c

Pistlar:

26. maí 2013 kl. 18:40

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Viltu forðast að fitna í fríinu? 7 góð ráð!

exercise_on_beach.jpgHefurðu æft af krafti í allan vetur og borðað skynsamlega og náð flottum árangri?  Nú er sumarfríið er framundan og þá er hættan sú að detta úr rútínunni, missa niður dampinn í æfingunum og leiðast smátt og smátt út í meira "sukk" í mataræðinu.  Áður en þú veist af hefurðu glutrað niður öllu góðu venjunum þínum sem þú hafðir fyrir að tileinka þér í vetur og eins ergilegt og það er mun fína formið fljótlega muna sinn fífil fegurri.  E.t.v. ætlar þú bara að taka þér viku frí og slappa svakalega vel af og njóta lífsins í leti.  Gott og vel, það gerir engan stórskaða.  En oftar en ekki verður ein vika að tveim eða þrem og svo verður erfiðara að byrja aftur að æfa og vikurnar líða og þú ert hætt/ur að telja þær og hugsar með þér ..æ, ég byrja aftur í haust, sem dregst svo e.t.v. fram á haustið 2014 eða 15!!

Kannski er ekki svo vitlaust að halda góðum hlutum gangandi með smá plássi fyrir sveigjanleika.  Hér eru nokkur góð ráð til að halda sér á beinu brautinni í sumarleyfinu.

Kannaðu málið áður en þú bókar.

Auðvelt er í dag að finna hótel sem býður upp á líkamsræktaraðstöðu eða aðgang að slíkri í nágrenninu.  Leitaðu eftir slíkri aðstöðu og skipuleggðu þig þannig að þú náir 30-60 mín æfingu ca. annan hvern dag.

Taktu frá tíma

Hvort sem þú ert heima í rútínunni eða á ferðalagi þá þarftu alltaf að ákveða tíma fyrir æfingu og láta ekkert trufla þá stund, það er tíminn þinn og hann er frátekinn.  Best er að byrja daginn á að hreyfa sig því oftast er gott næði í morgunsárið. Þú kannast vafalaust við það að ef haldið er af stað út í daginn án þess að æfa eru mun meiri líkur á því að það farist fyrir þann daginn.   

Fjölbreytni er skemmtilegri

resistance_band_couple_workout.jpgÆfingaaðstaða á hóteli er kannski ekki besta aðstaða í heimi en það má nota hana.  Svo er hægt að fara í röskan göngutúr, hlaupa eða hjóla, en oft er hægt að nálgast reiðhjól fyrir lítinn pening í mörgum stórborgum.  Stórsniðugt er að hafa með sér æfingateygju með handföngum sem fer lítið fyrir í farangri og hægt að gera fjölmargar góðar styrktaræfingar með henni.   Eigin líkamsþyngd virkar vissulega vel líka.  Hnébeygjur, armbeygjur, planki og háar hnélyftur til skiptis í 15-20 mínútur er einfalt og gott æfingakerfi sem virkar alltaf vel.

Gakktu á milli staða

Ef veður leyfir er tilvalið að ganga á milli staða í stað þess að nota leigubíla eða almenningssamgöngur. 2-3 klst ganga á dag er góð brennsla.   Ef þú ferðast venjulega á milli staða í bíl, prófaðu næst að ganga, það gæti komið þér á óvart hve auðvelt og skemmtilegt það er að ferðast margra kílómetra leið fótgangandi. 

Gættu að skammtastærð

Þó að þú sért í fríi og vilt njóta þín í botn þá er ekki þar með sagt að nauðsynlegt sé að láta öll höft í mat og drykk lönd og leið.  Það er vel hægt að hafa það ljúft og gott, borða góðan mat og njóta góðra vína í góðum félagsskap án þess að borða á sig gat.  Hafðu einfaldlega stjórn á magninu sem fer ofan í þig.  Víða á veitingahúsum erlendis, sérstaklega í Ameríkunni eru skammtarnir risastórir og duga margir vel fyrir tvo, jafnvel þrjá matgranna.  Það getur verið gott ráð að deila rétti með öðrum til að koma í veg fyrir að belgja sig út af of miklum mat og svo getur slíkt fyrirkomulag líka sparað fullt af peningum.  

Minna er meira

Ef þú ert dæmigert fitnessfrík og eyðir venjulega 1-2 klst. daglega í ræktinni er e.t.v. skynsamlegt að taka aðra nálgun á æfinguna í fríinu svo það trufli ekki aðra dagskrá með vinum eða fjölskyldu.  Stutt og strangt getur skilað alveg jafn góðum árangri.  30-40 mínútna æfing þar sem þú keyrir þig út í stuttum lotum.  Froskahopp, fjallaklifur, hlaupasprettir o.fl. í þeim dúr er þrumugóð æfing sem heldur þér klárlega í fínu formi á meðan fríinu stendur.  Krefjandi hlaupatúr á ströndinni, fjallganga eða kröftugt skriðsund.  Það er alltaf hægt að finna leið.

ifitness.jpgApp í símann eða iPadinn.

Nú má nálgast app í símann fyrir alla skapaða hluti og fullt af slíkum fáanleg til að halda utan um mataræðið og æfingarnar.  Þau eru auðvitað sérlega hentug á ferðalögum.  Náðu þér í app sem hentar þér áður en þú leggur í hann og kynntu þér það vel áður svo þú getir auðveldlega byrjað strax að nota það.   Hér má finna lista yfir 64 bestu heilsuræktar öppin 2013.