barnabörnin öfunum glaðning í sömu pokunum.

„Ég kaupi púsl sem ég púsla og skipti upp í 24 bita og set í jólapokana sem þau geta púslað. Svo kaupum við líka alltaf jólanáttföt á barnabörnin. Það þarf að kaupa þau mjög tímanlega get ég sagt þér,“ segir Vignir sem lenti næstum í því einu sinni að jólanáttföt á börn væru uppseld. Vignir segir líka ómissandi að fara á jólatónleika Litla Tónsprotans á vegum Sinfóníunnar með barnabörnunum.

Jóladagatalið með púslinu. Sömu pokarnir hafa verið notaðir síðan 2006.
Jóladagatalið með púslinu. Sömu pokarnir hafa verið notaðir síðan 2006. Ljósmynd/Aðsend

365 dagar til næstu jóla

Þó Vignir sé duglegur að breiða út gleðina og koma sér í jólagírinn segist hann skreyta á mjög einfaldan hátt heima hjá sér. „Marteinn, eiginmaður minn, er alþjóðlegur kattadómari. Margir kattadómarar safna miklu kattadóti og kattastyttum en Marteinn gerir það ekki en hann er sáttur með kisujólaskraut. Við hengjum kattajólaskraut á jólatréð,“ segir Vignir. Vignir reynir að fara í aðventuferðir til útlanda eins oft og hann getur og drekka í sig jólaandann.

„Ég er að fara núna í lok nóvember með fjölskyldunni til Kaupmannahafnar. Kaupmannahöfn hefur oft orðið fyrir valinu. Ég hef líka farið til Heidelberg og til Strassburg þegar dóttir mín bjó þar. Það er ótrúlega fallegt og mikil jólastemning á jólamörkuðunum fyrir jól. Það er alls konar jóladót en ég kaupi sjaldan neitt nema kannski kisuskraut á jólatréð. En það er stemning að fá sér jólaglögg sem mér finnst gott,“ segir Vignir.

Kisuskraut prýðir jólatréð.
Kisuskraut prýðir jólatréð. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir allt annað að upplifa aðventugleðina og finna jólailminn í gömlum evrópskum borgum en í Reykjavík. Amsterdam er borg sem kom honum á óvart en þangað fór hann sem maki kattadómara um miðjan nóvember fyrir nokkrum árum og varð vitni að því þegar heilagur Nikulás kom siglandi á bátnum sínum og krakkar tóku á móti honum klæddir í búninga Svarta-Péturs. Vignir bendir þó á að síðan þá hefur verið hávær umræða um kynþáttafordóma sem felast í búningahefðinni og sótsvartri andlitsmálningunni.

Eitt árið var jólakortið Ford Anglia-bíll úr Harry Potter. Í …
Eitt árið var jólakortið Ford Anglia-bíll úr Harry Potter. Í framsætinu sitja Vignir og Marteinn. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin Vignir og Marteinn hafa búið sér til nýjar hefðir á aðfangadag og jóladag. „Á aðfangadag hlustum við t.d. alltaf á plötu, Jólahátíð: Söngvar, sögur og kvæði þar sem Hjalti Rögnvaldsson leikari les upp jólaljóð. Marteinn ólst upp við rjúpur en pabbi hans var kokkur. Marteinn vildi ekki reyktan svínahnakka og ég vildi ekki rjúpur svo við höfum þá hefð að sjóða hangikjöt. Einu sinni reyndum við að drekka rauðvín með hangikjötinu en núna fáum við okkur bjór og snafs. Það er alltaf möndlugrautur og möndlugjöf þó við séum bara tveir. Möndlugjöfin er listaverk en við erum mjög hrifnir af samtímalist. Marteinn velur yfirleitt gjöfina. Á jóladag erum við á náttfötunum allan daginn, borðum og lesum.“

Hvenær eru jólin búin?

„Ég hef grínast með að segja að nú séu 365 dagar til jóla strax á jóladag,“ segir Vignir að lokum sem er greinilega alltaf með hugann við jólin og hinn sanna jólaanda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál