c

Pistlar:

8. desember 2012 kl. 18:31

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Sniðug hollustutrix - Uppskriftir

img_9600.jpgEf börnin mín fengju að ráða held ég að þau myndu vilja borða pizzur og pasta í næstum hvert mál.   Pizzur og pasta geta vissulega verið prýðis máltíðir með fullt af góðri næringu.  En þau vilja eins og mörg börn helst borða pizzu og pasta í sinni einföldustu mynd þar sem uppistaðan er hveiti og tómatsósa. Heldur takmarkað fæði og ekki alveg skv. hollustu stöðlum mömmu.

Að kenna börnum að borða hollt fæði tel ég vera langhlaup.  Margir, vonandi flestir, reyna væntanlega að gera sitt besta, leggja sig fram við að kenna þeim og hvetja þau til að stunda heilbrigt líferni. En því miður er allur gangur er á því hve viljug þau eru að fara eftir því.  Þegar þau svo eru orðin fullorðin er lítið annað hægt en bara vona að eitthvað hafi síast inn af því sem var predikað yfir þeim í gegnum árin um hollt líferni og heilsusamlegt fæði. 

Suma daga er ég full eldmóðs og hef ótakmarkað úthald til að hvetja börnin til að borða allar mögulegar tegundir af grænmeti, baunum og öðru slíku hollmeti.  Þrátt fyrir að oft á tíðum séu viðbrögðin fullkomið áhugaleysi og jafnvel veruleg ólund þýðir ekkert að gefast upp.  En inn á milli er ágætt að slaka á taumnum og leyfa þeim að ráða og þá getur stundum verið gott að luma á góðum "trixum" svo hollustugildið sé samt sem áður í fínu lagi.

Þegar pöntuð er pizza  er upplagt að útbúa með henni girnilegan heimalagaðan og hollan "shake".  Þá þarf ekki að vera með samviskubit yfir því að veita fjölskyldunni lélega næringu vegna tímaskorts (eða leti) og börnin eru jafn líkleg til að borða minna af pizzunni þegar hollustu drykkurinn er með.

Hugmyndir að fjölskylduvænum og bragðgóðum hollustushake sem eru vinsælir á mínu heimili:

Suðræni græni

1/2 b. hreinn appelsínusafi
1/2 b. frosið mangó
1/2 b frosinn ananas
1 banani
1 msk hörfræ
1 b.ferskt spínat

Allt sett í blandara og blandað vel. Bæta við vatni eða meiri safa ef þarf. E.t.v. bætt ísmolum út í og blandað meira.

img_9606.jpgBerjagóður

1/2 b. Superberry safi (Berry company)
1/2 b. vatn.
1 væn melónusneið
1/2 b. frosin hindber - eða blönduð ber
1/2 b. frosin jarðaber
1 banani
1 b.  ferskt spínat (tilvalið að geyma ferskt spínat í frysti)
1 msk hörfræ
Allt sett í blandara og blandað vel. Bæta við meira vatni eða safa ef þarf. E.t.v. bætt ísmolum út í og blandað meira.

Heimalöguð KRAFTApastasósa.

Annað gott ráð sem ég nota mjög oft er að búa heimalagaða pastasósu sem við köllum Kraftapastasósuna. Nafnið eitt og sér vekur áhuga hjá krökkum, sem er góð byrjun!  Sósan þessi er fjölbreytileg en eitt er víst að hún er hlaðin næringarefnum, vítamínum og hollustu.   

Best er að byrja á að steikja lauk og hvítlauk í potti upp úr smá olíu og skella svo hökkuðum tómötum úr dós eða krukku (gjarnan lífræna). Eiginlega nauðsynlegt líka að setja smá tómatkraft líka.  Skella með smá brokkólí, spínati, e.t.v. gulrótum, zucchini, ferskum kryddjurtum t.d. basiliku eða timjan ef ég á til í ísskápnum.  Í raun set ég bara það sem ég finn í ísskápnum þá stundina. Um að gera að nota afganga. Krydda með smá sjávarsalti og nýmöluðum svörtum pipar og mér finnst Ítalska hvítlauksblandan frá Pottagöldrum algjör snilld í pastasósuna.  Læt þetta malla í nokkurn tíma í pottinum þar til allt er orðið mjúkt og smakka til.  Skelli svo í blandarann og mauka vel.  Þarna er komin verulega holl og góð pastasósa gerð frá grunni.  Krakkarnir eru hæst ánægð, taka ekkert eftir öllu grænmetinu sem er "falið" í sósunni og borða pasta með kraftapastasósunni og smá parmesan osti yfir, af bestu lyst.  Allir sáttir! 

Góður blandari er mikil snilldar græja og gefur endalausa möguleika á að búa til margskonar hollustubombur hvort sem er í formi "shake", sósu, ídýfu ofl.  Ef þig vantar góðan blandara á hagstæðu verði, ættirðu að kíkja á þessa sem eru einstaklega hljóðlátir.  Það er hægt að halda uppi samræðum á meðan þeir eru í gangi og hávaðinn hræðir ekki líftóruna úr smáfólkinu :-)