Fékk bónorð klukkan sex á aðfangadag

Fjölskyldan í Aðaldalnum. Örn, Halldóra Kristín og dæturnar þrjár.
Fjölskyldan í Aðaldalnum. Örn, Halldóra Kristín og dæturnar þrjár. Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

Það jafnast ekkert á við jólin í Aðaldal í Þingeyjarsveit að sögn Halldóru Kristínar Bjarnadóttur ljósmyndara. Halldóra Kristín er mikið jólabarn og byrjuð að skapa eigin jólahefðir með eiginmanni sínum Erni Björnssyni og dætrum þeirra þremur. 

„Tilhlökkun jólanna lýsir upp myrkrið og ég veit eiginlega fátt betra en vikurnar fram að jólum. Eftirvæntingin er áþreifanleg og fátt sem hleður meira en stjörnubjört vetrarkvöld í kyrrð. Ég velti því þó fyrir mér í fyrra hvað það væri sem léti mér líða svona vel í aðdraganda jóla og um jólin sjálf og af hverju ég gerði þá ekki bara meira af því yfir allt árið!

Oft hættir okkur nefnilega til að ætla að koma allri sykurhúðuðu jólasælunni saman á rúmri viku. Hjartað er bókstaflega að springa úr kærleika og við viljum ná að eiga dýrmætar stundir með öllu fólkinu okkar, gleðja það og hlýja. En þessari hlýju er svo sannarlega óhætt að dreifa.

Það er nefnilega líka notalegt að banka upp á hjá nágrannanum í febrúar með nýbakað brauð, krús af smákökum eða heimagert múslí. Eiginlega alveg eins notalegt og á aðfangadagsmorgun,“ segir Halldóra sem reynir að dreifa jólastemningunni yfir allt árið.

Jólin eru skemmtileg í sveitinni. Fjölskyldan heimsækir alltaf jólaveinana.
Jólin eru skemmtileg í sveitinni. Fjölskyldan heimsækir alltaf jólaveinana. Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

Hvað kemur þér í jólaskap?

„Kertaljós, kanill, negulnaglar, mandarínur og jólatónlist – uppskrift sem ég sé ekki hvernig getur ekki hrifið með sér. Ef neytandi er þeim mun kaldrifjaðri má kóróna þetta með malti og appelsíni. Ég fer allavega á flug.

Jólin fyrir mér eru byggð á svo ótal dýrmætum minningum og tilfinningum og er jólatónlist tilvalin leið til þess að ferðast af miklu öryggi milli áfangastaða. „Christmas with Boney M“ og ég er komin á eldhúsbekkinn í Grímshúsum hjá afa og ömmu. Húsið er fullt af fólkinu okkar og við keppumst við að skera út laufabrauð,“ segir Halldóra Kristín og gæti haldið lengi áfram.

Dæturnar taka virkan þátt í undirbúningnum.
Dæturnar taka virkan þátt í undirbúningnum. Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

Handskrifuð jólakort skipta máli

„Í aðdraganda jóla finnst mér ómissandi að kíkja í heimsókn til fólksins í kringum mig eða bjóða því til okkar. Ég nýt þess að útbúa litla glaðninga með dætrum mínum sem við síðan laumum til kærra. Heimagerð og handmáluð kerti, nýbakaðar smákökur, sykraðar möndlur, heimagert konfekt eða föndrað jólaprjál sem má prýða tréð – einhver smá hlýja úr hendi í hönd.“

Öll fjölskyldan bakar, líka hundurinn.
Öll fjölskyldan bakar, líka hundurinn. Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

Halldóra Kristín segir ómissandi að skrifa jólakort.

„Ég hef alltaf notið þess að setjast niður og skrifa fólkinu í kringum mig nokkrar línur. Reyndar gekk ég á tímabili svo langt að ég gaf hálfum framhaldsskólanum mínum jólakort og mun seint gleyma furðusvipnum á einum drengnum þar þegar ég horfði upp til hans og rétti honum heimaföndrað kortið. Fyrir mér er lykilatriði að kortin mín séu handskrifuð og þá nýt ég ferlisins. Lengst af innihéldu þau líka límstifti og fleiri nauðsynjavörur en í dag býður tímaramminn minn sjaldnast upp á það. Prentarinn fær að vinna framhliðina og blekpenninn bakhliðina.

Ég skrifa jólakort vanalega í nóvember en með þeim hætti náum við að dreifa þeim sjálf í rólegheitum fram að jólum. Jólakortin verða okkur ákveðin hvatning til þess að banka upp á hjá fólkinu okkar en þá hefð tek ég með mér úr barnæsku þar sem við systkinin vorum vön að fara með pabba á aðfangadagsmorgun og óska nágrönnunum gleðilegra jóla og færa þeim jólakort,“ segir Halldóra Kristín um jólakortahefðina.

„Að ná okkur í jólatré í Guðmundarlundi er síðan orðin ómissandi jólahefð og oft gengið á ýmsu þar sem þrjóskan á það til að heltaka mig og því er maðurinn minn færari í að lýsa mörgum jólatrjáaleiðöngrunum en ég. Stundir sem gleymast aldrei og tréð vanalega stærra heim komið en í reitnum.“

Það skiptir máli að velja gott jólatré.
Það skiptir máli að velja gott jólatré. Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

„Mér finnst líka ómissandi að horfa á jólamyndir og vanalega talsvert magn enda held ég úti metnaðarfullum jólamyndaklúbbi þar sem ég boða ástríðufulla jólamyndaunnendur, Sólrúnu og Þóru, til mín og við njótum með misgagnrýnu hugarfari. Elf er þar einn af konfektmolunum.

Að innbyrða mikið magn af mandarínum er mér líka afskaplega mikilvægt svona í aðdraganda jóla. Ég gekk reyndar svo langt á mínum yngri árum að búa til facebooksíðu fyrir jólamandarínu – til þess eins að geta skráð mig í samband við mandarínu. Svo ástríðufull var ég og er í raun enn.“

Dæturnar elska líka jólin

Jólin breyttust eftir að Halldóra varð móðir og segir hún ekkert betra en að skapa ný jólaævintýri með dætrum sínum.

„Afleiðingarnar eru að vísu þær að ég er að skapa litla jólabrjálæðinga og því geta Jólahjól og fleiri klassískir gullmolar glumið úr svefnherbergjunum þeirra um miðjan júlí ef þær sjá um lagavalið. Helstu jólabreytingarnar fólu þó kannski í sér að ég fann fljótt að ég var tilbúin að fara að skapa okkar eigin jól, með minni litlu fjölskyldu, þótt það verði alltaf mikilvægt að ná að knúsa pabba og mömmu gleðileg jól á aðfangadag.“

Nestið smakkast vel úti í kuldanum.
Nestið smakkast vel úti í kuldanum. Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

„Ég nýt samverunnar með dætrum mínum og það er eins og samverustundirnar verði gullhúðar í aðdraganda jóla. Dætur okkar fá að taka þátt í raun öllu sem tilheyrir jólunum og því útbúum við jólakort saman, bökum talsvert, föndrum jólagjafir og glaðninga, gleymum okkur og njótum í botn. Heitt kakó með rjóma hefur reynst okkur ómissandi orka í jólaundirbúningnum og bragðast það aldrei betur en úti. Við höfum því lagt mikið upp úr slíkum stundum, helst við varðeld og gjarnan með eplaskífur, grillum brauð eða sykurpúða.“

„Ég hef líka útbúið samverudagatal sem var upphaflega sprottið út frá bernskuminningu minni en mamma útbjó alltaf heimagert dagatal handa okkur systkinunum sem við deildum fram að jólum. Í því fólst mikil eftirvænting. Samverudagatalið sem ég bý til hefur ekki reynst okkur íþyngjandi þar sem við ráðum ferðinni og skipuleggjum það eftir því – innihaldið er einfalt og eitthvað sem við hefðum líklega gert hvort sem er en hátíðarljóminn verður enn meiri þegar stundin hefur verið rituð á miða og hnýtt á dagatalið.“

Samverudagatal er hluti af jólunum.
Samverudagatal er hluti af jólunum. Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

„Að lesa fyrir dætur mínar úr „Ég, afi og Jóla-Stubbur “ eftir Ole Lund Kirkegaard á aðventunni er líka ómissandi. Sjálf á ég kærar minningar um ömmu Dóru að lesa úr henni fyrir mig fram að jólum og þykir vænt um að yfirfæra þá hlýju nú til dætra minna.“

Dæturnar eru litlir jólaálfar rétt eins og móðir þeirra.
Dæturnar eru litlir jólaálfar rétt eins og móðir þeirra. Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

Eru einhver jól eftirminnilegri en önnur?

„Það er mér í raun frekar erfitt að velja úr minningaflóðinu sem þeytist í gegnum hugann en ef ég reyni að staldra við þá verður mér starsýnt í spegilinn á baðinu. Ég er að leggja lokahönd á maskarann og heyri jólin hringja inn.

Ég sný mér því við og blasir þá við mér maðurinn minn, Örn, á hnjánum á gólfinu – augun full af tárum og með hring í hendi. Þrjóturinn sem í upphafi taldi sig ekki vera jólabarn var þá, nokkrum árum síðar, orðinn silkimjúkur og búinn að lesa mig sem opna bók. Nokkuð viðeigandi að svara lífsförunaut mínum játandi á þeirri stundu ársins sem var mér hvað kærust. Klukkan sex á aðfangadag.“

Halldóra er dugleg að búa til fallegt góðgæti.
Halldóra er dugleg að búa til fallegt góðgæti. Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

Einu sinni farið suður

„Ég hef upplifað 30 jól í Aðaldal og ein á Vatnsenda í Kópavogi með föðurfólkinu mínu. Afi minn Guðmundur upplifði aldrei jól nema á æskuheimili sínu Grímshúsum en ég hef nú flippað meira en það og verið á þremur mismunandi heimilum hér í Aðaldal. Bernskujól mín reyndust mér afar heilög.

Lengst af fórum við fjölskyldan yfir til afa og ömmu í Grímshúsum á aðfangadag og fylgdu því þar af leiðandi ótal margslungnar tilfinningar að upplifa jól fjarri heimahögunum þegar við héldum einu sinni suður. Foreldrar mínir fóru síðan að halda jólin heima hjá okkur á Aðalbóli, sem við systkinin töldum í upphafi óþarflega róttækt en vöndumst því strax enda fá hús hlýrri í aðdraganda jóla en æskuheimili okkar.

Í dag eyðum við maðurinn minn jólunum hér heima hjá okkur með dætrum okkar – og vitum ekkert betra.“

Beðið eftir jólunum.
Beðið eftir jólunum. Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

„Ég held að jólin fylgi þér vissulega alltaf – sama hvar þú ert. Árin sem ég bjó á Ítalíu einkenndust þó af mikilli eftirvæntingu eftir því að komast heim í Aðaldalinn, rétt fyrir jól. Ég naut þess að upplifa aðdraganda jólanna úti. Ég drakk ítalskar jólahefðir í mig sem og fór gjarnan yfir til Sviss og naut aðventunnar þar líka.

Ég man ég þurfti nánast að klípa mig þegar þegar ég var á Ítalíu og við bökuðum í fyrsta sinn kastaníuhnetur „yfir opnum eldi“ eins og Nat King Cole söng svo eftirminnilega um. Þar leið mér eins og ég væri búin að tikka í eitthvert einstakt box í mínu æviskeiði. Ég var líka einu sinni hluta úr aðventu í Þýskalandi, sem var alveg dásamlegt – þýskir jólamarkaðir eru einstakir.

En þrátt fyrir öll jólaævintýrin sem hafa orðið á vegi mínum úti jafnast ekkert á við jólin sjálf hér heima í Aðaldal. Þegar upplýst hús sveitunga minna kúra í fönninni undir stjörnubjörtum himninum. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa því en hjarta mitt fyllist einhverri sælu þegar ég fer út að ganga á veturna og finn ilm af reyktu hangikjöti í loftinu.

Það er eins og dalurinn sé að faðma þig og tilfinningin er svipuð um jólin sjálf. Hér veit ég að ég er umvafin jólakærleikanum sem ég þekki svo vel. Ég veit ekki hvort hefðirnar hjá okkur eru þó í raun eitthvað svo ólíkar því sem við myndum gera ef við byggjum í borg. Við sækjum vissulega mikið í samverustundir í náttúrunni hér og hef ég til dæmis búið til jólaratleik fyrir dætur mínar síðustu ár og langar að bjóða nágrönnunum að taka þátt í honum líka.“

Það er gaman á jólunum.
Það er gaman á jólunum. Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

„Hér förum við líka alltaf í ógleymanlegar ferðir með dætur okkar upp í Dimmuborgir í Mývatnssveit þar sem við heimsækjum jólasveinana – fullkomið ævintýri ef þið spyrjið mig. Ég held að kannski sá partur sem er mér hvað dýrmætastur við jólin hér í Aðaldal sé að mér þykir í raun vænt um nánast hverja þúfu og maður finnur slíkar tilfinningar svo sérstaklega sterkt í kringum jólin,“ segir hún.

Þrátt fyrir sjarmann sem fylgir gömlum jólahefðum finnst Halldóru Kristínu að jólin megi ekki vera of niðurnjörvuð. Henni finnst mikilvægt að víkka sjóndeildarhringinn og í aðdraganda jólanna ætla mæðgurnar í jólaferð til Sviss og upplifa aðventuna þar. Jólin verða svo haldin heima í Aðaldal – enda hvergi betra að vera.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál