c

Pistlar:

14. janúar 2012 kl. 17:16

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Kviðspik - Krúttlegt eða hættulegt?

burn-visceral-fat-workout-05102011.jpgKviðspik eða bumba hefur ekki þótt beinlínis eftirsóknarvert líkamsástand en margir láta sér þó fátt um finnast þó mittismálið aukist hægt og hljótt og láta áfram fara vel um sig í sófanum með uppáhalds góðgætið innan seilingar.

Bumba eða "sixpakk" snýst ekki bara um útlitið. 
Ástarhöldin geta í raun verið hættuleg heilsunni.  Algengt er að þeir sem safna mikilli fitu um sig miðja, bæði konur og karlar, safni einnig mikilli innri kviðfitu. Hún er talin mun hættulegri en fitan sem sest undir húðina. Innri kviðfita er sú tegund fitu sem safnast fyrir innan um líffærin og eykur líkurnar á alvarlegum sjúkdómum t.d. of háum blóðþrýstingi, sykursýki og hjartasjúkdómum, en á Íslandi deyr ein kona og einn karlmaður að meðaltali á dag af völdum hjartasjúkdóma.  Kyrrsetufólk og þeir sem reykja eru mun líklegri til að safna á sig innri kviðfitu en þeir sem hreyfa sig reglulega og eru reyklausir.  Streita er einnig talin vera áhættuþáttur í aukinni innri kviðfitu.

Grannvaxnir ekki endilega án innri fitu
Þó að þú passir enn í sömu gallabuxurnar og þegar þú varst 18 er alls ekki víst að þú sért með fitusnauðan innri kvið.  Rannsóknir sýna að fólk sem er grannvaxið en stundar ekki þjálfun er gjarnan með talsverða innri fitu en telur sér oft trú um að sú sé ekki raunin,  það sé í fínu líkamlegu formi.  Það er nefnilega ekki endilega samasem merki á milli þess að vera grannur og að vera með heilbrigðisvottorðið í topp standi.

truthaboutabs3.jpgÞú getur haft mikil áhrif ef þú vilt
Það góða er að þú hefur val.  Þú getur ákveðið að losa þig við þessa hættulegu fitu.  Besta leiðin til að losna við kviðfitu, innri og ytri er að hefja reglubundna þjálfun og gera skynsamlegar breytingar á matarvenjum þínum.   Draga sem mest úr neyslu harðrar- og hertrar fitu, sætindum og gosdrykkjum. Auka neyslu á trefjaríku fæði, grænmeti og ávöxtum.  Ef þú ert yfir kjörþyngd ættirðu einnig að huga að því að minnka matarskammtana þína.

Göngutúrar duga ekki til
Talið er að ein af helstu ástæðunum fyrir því að fólk safnar meira af innri kviðfitu eftir því sem það eldist er vegna lækkunar á vaxtarhormónum í líkamanum.  Áköf, krefjandi þjálfun örvar losun vaxtarhormóna.  Því eru krefjandi æfingar betri í baráttunni en léttar æfingar.  Göngur eru ekki líklegar til að losa mikið magn vaxtarhormóna en göngur og stutt spretthlaup til skiptis gerir meira gagn.   Því er krefjandi snöggálagsþjálfun nokkrum sinnum í viku ein besta leiðin til að losna við kviðfituna.

Lóðin eru líka mikilvæg
Krefjandi lóðalyftingar hafa einnig sitt að segja í baráttunni við innri kviðfituna því ef þú lyftir þungu, þ.e. notar lóð sem þú getur í mesta lagi lyft 8-10 sinnum verður einnig aukning á vaxtarhormónum.

Niðurstaðan
Besta leiðin til að minnka bumbuna og innri kviðfituna er því að stunda bæði krefjandi skorpuþjálfun og krefjandi lyftingar ásamt því að gera varanlegar breytingar til hins betra á neysluvenjum þínum.

P.s.
Ef þig langar að byrja að æfa og vantar ráðleggingar geturðu fengið fría ráðgjöf hjá Hreyfingu.  Sendu póst á hreyfing@hreyfing.is til að panta tíma.
www.hreyfing.is