c

Pistlar:

14. júní 2011 kl. 21:48

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Meira grænmeti ofan í börnin - 8 góð ráð!

Hollt fyrir börnin

Hugar þú vel að þínu mataræði og borðar hollt og fjölbreytt en finnst þrautinni þyngri að fá aðra heimilismeðlimi að taka þátt í heilsuvæðingu heimilisins?

Margir foreldrar kannast við vandann við að fá börnin til að borða grænmeti og ýmsa aðra hollustu. Það getur verið heilmikill höfuðverkur að tryggja börnunum góða daglega næringu því dísætt morgunkorn, sykurbætt jógúrt, kex, pulsur og pizzur eru gjarnan efst á vinsældarlistanum þeirra.  Eitt af heilsufarsvandamálum okkar þjóðar er léleg næring barna og klárt að það er ástæða til að staldra við og athuga hvað hægt er að gera og hvað þú getur gert.

Hér eru 8 hugmyndir til að bæta næringu barnanna.

1. Settu girnilega ávexti af ýmsu tagi í skál þar sem börnin sjá þá og geta náð í sjálf (þau sem hafa aldur til).  Þú þarft að viðhafa smá markaðsstarf inn á heimilinu, hafa það holla sýnilegt og kex, kökur og sætindi úr augsýn og helst ekki fáanlegt á heimilinu.   Flestum börnum þykja ávextir góðir og þeir eru stútfullir af næringu og halda börnunum söddum mun lengur en næringarsnautt ruslfæði.

Skemmtilegt hollustubrauð2. Sköpunargleði í samlokugerð getur verið sniðug leið til að innleiða meira grænmeti á samlokuna.  Hægt er að nota hugmyndaflugið, búa til andlit ofl. með því að skera niður grænmetið á frumlegan hátt.

3. Hafragrautur á morgnana er ein besta leiðin til að hefja daginn fyrir alla fjölskylduna.  Það er hægt að setja ýmislegt hollt góðgæti út í grautinn t.d. epli og kanil, eða fersk ber, eða smá þurrkaða ávexti.  Prófaðu að skella í hafragraut á hverjum morgni í 2-3 vikur og vittu hvort fólkið þitt kunni ekki fljótt að meta það.  En hvort sem þú nærð að venja krakkana þína á hafragrautinn eða annað hollmeti á morgnana,  reyndu a.m.k. eftir fremsta megni að úthýsa öllu sætu morgunkorni.  Barnið/börnin þín eiga ekki skilið að hefja daginn á þess háttar fæðu sem inniheldur allt of mikinn sykur, lítið af næringu og trefjum.

4. Auðvelt er að gera smá breytingar á ýmsum hefðbundnum réttum til að auka hollustuna.  T.d. geturðu skellt í pott ýmsu grænmeti, niðursoðnum tómötum og kryddað eftir smekk t.d. með hvítlauk.  Lætur þetta malla þar til grænmetið er orðið vel mjúkt og skellir þá öllu í blandara og þá er komin hin besta sósa út á pasta og enginn tekur eftir því að hún er stútfull af grænmeti.  Einnig má prófa að gera grænmetis lasagne þar sem kjötinu er skipt út fyrir t.d. spínat, kúrbítssneiðar, gulrætur ofl. Um að gera að leika sér með krydd og kryddjurtir til að bragðbæta.

5. Matarmiklar og hollar súpur (án rjóma og smjörs) eru sígildar og tilvalið að hafa sem venju að borða súpu a.m.k. 1x í viku.  Það er hægt að gera naglasúpu, demba saman afgöngum af grænmeti góðu fersku kryddi  og súputening úr heilsuhillunum út í vatn og sjóða í mauk og skella í blandarann.  Það má svo e.t.v. setja aftur í pottinn og skella smá pasta út í og sjóða þar til það er tilbúið.  Slíkar súpur geta orðið vinsælar hjá krökkunum.  Möguleikar með súpur eru auðvitað endalausar og um að gera að prófa sig áfram.

pinnamatur af ýmsu tagi6.  Í sumar er skemmtilegt að fá börnin með í að skera niður grænmeti og ávexti og setja á grillpinna og skella á grillið.  Grillaðar ananas sneiðar finnst t.d. mörgum börnum mikið lostæti með mat og svo er það líka þannig að ef að þau hafa tekið þátt í undirbúningnum eru þau líklegri til að vilja smakka.

7.  Næst þegar þú hefur pizzakvöld,  skiptu út unnu kjötvörunum fyrir girnilegt grænmeti af ýmsu tagi.  Litríkar paprikusneiðar, tómatar, ananas, hvítlauksristaðar kartöflusneiðar og fleira grænmeti er mjög gott ofan á pizzu.  Jafnvel bananar eru settir á pizzu!  Með þessu móti geturðu mögulega smám saman vanið fjölskylduna af pepperoni pizzum og innleitt hollustupizzur í staðinn.   Farðu á flug með hugmyndir og hafðu jafnvel smá fjölskyldu hugarflugsfund um það hvað er hægt að prófa hollt og skemmtilegt, nýtt ofan á pizzuna.  Börnin elska að taka þátt og koma með hugmyndir.

8.  Það skiptir svo auðvitað sköpum að þið foreldrarnir séuð samkvæm sjálfum ykkur og góðar fyrirmyndir í ykkar neysluvenjum því börnin læra það sem fyrir þeim er haft.    Það er sama hve oft og hátt þú predikar í eyru barnanna ef þau sjá þig gera annað þá er allt tal marklaust.  Það sem þau sjá hljómar hærra en það sem þau heyra.