c

Pistlar:

12. júní 2013 kl. 13:04

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Plantaðu fræjum

Þeir sem að hausti, eða í vor, settu niður fræ njóta nú uppskerunnar í litadýrð blómanna. Sumir njóta þess að borða sínar eigin matjurtir og grænmeti, beint frá móður jörð. Eins og við vitum þá grær ekkert nema því sé plantað. Það þarf fræ til að líf kvikni. 

Þegar ég er orðin stór þá ætla ég að verða svona kona með grænar fingur (í flottum hanska, hörkjól og með barðstóran hatt...) og planta niður allra handa fræjum í garðinn minn.

Ég hef ekki verið með græna fingur hingað til en ég hef verið dugleg að planta draumum og þráum, en ekki blómum og grænmeti. Það er alveg nákvæmlega sama aðferð sem maður beitir, held ég. Finna drauminn (fræið), hlú að honum með réttri mold. Í þeirri mold þarf að vera hlýja og virðing og slatti af umhyggju. Þá er líka gott að sletta yfir vilja til að gera mistök. Nauðsynlegt er að minna sig á að það er ekki auðvelt að ná markmiðum og draumum sínum. Draumabanar geta til dæmis komisti í tæri við drauminn. Þeir spúa vantrú og öfund, jafnvel reyna þeir að spilla fyrir. Þess vegna verður að setja yfir drauminn gott plast gert úr hugrekki og von. Síðan leggur maður á sig hörku vinnu og þegar að maður heldur að nýjasta hretið hafi alveg gert út af við uppskeruna þá bara setur maður undir sig hausinn og gerir það sem þarf að gera.

Vááááá... hvað maður nýtur þess, þegar að markinu er náð og uppskeran er í húsi. Ummmmm... það er eitthvað einstakt við það sem maður sjálfur hefur ræktað hvort sem það er draumur, markmið eða bara gulrætur.

Nú er það bara grænir fingur í geggjuðum garðhönskum....