c

Pistlar:

15. september 2013 kl. 21:33

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Að hugsa ekki skýrt!

Ég stóð í eldhúsinu og var að stússast. "Ég vil ekki fara til sálfræðings," sagði vinkona, litlu minnar, en hún er á svipuðum aldri. "Af hverju ekki?" spurði mín. "Ég er ekki geðveik" sagði hin. "Issssss það er ekkert mál, veistu hvað er að vera geðveik?" Spurði mín og horfið opinmynt á vinkonu sína. Vinkonan svaraði neitandi. "Það þýðir bara að maður hugsar ekki skýrt!".

Ég gat ekki annað en dáðst af þessari skilgreiningu, það er bara að hugsa ekki skýrt. Ég sjálf hugsa stundum ekki skýrt og marga daga er ég á jaðrinum á því sem skilgreinist sem geðveik (eigum við eitthvað að ræða mánaðarlegar sveiflur helmings mannkyns hér...).  Í fyrsta sinn sem ég kom á Klepp var til að fara á fjölskyldufund vegna systur minnar sem um þær mundir hugsaði ekki skýrt. Mér fannst þetta allt saman framandi og þegar Kristín Gerður, heitin, sagði mér sögur úr vistinni gat ég ekki annað en brosað í gegnum tárin. Eftir að systir mín tók sitt eigið líf hef ég verið duglegri að heimsækja þá sem hugsa ekki skýrt um tíma og þurfa að leita á spítala sér til aðstoðar. Ég vissi nefnilega ekki áður að geðdeildin væri eins og aðrar deildir spítalans, þó að hún sé læst. Ég hélt að maður ætti ekkert að vera að þvælast þangað í heimsókn nema á fjölskyldufundi. Síðan þá legg ég mig fram um að kíkja í heimsókn á geðdeild, rétt eins og hjartadeild, lyflæknadeild og krabbameinsdeild og aðrar deildir sem fólk í kringum mig fer inn á.  Það verður samt að segjast eins og er að það er ekkert sérstaklega vinarlegt herbergið sem fólk fer inn á þegar það er í sjálfsvígshugleiðingum. Hvítir veggir, rúm og ekkert annað því að það má ekkert vera sem hægt er að skaða sig með. Varðmaður eða kona fyrir framan til að passa viðkomandi. 

Þegar maður hugsar ekki skýrt þá þarf maður á því að halda að hafa fegurð í kring um sig. Ég er svo ánægð með að kraftaverkakonurnar á allra vörum skuli sameina krafta okkar til að gera þeim sem um tíma hugsa ekki skýrt kleift að njóta fegurra og mannbætandi umhverfis. Sameinumst um það!