c

Pistlar:

3. september 2013 kl. 9:27

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Full, án þess að drekka áfenga drykki...

Við erum svo miklu, miklu öflugri en við höldum. Alveg satt. Ég ætla að nefna tvær skemmtilegar rannsóknir sem sanna mál mitt (nú kemur fræðimaðurinn upp í mér...). 

Richard Wiseman, breskur prófessor og félagar hans, gerðu rannsókn þar sem háskólanemum var skipt í tvö lið á bar, rautt og blátt. Þetta var tilraun þar sem mæld voru hversu nákvæm, hversu minnug og einbeitt þau voru fyrir og eftir drykkju! (Sem sagt drauma tilraun hvers háskólastúdents - ókeypis drykkja). Það kom í ljós að það var ekki munur á rauða og bláa liðinu. Þau urðu öll háværari, döðruðu meira og minnið varð gloppottara eftir því sem leið á kvöldið. Eini munurinn í raun var sá að annað liðið fékk ekki áfenga drykki en héldu að þau væru að drekka áfenga drykki! Þau urðu "full" af því að þau héldu að þau væru að drekka áfengi. Líkami þeirra sýndi sömu áhrif eins og um áfengi hefði verið að ræða.

Ellen Langer, bandarískur prófessor, og félagi hennar gerðu fræga rannsókn þar sem þær mældu líkamlegt ástand skúringafólks á hótelum. Þær skiptu hópnum upp í tvennt, en hópurinn samanstóð af hreingerningafólki frá sjö hótelum. Báðir hópar voru að vinna mjög líkamlega erfiða vinnu, þrifu sem svaraði um fimmtán herbergi á dag. Þær voru hins vegar ekkert endilega meðvitaðar um að þær voru að hreyfa sig mikið.  Langer og félagar vildu kanna hvort það að verða meðvitaður um hversu mikið þær væru að reyna á sig myndi hafa áhrif á þyngd og blóðþrýsting. Annar hópurinn fékk mikla fræðslu sem gékk út að að segja þeim hversu margar hitaeiningar það tæki að búa um rúm, að skúra, þrífa klósett o.s.frv. Þær fengu skriflegar upplýsingar um áhrif hreyfingar í daglegum störfum þeirra og settar voru sambærilegar upplýsingar á töfluna þar sem þær drukku kaffi. Hinn hópurinn fékk almennar upplýsingar. 

Í ljós kom að eftir mánuð höfðu einstaklingar í  hópnum sem fékk "vá en hvað þú ert að hreyfa þig mikið á hverum degi" skilaboðin, bæði lést og blóðþrýstingurinn hafði lækkað hjá þeim. Þau höfðu ekki breytt neinu öðru.

Líklega er því ódýrast að ímynda sé að maður sé að drekka og hugsa mikið um hvað hver hreyfing eyðir mörgum hitaeiningum!..... hugsi, hugs.. 

Ps - þetta heitir "placebo" - áhrifin svo að þú skalt vara þig á hvað þú ert sannfærð eða sannfærður um!!!