c

Pistlar:

5. mars 2013 kl. 9:49

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Græni ofurdrykkurinn - uppskrift

juicepresso-recipes-2-vegy-juice.jpgGrænir drykkir eru óskaplega vinsælir um þessar mundir og eru til í ótal útgáfum en draga flestir heitið af grænu grænmeti s.s. spínati eða grænkáli.

Undirrituð hefur prófað sig áfram með ótal útgáfur af grænum söfum og smoothies en oft verður það svo að það er einn sem verður oftast fyrir valinu.  Minn uppáhalds græni safi er ekki aðeins fullur af hollustu, vítamínum, steinefnum og andoxunarefnum, en er einnig súper einfaldur, fljótlegt að útbúa og prýðilegur á bragðið.  Það hefur mikið að segja að það sé fljótlegt að henda í safann, annars er hætt við því að áhuginn á safagerðinni í morgunsárið dvíni hratt.

Nýlega var ég svo heppin að uppgötva galdratækið Juicepresso.  Sú græja er klárlega nýja uppáhalds eldhúsáhaldið mitt sem ég mun nota á hverjum morgni og þreytist ekki á að dásama. Það hefur hreinlega opnast fyrir mér ný vídd í safagerð. Helstu ástæður fyrir hrifningu minni er að hún hljóðlát, tekur lítið pláss og nýtir betur hráefnið. Hún er einfaldari og hreinlegri í notkun og skilar næringarríkari og betri safa en gamla safapressan mín.  Juicepresso kreistir safann úr hráefninu rólega og án hita og nær meira að segja talsvert meiri safa úr grænmetinu.  Þetta er tæki sem allt alvöru áhugafólk um heilsufæði verður hreinlega að eignast.

elctrical_coway_juicepresso_24.jpgÁður en ég eignaðist Juicepresso notaði ég bæði gömlu safapressuna og blandarann til að gera þennan grænmetissafa með tilheyrandi uppvaski.  Gamla safapressan náði t.d. ekki safa úr hveitigrasi, spínati og brokkólí.  Þá setti ég epli og engiferrót fyrst í safapressuna og hellti svo safanum í blandarann ásamt grænmetinu og þeytti allt saman með smá vatni og klaka.  Núna skelli ég öllu í Juicepresso og hún kreistir í rólegheitum úr öllu saman ferskan og næringarríkan safa og þarf ekki að þynna með vatni.

Uppáhalds græni ofursafinn minn sem ég skelli í flesta morgna er einfaldur:

2 lítil epli (best að nota græn lífræn)
1 biti fersk engiferrót á stærð við þumalfingur (eða eftir smekk)
1 væn lúka ferskt spínat
1 lúka brokkólí
1 lúka ferskt hveitigras, (fæst oft í versluninni Víði. Má auðvitað líka sleppa því).

Eplin og brokkólí skorið niður í bita og allt saman sett í Juicepresso safapressuna.  Safinn passar í eitt meðalstórt glas. Gott að setja ísmola út í safann og best að njóta strax.

Dagurinn verður einfaldlega betri þegar maður byrjar hann með þessari öflugu næringarbombu.  Sérlega auðug af andoxunarefnum og C- og K-vítamíni sem er mikilvægt m.a. fyrir taugakerfið. Engiferrótin er talin bólgueyðandi og inniheldur mikilvæg steinefni s.s. magnesíum og kalíum.  Bæði spínat og brokkólí flokkast undir svokallaða ofurfæðu, yfirfullt af mikilvægum næringarefnum.  Dökkgrænt grænmeti er auk þess járnríkt sem er svo mikilvægt, sérstaklega fyrir okkur konurnar.   Skál í græna!

www.hreyfing.is