c

Pistlar:

7. júlí 2011 kl. 15:34

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Er matvörubúðin fitugildra?

veldu rétt og vigtin sýnir rétt

Flestir vita og hafa e.t.v. lært af eigin raun að það getur verið stórhættulegt að fara svangur að versla í matinn. Allt milli himins og jarðar virðist einstaklega girnilegt í versluninni og sérlega mikilvægt að kaupa. Uppáhalds kexið, gotteríið og bakkelsið, hafa ríka tilhneigingu til að rata í körfuna, allt í einni og sömu ferðinni og fylla hillur og skápa þegar heim er komið. Góssið eins og það leggur sig er svo líklegt til að enda "á rassinum" á innkaupameistaranum, sem er iðulega afar óánægð(ur) með uppskeruna.

Hér koma nokkur góð ráð til koma í veg fyrir að ferðirnar í matvörubúðina eyðileggi mittismálið.

1. Farðu aldrei svöng/svangur að versla í matinn.  Einföld og afar mikilvæg regla og skyldi aldrei vanmeta!

2. Verslaðu í jaðrinum
Matvöruverslanir eru oftast þannig upp settar að í jaðrinum, eða upp við útveggina finnur þú ferskvöruna, ávexti, grænmeti, mjólkurvörur, kjöt og fisk og brauð. Inni í miðjunni eru hillur hlaðnar kexi, snakki, sælgæti ofl. sem þú ættir að láta eiga sig. Ágætt viðmið er að 80% af því sem þau kaupir af matvöru sé úr jaðrinum og 20% úr miðjunni.

3. Skipulag getur bjargað lífi þínu.
Skipuleggðu heilsusamlegar máltíðir yfir vikuna og vertu með innkaupalista og ekki hvika frá honum. Ég er nokkuð viss um að þú hefur heyrt þetta áður, en HEFURÐU PRÓFAÐ?  Hvernig væri að taka einn mánuð og prófa skipulag og innkaupalista og sjá hvað gerist. Þú getur sparað þér mörg kíló og svo ekki sé minnst á fjárhagslega ávinninginn sem skapast. Þú græðir á ýmsan hátt vð að skipuleggja.

lesa á umbúðir

4. Lærðu að lesa innihaldslýsingar.
Kynntu þér vel innihaldslýsingar á matvörum og settu þér ákveðin viðmið fyrir þín innkaup. T.d. berðu saman sykurinnihald í ýmsum tegundum morgunkorns. Þar geturðu séð að munurinn er gríðarlegur. Bara sem dæmi er tólf sinnum (12x) meiri sykur í Cocoa Puffs en í venjulegu Cheerios. Fylgstu með magni sykurs, trefja, fitu, sérstaklega harðri (saturated) og hertri (hydrogenated) fitu. Sem betur fer er algengara í dag að hægt sé að sjá magn transfitusýra á umbúðum.   Ef þú sérð langan lista af óskiljanlegum orðum eru allar líkur á að varan sé hlaðin gerfiefnum og óhollustu og best að láta hana standa í hillunni. 

5. Minna er oft betra.
Það getur verið freistandi að kaupa stórar einingar með það fyrir augum að spara peninga.  En þegar kemur að sætindum og rusl mat er alltaf betra að velja minnstu einingarnar.  Ef þú þarft að kaupa sætindi, snakk o.þ.h., kauptu alltaf lítið í einu.  Staðreyndin er sú að það hefur enginn gott af þessu, en ef þér finnst lífið óbærilegt án þess, neyttu þess í hófi og ekki skapa þér þín eigin freistingaraugnablik sem þú veist að þú getur ekki staðist með stórum pökkum af trakteringum inni í skáp.

hollt og gott

6. Settu þér þínar eigin innkaupareglur.
Skapaðu þér þínar eigin reglur sem henta þér og þínum.  T.d. hætta að kaupa kex nema þegar sérstakt tilefni er s.s. afmæli eða jól.  Kaupa aðeins fituminni mjólkurvörur og þær sem  innihalda í mesta lagi 5g af sykri í hverjum 100g.  Prófa að kaupa tegundir af grænmeti og ávöxtum sem þú hefur e.t.v. ekki keypt lengi eða aldrei.  Sestu niður og spáðu aðeins í innkaupavenjur þínar.  Flestir ganga í gegnum verslunina eins og vélmenni og kaupa í stórum dráttum alltaf það sama.  Það má alltaf breyta og bæta!

7. Vertu á varðbergi við kassann.
Líklega er hver einasta matvöruverslun í landinu með úrval af sælgæti við kassann og auðvitað af ástæðu!  Það mokast út því fólk lætur freistast.  Þegar þú bíður í röðinni og hefur ekkert að gera blasir við þér sælgæti af ýmsum gerðum og auðvitað freistandi að grípa eitt og henda á færibandið.  Það getur verið gott að setja þetta sem sérstaka innkaupareglu eða bara ákveðið prinsipp, að láta ekki aðra (sniðuga hönnuði matvöruverslana) ginna þig til að eyða peningunum þínum í vöru sem gerir ekkert fyrir þig nema gefa þér augnabliks ánægju og eftir það aðeins leiðindi; meltingartruflanir og aukakíló.