c

Pistlar:

26. maí 2011 kl. 14:49

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Er sætindaþörfin að skemma árangurinn í ræktinni?

Veldu ávexti í stað sætinda

Það er svekkjandi að puða og púla í ræktinni mánuð eftir mánuð og sjá engan árangur.   Gæti það verið að nammipúkinn í þér sé að koma í veg fyrir að þú sjáir verðskuldaðan árangur æfinganna?  Allt er gott í hófi og við þurfum að kunna að stjórna sætindaþörfinni og gæta hófs. Lítill desert eða konfektmoli annað slagið gerir lífið klárlega skemmtilegra en þegar þú stendur þig að því að klára stóran poka af gotteríi, skella í þig digurvaxinni rjómatertusneið með öllu og sötra stóran súkkulaðisheik allt í einni og sömu vikunni gæti verið málið að staldra aðeins við og íhuga breytingar á neyslumynstri þínu, hafir þú áhuga á að komast í betra form. 

Hér koma 6 góð ráð til að minnka nammipúkann í þér. 

1.Beindu huganum að öðru en matÞegar þú finnur að þörfin fyrir að læsa tönnunum í eitthvað sætt er að hellast yfir þig, finndu þér þá eitthvað að gera. T.d. að hringja í vin, gera nokkrar æfingar, fara í göngutúr (með hundinn), fara í notalegt freyðibað, eða hvað sem þér dettur í hug sem dreifir huga þínum frá sætindaþörfinni.

2. Skipuleggðu tímann þinn í takt við sætindaþörfina .Ef þú veist að sætindaþörfin skellur á þig á ákveðnum tíma dags, t.d. á kvöldin, hafðu þá til reiðu einn lítinn skammt af einhverju sem þér þykir gott að gæða þér á og leyfðu þér það en ekki meira. Annað sem þú getur gert er að skipuleggja tíma þinn þannig að þú sért upptekin/n við eitthvað á nart tímabili dagins.

3. Mundu, það ert þú sem stjórnar, enginn annar! Skipuleggðu daginn þannig að þú farir t.d á æfingu á þessum tíma, hittir vini eða eitthvað sem heldur þér frá að láta undan nart þörfinni.Borðaðu á 3-4 tíma fresti.Þú heldur blóðsykri líkamans í betra jafnvægi með því að borða litla skammta á 3-4 tíma fresti yfir daginn. Þú heldur betri einbeitingu og stöðugri orku auk þess sem það kemur í veg fyrir að þú finnir fyrir miklu hungri sem oft leiðir til ofáts.

4.Drekktu nóg af vatniFólk upplifir stundum þorsta sem svengdartilfinningu. Vertu viss um að þú drekkir 6-8 glös af vatni á dag til að tryggja líkamanum nægan vökva.  Vatnsdrykkja fyllir magann og getur komið í veg fyrir að þú teygir þig í “gotterí” eða annað sem þú hefur ekki þörf fyrir. Ef það höfðar ekki til þín að drekka vatn í miklum mæli er jurtate líka góður kostur.

5. Allt er gott í hófi. Ef þú temur þér að neyta matar í hófi þarftu ekki að neita þér um ákveðnar fæðutegundir og getur samt haldið þér í kjörþyngd. Galdurinn felst í því að kunna sér hóf og geta smakkað á því sem þig langar í, en aðeins í litlu magni. Stærðin skiptir öllu máli í þessu tilfelli!!

6.  Prófaðu að framkvæma litla rannsókn á eigin neyslu. Skrifaðu niður öll sætindi sem þú borðar í eina viku og reiknaðu út hve það gera margar hitaeiningar.  Í einu dæmigerðu súkkulaðistykki eru gjarnan á bilinu 250-350 he. og í XL stærðum allt að 500-600 he.  Þetta getur verið fróðlegur útreikningur fyrir þig. Hægt er að finna út hitaeiningamagn á umbúðum eða Googla!  Vertu meðvituð/aður um hvað fer ofan í þig.