c

Pistlar:

25. ágúst 2013 kl. 15:45

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

5 óhollir ávanar sem vert er að láta af

hollustabarn.jpgLíklega hafa fáum, ef nokkrum tekist að tileinka sér fullkomnar matarvenjur allt árið um kring, enda eru menn heldur ekki fullkomlega sammála um hvað teljast fyrirmyndar matarvenjur.  En öllum er þó hollt að líta í eigin barm og vera meðvitaðir um neyslumynstur sitt og hreinsa til í því annað slagið.

Víst má telja að flestir séu sammála um að sífellt nart í næringarnsauð sætindi og snakk sem inniheldur transfitu, geri ekkert jákvætt fyrir heilsuna nema síður sé (fyrir utan augnabliks nautn á meðan gúmmulaðið er í munninum) og eru talsverðar líkur á að slíkur ávani leiði til þess ergilega ástands að þú nærð ekki að hneppa að þér uppáhalds gallabuxunum þínum.

Hér má lesa um 5 algenga, slæma ávana sem vert er að láta af hið fyrsta til að bæta líf sitt og líðan.

burger.jpg1. Of stórir skammtar
Það er staðreynd að matarskammtar hafa stækkað verulega undanfarin 20-30 ár. Það hefur gerst smátt og smátt án þess að við höfum kannski tekið mikið eftir því. Það er ekki aðeins að við skömmtum okkur nú meiri mat á diskinn en áður heldur höfum við einnig úr mun stærri sælgætiseiningum að velja, gosdrykkjaumbúðir hafa vaxið úr smáum í risavaxnar. Ís í brauðformi er mun myndarlegri en áður, kleinurnar í bakaríinu voru gjarnan um 30g hér áður en algeng stærð í dag er u.þ.b. 100g sem munar um 260 hitaeiningum.  Ef þú kærir þig ekki um að holdafar þitt þróist í sömu átt er nauðsynlegt að vera vakandi gagnvart magninu sem þú lætur ofan í þig.  Oft eru matarskammtar veitingahúsanna það vel útilátnir að þeir nægja vel fyrir tvo og sama á gjarnan um um eftirréttina. Temdu þér þann vana að skammta þér hóflega á diskinn, það er e.t.v. sú venja sem hefur mesta þýðingu varðandi það að komast í kjörþyngd og viðhalda heilbrigðu holdafari.

2. Gotterí er alltaf innan seilingar
Ertu með nammiskáp heima hjá þér?  Ertu alltaf með gott í skúffunni í vinnunni?  Geturðu alltaf gengið að því vísu að ísdollan bíður þín í frystinum?  Ef þú svarar þessu játandi er ljóst að þú ert að búa þér til endalaus freistingaraugnablik sem erfitt er að standast og hvetja þig til að teygja þig fyrst í óhollustu þegar þig langar í eitthvað að borða.   Betra er að byrgja brunninn, henda út sætindunum og hafa t.d. lífræn epli, niðurskornar gulrætur, ósaltar hnetur og fræ o.þ.h. hollt snarl til að grípa fyrirhafnarlítið í þegar hungur sverfir að.

3. Sleppir morgunverði

Fólk sleppir morgunverði af ýmsum ástæðum.   Sumir segjast lystarlausir á morgnana, aðrir telja sig ekki hafa tíma til að borða, eða vilja spara hitaeiningarnar þar til síðar um daginn.  Vandinn er að þeir sem sleppa morgunverði eru mun líklegri til að borða umtalsvert fleiri hitaeiningar yfir daginn.  Ótal rannsóknir sýna fram á, hve sá siður að borða alltaf morgunverð er mikilvægur fyrir góða heilsu og heilbrigt holdafar.
Hvernig væri að huga að morgunverðinum kvöldið áður?  Leggja t.d. hafra í bleyti svo það taki örskotsstund að laga góðan hafragraut næsta morgun eða harðsjóða egg til að grípa með ef tíminn er naumur.  Málið er ekki flókið ef viljinn er fyrir hendi.

4. Helgarneyslan fer úr böndunum

Mörgum reynist auðvelt að halda sig á hollu línunni á virkum dögum, í daglegu rútínunni.  En þegar kemur að helgi þá fjúka oft góðu áformin út í veður og vind og "sukkið" verður óstöðvandi frá föstudagskvöldi og fram á sunnudag.  Það er auðvitað í góðu lagi að gera aðeins vel við sig um helgar og njóta þess að smakka á pent skammtaðri tertusneið eða uppáhalds eftirréttinum.  Stóra málið er að læra listina að gæta hófs og forðast að láta helgina verða að allsherjar átveislu sem þú svo blótar í sand og ösku á mánudeginum. Hugsaðu um hver markmið þín eru og skipuleggðu þig samkvæmt því.

weights_1212940.jpg5. Frestar æfingunni til morguns
Hver kannast ekki við það að vera búin/n að ákveða að drífa sig í ræktina en svo kemur eitthvað "óvænt" upp og þú ákveður að æfingin verði að bíða til morguns.  Slík frestun hefur tilhneigingu til að endurtaka sig og eftir því sem lengra líður á milli æfinga er erfiðara að koma sér aftur af stað og áður en þú veist af eru liðnir margir mánuðir síðan þú hreyfðir þig af einhverju viti.  Í því ofurhraða nútímasamfélagi sem við búum í er eitt það mikilvægasta sem þú getur gert fyrir heilsuna þína að taka frá með skipulögðum hætti tíma fyrir æfingu a.m.k. 4x í viku.  Gott er þar að auki að venja sig á að leita uppi stiga í stað lyftu, leggja bílnum lengra frá til að fjölga daglegum skrefum og standa upp frá skrifborðinu í vinnunni a.m.k. á klukkutímafresti og ganga aðeins um og teygja úr sér.  Ótal rannsóknir sýna að mikil kyrrseta hefur afar neikvæð áhrif á heilsuna og rýrir lífsgæði og lífslíkur.  Eru ekki allir meðvitaðir um að það er hvorki flott né gott að vera sófadýr?  Spurningin er bara, hvað hyggstu gera í málinu?

agusta@hreyfing.is  www.hreyfing.is