c

Pistlar:

16. september 2011 kl. 9:42

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Hatar þú sumar æfingar?

pull-up-7

Það er staðreynd að flestir hata einhverjar æfingar í ræktinni.   Sumir þola ekki upphífingar, aðrir forðast í lengstu lög hnébeygjur og fullyrða má að armbeygjan sé óvinsælasta æfing sem til er. Mögulega vegna þess að armbeygjurnar hafa lengi verið notaðar óspart sem refsing í hernum eins og flestir kannast við.   Eða einfaldlega vegna þess, og það tel ég mun líklegri skýringu, að þær eru skruggu erfiðar.

Og hvað gerir fólk iðulega þegar það hatar ákveðnar æfingar? Sleppir þeim. Flestir iðka fyrst og fremst æfingar sem þeim líkar vel að gera. Tvíhöfðabeygjan er ofarlega á vinsældarlistanum og þríhöfðaréttan fast á eftir. Það er einfalt og þægilegt að forðast leiðinlegu æfingarnar og einbeita sér að þeim skemmtilegri.

En hvað gerist þá? Fólk gerir sömu æfingarnar mánuð eftir mánuð og jafnvel ár eftir ár og heldur sig sem fastast inni í sínum þægindaramma. Hættir svo fljótlega að mæta í ræktina því að það sér engan árangur. Líkaminn var löngu orðinn vanur sama álaginu og hættur að bregðast við.

Það er því miður ekki hægt að byggja upp og tóna vöðvana með því að halda sig innan þægindarammans. Vöðvar styrkast og stækka þegar lagt er álag á þá og það þarf stöðugt að breyta æfingum og álagi til að koma í veg fyrir stöðnun. Líkaminn reynir í sífellu að aðlagast auknu álagi svo það þarf að sjá við honum með fjölbreyttum æfingum og að auka reglulega þyngd lóðanna.

Óvinsælu æfingarnar eru iðulega þær mest krefjandi.  Þess vegna eru þær einmitt æfingarnar sem fólk ætti að leggja sig eftir að gera reglulega til að vinna á veikleikum sínum og ná meiri framförum. Æfingarnar þykja erfiðar vegna þess að þeir vöðvar sem þær reyna helst á þurfa meiri þjálfun.

Styrktarþjálfun er í eðli sínu þannig að það er nauðsynlegt að fara aðeins lengra en þægilegt þykir til að fá þann árangur sem sóst er eftir og það þýðir að ráðast þarf í æfingar sem ekki alltaf eru skemmtilegar eða þægilegar.  Eins og afar og ömmur sögðu gjarnan svo réttilega, Þú þarft að gera fleira en gott þykir!   Ef þér líður vel í styrktarþjálfun og finnst hún bara þægileg, ertu ekki að vinna til árangurs.

Hvernig er best að tækla æfingarnar sem þú hatar?
Einbeittu þér að einni slíkri æfingu í einu.  Veldu eina æfingu í hverjum mánuði sem þú hefur forðast fram til þessa.  Það er ekki vit í að ráðast í armbeygjur og upphífingar á sama tíma ef þær tvær eru á óvinsældarlistanum þínum.   Taktu fyrir eina æfingu í þrjátíu daga og sjáðu og finndu hvað þú munt fljótt styrkjast og fljótlega dettur hún af svarta listanum þínum.

Workout-without-Lifting-Weights

Þegar þú byrjar að æfa skipulega æfinguna sem þú hatar er skynsamlegt að byrja á auðveldari útgáfunni af henni.  T.d. armbeygjur á hnjám til að byrja með og færa þig svo upp á tær þegar styrkur eykst. 

Það er eins og með allt, það sem fær athygli blómstrar og svo mun verða um svarta lista æfingarnar þínar eina af annari .  Þú munt ekki sjá eftir því að hafa ráðist í það verkefni því árangurinn muntu líta eigin augum í speglinum innan tíðar.  

Er e.t.v. þinn tími kominn til að stíga út úr þægindarammanum?

Hóptímar í líkamsrækt og einkaþjálfun eru öruggar leiðir til að fá fjölbreytta þjálfun og hvatningu til að gera betur í hvert sinn.
Viltu prófa að æfa frítt í Hreyfingu?  Farðu á www.hreyfing.is og smelltu á Frír prufutími