c

Pistlar:

18. júní 2013 kl. 14:37

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Utan þjónustusvæðis

Eftir að hafa staðið í stórræðum undanfarið m.a. flutt milli hverfa, finn ég hvernig streitan læðist hægt og bítandi aftan að manni. Það merkilega við þreytuna og streituna er að hún kemur yfirleitt fram eftir að mesta álaginu líkur.

Margir stjórnendur, sem eru hjá mér í ráðgjöf, eru undir gríðarlega miklu álagi. Það er ekki óalgengt að þeir verði veikir fyrstu vikuna af frítíma sínum. Rétt ná að setjast í flugvélasætið (ef þeir fara af landi brott..) og um leið hellist flensan yfir. Þess vegna er oft gott að gera ráð fyrir þremur vikum samfleytt án truflana í fríi - ef maður er þreyttur og streittur. Það er eins og líkaminn þoli álagið á meðan á því stendur en um leið og hann getur þá sendir hann öll merki um þreytuna og álagið fram og segir hingað og ekki lengra!

Merkilegt er að þó að maður kunni þetta allt saman þá fer maður ekki endilega eftir því sem maður kann! Sérstaklega þegar maður er streittur og þreyttur. Þegar ég verð of stressuð þá týni ég öllu mögulegu, tönnunum og hausnum þar með talið - þ.e. ef það væri ekki fast upp í mér. Á sama tíma kemur öll gömul vanabundin hegðun til baka. Allt í einu er ég farin að segja já við öllu mögulegu og set enginn mörk. Ég veit ekki af fyrr en ég reyni að gera öllum til hæfis en á sama tíma geri ég engum til hæfis. "Ég sem hélt að ég væri orðn svo meðvituð...", hugsa ég alveg ringluð. 

Margir, konur sérstaklega, eiga erfitt með að setja sínar þarfir í forgang og verða þar með óþolandi í umgegni. Þá koma upp svona "ég er nú búin að gera svo margt fyrir þig..." eða "ég sem alltaf er til staðar fyrir þig..." Ástæðan er líklega að við verðum að vera meðvitaðar um þarfir barna okkar svo þau lifi af. Hins vegar kemur þessi hæfileiki okkar oft í koll - alla vega mér. Sérstaklega þegar ég reyni að vera öllum allt! Þess vegna er ég að hugsa um það núna að vera utan þjónustusvæðis í nokkra daga og koma svo alveg eldhress til baka. Kannski þarf ég ekki nema nokkra klukkutíma .. eða hálfan sólarhring... utan þjónustusvæðis ummmmmm... Enda rignir bara og rignir. Svo kemur sumarið og þá er maður til í allt!