c

Pistlar:

19. september 2012 kl. 12:31

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Er þetta töfralausnin sem þú leitar að?

sunshine.jpgJákvætt hugarfar er lykill að árangri á svo mörgum sviðum.  Neikvæðar hugsanir eru líklegri til að leiða til ósigra.  Jákvæð hugsun getur verið geysilega áhrifaríkt hjálpartæki til að breyta um lífstíl og hefja reglubundna heilsurækt.  Neikvætt hugarfar getur á hinn bóginn leitt til þess að þú gefst fljótt upp, leggst í sófann í stað þess að drífa þig í ræktina, raðar í þig innihaldinu úr stórum snakkpoka og spáir í hvenær þú eigir að ráðast á rjómaísinn í frystinum.

Jákvæðar hugsanir eru orkugefandi, neikvætt viðhorf er lamandi.  Þú hefur val.  

Ef þú húðskammar þig í hvert sinn sem þú borðar óhollt, einblínir á það sem þú ættir EKKI að borða, pínir þig áfram í æfingum og býsnast stöðugt yfir hvað þér leiðist þær, er ekki líklegt að þú uppskerir góðan árangur í tilraunum þínum til að komast á veginn til betri heilsu.

Ef þú heldur að þér neikvæðum hugsunum, rænir þú þig orku.  Orku sem þú þarft á að halda.  Smátt og smátt eykst vanlíðan þín.  Þú upplifir kraftleysi, áhugaleysi og jafnvel þunglyndi.  Þá er auðvelt að leita í snakkpokann í von um smá sælu.  Sælu sem auðvitað er skammvinn.

Hænuskref verða stórir sigrar.

Reyndu að greina tilfinningar þínar, átta þig á þeim og snúa þeim upp í jákvæða orku sem færir þig nær þínum markmiðum. Segðu við sjálfan þig "ég get, ég ætla, ég skal" og stattu við það.  Margir hugsa eitthvað á þessa leið: "Mér líður eins og mér líður og get ekkert að því gert".  
Jákvætt viðhorf hefur vissulega aðeins áhrif ef það endurspeglar raunverulegt viðhorf þitt.  Ef þú ert í einlægni afar ósátt/ur við líkamsástand þitt er ekki lausn í sjálfu sér að segja nógu oft að allt sé i himna lagi.  Hugsaðu heldur í lausnum.  Hvað getur þú gert í stöðunni?  Þú getur t.d. byrjað á litlum breytingum á mataræði, t.d. að minnka skammtana í kvöldmatnum, eða hætt að borða eftir kvöldmat.  Byrjað að fara í göngutúr 2x í viku.  Lítil "hænuskref" geta orðið að stórum sigrum.  Það þarf ekki að gleypa fílinn í einum bita.  
Teiknaðu broskarl á minnismiða og límdu á spegilinn í baðherberginu.  Segðu  við spegilinn á morgnana "Ég er frábær, þess vegna ætla ég að rækta líkamann minn og heilsuna mína". 
Allir eru ánægðir með eitthvað í eigin fari.  Hugsaðu um það sem þú ert stolt/ur af í þínu fari og um allt það jákvæða sem þú uppskerð með lífstílsbreytingunum.  Það er alltaf hægt að finna jákvæða hlið á hlutunum.  Pollýönnuleikurinn virkar!

positive-attitude.jpgMælanlegur árangur er hvatning.

Mældu árangurinn þinn.  t.d. hvað þú getur gert margar armbeygjur (á hnjánum eða á tánum). Skráðu það hjá þér.  Settu þér raunhæf markmið og mældu svo aftur eftir 4-6 vikur.  Á sama hátt geturðu tekið skokkpróf.   Hlauptu í 12 mínútur á hlaupabretti og skráðu niður hvað þú kemst marga kílómetra. Settu þér markmið og mældu aftur eftir 4-6 vikur.
Markmiðin geta einnig snúist um mataræðið.  Að borða meira grænmeti, að minnka sykurneyslu o.s.frv.  Hafðu markmiðin skrifleg.  Mundu, það er aldrei of seint að byrja!

Lokaorð.

Hver er sinnar gæfu smiður og þú hefur val um hvort þú tileinkar þér neikvætt eða jákvætt viðhorf. ÞITT ER VALIÐ og árangur þinn er í samræmi við þitt val.  Það er gott að hafa val!

P.s. Langar þig til að breyta um lífstíl og bæta heilsu þína og líðan?   Smelltu hér til að fá frítt viðtal hjá ráðgjafa.