c

Pistlar:

1. september 2014 kl. 15:43

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Skrifstofustarf, þægileg innivinna eða ávísun á heilsutjón?

uncomfortablesit.gifÆtli það sé ekki óætt að segja að þeim hafi fjölgað verulega s.l. áratugi, sem verja drjúgum tíma sólarhringsins sitjandi fyrir framan tölvuskjáinn.  Á flestum vinnustöðum má sjá önnum kafið skrifstofufólk, djúpt sokkið í verkefni sín og nær stundum vart að líta upp nema e.t.v. til þess eins að fylla á kaffibollann.  Það kemur líklega sumum á óvart að uppgötva að þessu harðduglega fólki er enginn greiði gerður með að færa þeim rjúkandi kaffibollann á skrifborðið.
Nýjar rannsóknir sýna að sá algengi nútíma lífsstíll að sitja við tölvuna á milli þess að sitja í bíl og í sófanum heima, er líklegur til að valda heilsubresti jafnvel þó að ræktin sé fastur liður 3x í viku.  Hvað liggur hér nákvæmlega að baki og hvað er til ráða?

Auknar líkur á hjartasjúkdómum

Það eitt að sitja við skrifborðið daginn daglangt er slæmt fyrir hjartað jafnvel þó að þú stundir reglulega líkamsrækt, að mati vísindamanna.  Það alversta er þegar þú situr lengi í einu án þess að standa á fætur og hreyfa þig og teygja úr þér.  Við slíkar aðstæður minnkar virkni ensímsins LPL sem leiðir til þess að vöðvarnir ná ekki þríglyseríðum úr blóðstreyminu nægilega vel og getur það aukið verulega líkur á hjartasjúkdómum.  Með því að vera oft á hreyfingu og forðast að sitja lengi í einu bætirðu til muna ákveðna frumustarfsemi sem hefur góð áhrif á hjartaheilsu þína.

Æðahnútar og blóðtappi

Þegar þú situr hreyfingarlaus lengi safnast blóð niður í kálfana sem eykur álag á æðarnar sem flytja blóðið aftur til hjartans og fyrirbyggja þannig að það safnist fyrir í kálfunum.  Með tímanum geta myndast æðahnútar. Langvarandi setur auka einnig líkurnar að blóðtappi myndist sem getur verið afar hættulegt því þeir geta mögulega komist í lungun og valdið dauðsfalli. 
En það jákvæða er að til er sáraeinföld lausn!  Stattu oft upp og gakktu um.  Þannig færðu blóðið á hreyfingu og kemur í veg fyrir álag á æðarnar.  Sú einfalda aðgerð að standa upp á 20 mín fresti og teygja úr þér er ekki aðeins til að hressa þig við og bæta heilsu þína og líðan heldur gæti í raun bjargað lífi þínu.

office-stretch.jpgBakverkir

Vel er þekkt hve mikilvægt það er fyrir bakið að sitja í réttri stöðu.  Slæm líkamsstaða við tölvuna setur mikið álag á háls og hryggjarsúlu og veldur oft miklum vanda, stífni í vöðvum með tilheyrandi bólgu og verkjum í hálsi, öxlum og baki.  Regluleg styrktarþjálfun getur gert kraftaverk í þessum efnum, bæði með því að styrkja með markvissum hætti bakvöðva og kjarnavöðva líkamans.  
En það þarf meira til, ef þú situr við vinnu þína ættir þú einnig að huga vel að því hvernig þú situr í stólnum og gæta þess að lyklaborðið sé í réttri hæð og skjárinn í réttri fjarlægð.  Þú ættir að hafa iljar flatar í gólfi og hafa það sem fasta reglu að standa oft upp, ganga um, losa um spennu í líkamanum og teygja úr þér.

Að lokum

Mörgum kann að þykja skrifstofustarf eftirsóknarverð og þægileg innivinna en í raun getur það reynst hættulegt heilsu þinni ef þú gætir ekki að þér. Allt hefur áhrif, einkum þú sjálf/ur.

Settu upp þitt eigið áminningarkerfi sem minnir þig á að hreyfa þig oft yfir daginn.
Standandi fundir og skrifborð sem hægt er að hækka og lækka eru gagnleg og sjálfsagt að reyna að koma við ef hægt er.
Hættu að biðja aðra að rétta þér það sem þig vantar, stattu upp og sæktu það. 
Gakktu um gólf á meðan þú talar í síma þegar því verður við komið.  
Markvissar styrktaræfingar fyrir bak, kvið og djúpvöðva eru grundvallaratriði.
Hafðu standandi samræður vinnufélagana í stað þess að nota innanhússímann.
Gakktu/hlauptu stigana í stað þess að taka lyftuna á milli hæða.

Meiri hreyfing yfir allan daginn eykur orku þína og vinnugleði svo þú afkastar meiru bæði í starfi og heima.  Þín er heilsan, þitt er valið.

www.hreyfing.is