c

Pistlar:

8. maí 2012 kl. 10:01

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Nart á milli mála - fitandi eða grennandi?

Hollt snarlNart á milli mála getur verið af hinu góða ef rétt er að farið.  Þú getur haldið blóðsykrinum og orkunni stöðugri yfir daginn með því að fá þér nasl á milli mála sem um leið minnkar líkur á hinni velþekktu skyndilöngun í sætindi sem mörgum finnst erfitt að standast.   Galdurinn er að kunna að snarla skynsamlega.  Ef þú nartar of oft og of mikið í einu gæti mittismálið smám saman farið úr böndunum.  Hér eru nokkur góð ráð til að hafa í huga.

Skipulag skiptir sköpum

Útbúðu fyrirfram heilsusamlegt snarl sem hentugt er að kippa með þegar þú ferð í vinnuna eða annað.  Þegar þú finnur löngunina til að stoppa í sjoppunni hellast yfir þig þá teygir þú þig einfaldlega í holla naslið þitt t.d. hnetur, möndlur, bitafisk, gulrætur eða banana.   Ef þú ert að fara í lengri ferðir er sniðugt að verða sér úti um lítið kælibox þar sem þú getur geymt t.d. litla dós af kotasælu, ávexti, niðurskorið grænmeti, hummus o.fl. hollt og gott.  Ekki gleyma að hafa alltaf meðferðis vatn í flösku.   Með skipulagi sem þessu tryggirðu þér ekki aðeins fullt af hollustu í kroppinn heldur getur einnig mögulega sparað peningana þína því bensínstöðvasjoppustopp geta komið illa við budduna þegar hungrið og óstjórnleg löngun í gotterí hellist yfir þig.  Hver kannast ekki við pulsu og ís stoppin sem enda jafnvel með því að fullum poka af gosdrykkjum, kexi og gotteríi er einnig kippt með í veganesti.  Slíkt rusl í maga er dæmt til að leiða til vanlíðunar svo ekki sé nú talað um ókyrrðina í aftursætinu ef börnin eru með í för.

Stærðin skiptir máli

100 til 200 hitaeininga snarl skammtar eru hæfilegir.  Ef þú borðar beint upp úr pokanum án þess að hugsa er auðvelt að missa sig í áti.   Hefurðu e.t.v. verið með hnetupokann í bílnum, hæst ánægð/ur með sjálfa/n þig yfir að velja hollustuna umfram ruslið, en áttar þig svo á því að þú hefur næstum klárað heilan poka?
Mikilvægt er að fylgjast með stærð skammta og sniðugt er að útbúa fyrirfram litla poka með hæfilegu magni í sem þú getur kippt með þér.

Vandaðu valið

Lestu á umbúðirnar.  Sum fæða sem markaðssett er sem hollusta er ekki endilega svo.  T.d. innihalda ýmsar tegundir próteinstanga mikið magn sykurs og ýmis gerviefni sem ekki eru efst á hollustulistanum.  Mjólkurvörur eru margar hverjar einnig mjög sætar og má segja að sumar henti betur sem eftirréttur fremur en hollustusnarl. Gott er einnig að vita að  handfylli af þurrkuðum ávöxtum innihaldur 3-4x fleiri hitaeiningar en handfylli af ferskum ávöxtum.  Veldu ferskmeti hvenær sem kostur er og ef þú velur annað, lestu þá um innihaldið utan á umbúðunum. 

Snarlið úr augsýn

Það er farsælla alla jafna að hafa mat inni í skápum og skúffum en ekki í augsýn.  Geymdu snarlið þitt inni í skáp og helst ekki þannig að þú getir auðveldlega teygt þig í það.  Það er of auðvelt að narta í sífellu án þess að hugsa. Margir kannast t.d. við áberandi þörf á að vera sí nartandi þá daga sem streita og álag er mikið.   Ef þú finnur fyrir streitu, þreytu eða leiða er tilvalið að drífa sig út í stuttan 5-10 mín göngutúr, fá blóðið á hreyfingu, drífa upp orkuna og hressa þig við.


Hnetur og fræ eru full af góðri næringuNartaðu með athygli

Nart fyrir framan sjónvarpið eða við lestur eða slíkt getur orðið til þess að þú snarlar yfir þig því líkur eru á því að þú takir ekki eftir skilaboðum líkamans um að þú hafir fengið nóg,  því þú ert með hugann við annað.  Fjölverkavinnsla er ekki af hinu góða þegar kemur að því að hafa stjórn á stærð matarskammta.

Hafðu prótín í naslinu

Prótín eru saðsöm og koma reglu á blóðsykurinn sem stuðlar að því að þú finnur síður fyrir svengd.  Prófaðu t.d. að smyrja smá hnetu- eða möndlumauki á eplabáta eða borða melónubita með kotasælu.  Avókadó eru einnig hollir og saðsamir og tilvalið t.d. að smyrja lítilsháttar avokadó á trefjaríkan hrökkbrauðsbita.

Lokaorð

Heilnæmt og hollt snarl á milli mála viðheldur góðri orku og dregur úr skyndilöngun í sætindi og aðra óhollustu.  Vel valið nasl í skynsamlegu magni er hið besta mál fyrir heilsuna og línurnar.  Þitt er valið!

cartoon_healthy_snacking_tips.png