Illskan í sinni tærustu mynd

Kári Valtýsson gaf nýverið út spennusöguna Hyldýpið sem hefur vakið …
Kári Valtýsson gaf nýverið út spennusöguna Hyldýpið sem hefur vakið mikla athygli en þetta er fjórða skáldsagan hans Kára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glæpasagan Hyldýpi eftir Kára Valtýsson hefur vakið mikla athygli en þar er fjallað um illskuna í sinni tærustu mynd. Dögg er ungur læknir sem fer að vinna sem læknir án landamæra í Súdan þar sem hún kynnist Söruh sem er ungur og frakkur læknir frá Brooklyn í New York. Saman takast þær á við hörmungarnar í flóttamannabúðunum þar sem þær starfa og svo gerist það að Dögg fellur hug til yfirlæknis á svæðinu.

Saman fara þau öll í sendiför sem hefur þungar afleiðingar í för með sér. Nokkrum árum seinna fléttast Kristján inn í þetta en hann er nýbúinn að stofna sína eigin lögfræðistofu í Reykjavík og er að kikna undan afkomuótta og kvíða því það er ekkert að gera hjá honum. Hann fær tvö athyglisverð mál í hendurnar; mál fylgdarlauss barns frá Súdan og mál ungs Pólverja sem á vafasama fortíð, svo vægast sé sagt.

Í Hyldýp er fjallað um illskuna í sinni tærustu mynd. …
Í Hyldýp er fjallað um illskuna í sinni tærustu mynd. Dögg er ungur læknir sem fer að vinna sem læknir án landamæra í Súdan þar sem hún kynnist Söruh sem er ungur og frakkur læknir frá Brooklyn. Dögg verður ástfangin af yfirlækni á svæðinu og saman fara þau öll í sendiför sem hefur þungar afleiðingar í för með sér. Nokkrum árum seinna fléttast Kristján inn í þetta en hann er nýbúinn að stofna sína eigin lögfræðistofu í Reykjavík og fær tvö athyglisverð mál í hendurnar; mál fylgdarlauss barns frá Súdan og mál ungs Pólverja sem á vafasama fortíð, svo vægast sé sagt. Ljósmynd/Aðsend

Allar þessar sögupersónur tengjast með mjög afdrifaríkum hætti að sögn Kára sem sjálfur starfar sem lögmaður. Það er því nærtækast að spyrja hvort hann tengdi við Kristján við ritun sögunnar. „Það er óhætt að fullyrða það. Þegar ég skrifaði bókina var ég einmitt að stofna mína eigin lögfræðistofu, með afkomuótta og kvíða,“ segir Kári og hlær.

„Ég á líka þrjú börn eins og Kristján þannig að vissulega er margt í þeim karakter sem ég tengi við. En svo náttúrlega beygi ég harkalega út af sporinu í líkingunni því það er svo margt sem kemur fyrir greyið manninn. Ég er ekki í svona spennandi starfi eins og hann. Það yrði nú frekar leiðinleg bók sem myndi ekki seljast neitt,“ segir Kári kíminn.

Byrjaði að skrifa vegna leiða

Kári hefur gefið út þrjár bækur sem sömuleiðis hafa hlotið góða dóma; Hefnd, Heift og Kverkatak en allar eru þær spennusögur. Kári segist hafa byrjað að skrifa sem ungur maður þegar honum leiddist á næturvöktum á sambýli þar sem hann vann. „Bíórásin var hundleiðinleg þannig að ég fór að bauka við að skrifa, að athuga hvort ég gæti það. Úr því varð bók sem var rosalega léleg og endaði í ruslinu. Svo gerði ég aðra og enn aðra og allar fóru þær í ruslið.

En með þessu var ég að æfa mig hratt og örugglega. Til að geta skrifað þarf að lesa mikið og skrifa mikið. Ég myndi segja að það væri lykillinn að því að búa til sína rödd og sinn stíl.

Einhvern veginn varð svo til handrit sem ég gat unnið eitthvað meira með og á endanum fékk ég kjark til að senda á útgáfur. Ég var náttúrlega sleginn niður hratt og örugglega þar, eins og gengur og gerist. Ég held að flestir sem gangi þennan veg kannist við það. En eftir svolitla þrautagöngu að æfa sig og henda í ruslið kom á endanum út bók,“ segir Kári einlægur.

Skrifar aldrei hjá sér hugmyndir

Hugmyndin að Hyldýpi kviknaði þegar Kári fór að velta fyrir sér hvað myndi gerast ef einstaklingur stæði með afsagaða haglabyssu í dómssal og héldi honum í heljargreipum. „Þannig er það oftast með allar hugmyndir hjá mér, þær byrja á spurningunni Hvað ef. Einhver venjulegur einstaklingur lendir í hræðilegum aðstæðum og þá verður til bakgrunnur sem ég skrifa í kringum. Það hafa verið athyglisverð mál í íslensku samfélagi sem snerta á flóttamönnum sem hingað hafa leitað og það kveikti hjá mér ákveðinn áhuga á að kanna það meira. Eins og í öllum bókunum mínum þá er ákveðinn spegill á samfélagið í Hyldýpi, svona vottur af raunveruleikanum áður en ég gef skáldagyðjunni lausan tauminn,“ segir Kári og bætir við að ef hann fær góða hugmynd í kollinn þá fer hún ekkert fyrr en hann nær að koma henni í bók.

„Ég held að lykilatriði sé að skrifa ekki niður sínar hugmyndir. Ég hef þá reglu að skrifa ekki niður mínar hugmyndir en vera vakandi fyrir því sem lætur mig ekki í friði. Einu sinni var ég alltaf að pára niður hjá mér allt sem mér datt í hug en svo varð aldrei neitt úr þeim hugmyndum af því þær voru kannski bara ekkert rosalega góðar. Það er ágætt að nota heilann sem síu á þennan hátt.

Ég stel þessari aðferð frá Stephen King sem hefur gert þetta lengi. Ég var reyndar byrjaður að gera þetta þegar ég rakst á þetta hjá honum en gott er að fá svona stóran höfund til að staðfesta að þetta sé góður mælikvarði á hugmyndir.“

„Ég á líka þrjú börn eins og Kristján þannig að …
„Ég á líka þrjú börn eins og Kristján þannig að vissulega er margt í þeim karakter sem ég tengi við. En svo náttúrlega beygi ég harkalega út af sporinu í líkingunni því það er svo margt sem kemur fyrir greyið manninn. Ég er ekki í svona spennandi starfi eins og hann,“ segir Kári kíminn en hann starfar sem lögmaður þegar hann er ekki að skrifa bækur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skapandi lögmennska

Aðspurður hvort það sé ekki heilmikill munur á lögmennsku og bókaskrifum, þar sem annað sé skapandi, segir Kári að í raun sé lögmennskan á stundum ótrúlega skapandi. „Það sem heillar mig við lögmennsku er að þú ert alltaf pínu með puttann á púlsinum þegar kemur að þjóðfélaginu sem þú ert í. Þjóðfélagið breytist náttúrulega bara eins og fólkið sem býr það til og viðhorf breytast reglulega. Þannig að lagaumhverfið er frekar fljótandi.

Ég hef stundað lögmennsku í meira en tíu ár og andinn í samfélaginu núna er allt annar en hann var þegar ég var að byrja. Áherslur og annað í samfélaginu endurspegla hvað er í gangi á hverjum tíma og lögfræði er þannig að maður þarf að læra á beinagrind samfélagsins.

Það eru ákveðnar reglur og reglugerðir sem þarf að fylgja en þessar reglur eru ólíkar og breytast eftir tíðarandanum. Þannig að það þarf alltaf að vera að grúska, gera og græja og vinna með hluti sem eru ekki endilega alltaf eins sem verður að hluta til svolítið skapandi.

Lögmenn vinna oft á gráa svæðinu að reyna að finna glufur, teygja til hugtök og þess háttar. Það felur óhjákvæmilega í sér ákveðna kreatífa hugsun þó að hún sé öðruvísi en bókaskrif. Starfið er frekar dýnamískt og fjölbreytt. Maður á sjaldan rólegan dag,“ segir Kári og bætir við að hann hafi gaman af þessu harki sem lögmannsstarfið er. „Lögmennskan sjálf er frekar frábær. Og svo eru bókaskrifin algjör ástríða hjá mér sem ég geri af því mér finnst það svo gaman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

tannlæknir svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda