c

Pistlar:

26. október 2011 kl. 22:45

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Cellulite - Hvernig losnar þú við það?

cellulite_and_exercise.jpgÞað hefur lengi þótt frekar ergilegt að hafa cellulite eða appelsínuhúð. Talið er þó að um 90% kvenna um allan heim, eldri en 18 ára hafi að einhverju leyti þessar óvinsælu ójöfnur undir húð, sérstaklega á lærum, mjöðmum og rassi.

Ógrynni af smyrslum og "meðulum" af ýmsu tagi sem eiga að eyða appelsínuhúð hafa verið sett á markað í gegnum árin en virðast hafa afskaplega lítil áhrif. En getur þjálfun útrýmt cellulite?

Hvað veldur appelsínuhúð?
Appelsínuhúð er í raun venjulegur fituvefur sem þrýstist út í gegnum undirliggjandi stuðningsnet húðarinnar. Þegar fitufrumurnar sem liggja undir húðinni stækka, þrýstast þær enn meira í gegnum bandvefinn sem leiðir til þessa ójafna yfirborðs húðarinnar sérstaklega á lærum og rassi.

Ekki hefur fyllilega tekist að komast að því hvað nákvæmlega veldur appelsínuhúð og afhverju sumir eru  alfarið lausir við hana en kenningar eru uppi um að hormón og erfðir hafi þar talsverð áhrif ásamt óheilbrigðum lífstíl, s.s. slæmum neysluvenjum, reykingum og kyrrsetu. 

Ástæðan fyrir því að karlar fá mun síður appelsínuhúð en konur er sú að bandvefur þeirra er talsvert þéttari og minni líkur á að fitan nái að þrýstast í gegnum hann og mynda þessar ójöfnur.

Er hægt að losna við appelsínuhúð með æfingum?
Sérfræðingar hafa lengi bent  á að besta leiðin til að losna við fitu og þ.á.m. appelsínuhúð væri að stunda þolþjálfun af kappi. En nýjustu rannsóknir sýna að það er ekki nóg. Öflug styrktarþjálfun með lóðum stuðlar að auknum vöðvamassa og leiðir til þess að yfirborð húðarinnar verður sléttara. Fitan minnkar og því þrýstist hún síður í gegn um bandvefinn og bungast út.

Þó að regluleg þjálfun hjálpi mikið í baráttunni við appelsínuhúð getur hún þó því miður seint fjarlægt hana með öllu. En ef þú þjálfar upp rassvöðvana og lærvöðvana og minnkar fituhlutfall líkamans verður appelsínuhúðin síður sýnileg. Rannsóknir hafa sýnt verulega minnkun á appelsínuhúð eftir 12 vikna  styrktarþjálfun með lóðum 3x í viku.

Mjög margir falla fyrir skyndilausnum til að losna við kotasælukekkina. Kaupa frekar dýra áburði í stað þess að stunda samviskusamlega hnébeygjur og framstig. Það er þó samdóma álit sérfræðinga að enn fáist ekki það krem eða sá áburður sem minnki appelsínuhúð sem einhverju nemur.

using-dumbbells-forward-lunges.jpgNiðurstaðan er sú að regluleg styrktarþjálfun ásamt því að bæta matarvenjur og losna við aukakíló er besta leiðin til að losa sig við appelsínuhúð að því marki sem mögulegt er.  Áður en þú eyðir stórfé í krem sem lofað er að bræði burt cellulite, er skynsamlegra að grípa í lóðin, gera þér gagn og stunda fjölbreyttar æfingar sem styrkja helstu vöðva líkamans. Svo er alltaf spurning hvort hægt er að læra bara að elska þessa kekkjóttu kotasæluhúð?