c

Pistlar:

27. desember 2012 kl. 21:19

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Blómstraðu eftir fimmtugt

fimmtug2_1185282.jpgFjöldi fólks drífur sig í ræktina fyrst og fremst af löngun til að fá stæltan kropp, halda þyngdinni í skefjum og auka orkuna.  En þegar við nálgumst miðjan aldur og finnum í auknum mæli að góð heilsa er ekki sjálfsagður hlutur, þá vöknum við gjarnan til vitundar um alla hina jákvæðu þættina sem þjálfun leiðir af sér fyrir heilsuna og byrjum þá að stunda ræktina samviskusamlega með aðeins breyttu hugarfari og e.t.v. öðrum áherslum. 

Ótal rannsóknir sýna að regluleg hreyfing er besta meðalið, forvörn gegn ýmsum lífstílssjúkdómum og getur aukið lífsgæði fólks til mikilla muna. 

Þjálfun eftir fimmtugt getur bjargað lífi þínu
Í rannsókn er birt var í Archives of Internal Medicine var fylgst með tæplega 19.000 konum og körlum í yfir 26 ár.  Þessi hópur gekkst undir þrekpróf á göngubretti um fimmtugsaldur.  Eftir að hafa tekið með í reikninginn atriði s.s.blóðþrýsting, líkamsþyngdarstuðul (BMI) og alkóhól- og tóbaksneyslu, kom í ljós að þeir sem mældust í besta forminu skv. þrekprófinu voru í minni hættu á að þróa með sér átta tegundir sjúkdóma, hjartasjúkdóma, lungnaþembu, heilablóðfall, nýrnasjúkdóma, sykursýki 2, Alzheimers og lungna- og ristilkrabbamein, á 26 ára tímabili.

Það má færa rök fyrir því að þessar niðurstöður eru afar hvetjandi fyrir fólk á miðjum aldri að halda sér í góðu líkamlegu formi og minnka þannig á einfaldan hátt og án lyfja, líkurnar á algengum sjúkdómum, sem herja á fólk í auknum mæli með aldrinum, sem annars myndu takmarka lífsgæði þeirra til muna.  Í rannsókn frá árinu 1993 sem birtist í New England Journal of Medicine kom fram að 23% dauðsfalla vegna ýmissa langvinna sjúkdóma  mátti rekja til kyrrsetulífs.  Frekar sláandi, ekki satt?

Beinþynning og slitgigt

Vissir þú að skv. íslenskri rannsókn má önnur hver fimmtug kona og þriðji hver fimmtugur karl búast við beinbroti síðar á ævinni af völdum beinþynningar?  Hæfileg líkamsáreynsla á öllum aldri er eitt mikilvægasta vopnið gegn beinþynningu og beinbrotum við lítinn áverka.  Öll líkamshreyfing og þjálfun virðist vera til góðs en svokölluð þungaberandi áreynsla s.s. hlaup, hopp og sipp hefur meiri áhrif en t.d. sund.  Vissulega er einnig mikilvægt að fá nægt kalk og D-vítamín úr fæðunni.

Heilbrigð liðamót eru annar mikilvægur þáttur sem vert er að huga að því með aldrinum fjölgar tilfellum slitgigtar til muna, sérstaklega um og eftir 65 ára aldur.   Styrktaræfingar fyrir lærvöðva minnka t.d. líkur á slitgigt í hnjám og öll styrktarþjálfun viðheldur vöðvamassanum í líkamanum sem annars rýrnar með aldrinum.   Auk þess stuðlar hverskonar líkamsþjálfun að heilbrigðri líkamsþyngd, en ofþyngd setur aukið álag á liðamótin sem getur valdið rýrnun á brjóski.

middleagedman.jpgGeðheilsan líka í lag!
Líkamsrækt minnkar streitu og kvíða og getur haft fyrirbyggjandi áhrif á þunglyndi.  Regluleg hreyfing hefur einnig áhrif á aldurstengt minnistap.  Hippocamus, hluti heilans sem vinnur með mótun minnis, skipulag og fl., dregst venjulega saman með aldrinum. En líkamsþjálfun, sér í lagi þolþjálfun, minnkar þann samdrátt.  Þolþjálfun eykur umfang þessa hluta heilans jafnvel þeirra sem hefja líkamsrækt á seinni stigum lífsins. 

Hver vill ekki vera heilsuhraustur?
Líkamsrækt og heilbrigt mataræði eru tvö mikilvægustu vopnin þín gegn aldurstengdum sjúkdómum. 
Margt hefur áhrif á heilsu okkar og líðan, en einkum við sjálf.  Fylltu líf þitt orku og auknum þrótti,  blómstraðu á besta aldri með heilbrigðu líferni.  Það er aldrei of seint að byrja!

Smelltu hér ef þú ert fimmtíu ára eða eldri, hefur ekki stundað líkamsrækt lengi og langar að fá fría ráðgjöf og aðstoð þjálfara við að byrja. 
Einnig mæli ég með Club Fit fyrir 50 ára og eldri.