c

Pistlar:

7. október 2013 kl. 9:46

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Systur

Eðlilegur samanburðarhópur hverrar konu eru systur hennar eða systir. Í dag á mín kæra systir afmæli og ég gleðst yfir því að eiga systur. Ég man hvað við eldri systurnar vourm glaðar þegar hún kom í heiminn. Síðar þegar hún fór af stað og við þurftum að passa hana gat það alveg komið fyrir að við værum þreyttar á kraftinum í henni. Hún var stöðugt ofan í klósettskálum og í símanum eða týndist við að uppgötva heiminn. Eftir því sem árin hafa liðið hefur komið betur og betur í ljós hvers megnug hún er. Stundum er ég alveg ósammála henni en alltaf er ég stolt af henni. 

Systur eru mikilvægur hluti af lífi okkar kvenna. Þær eru viðmiðunarhópurinn um hvernig við munum lifa lífinu ef þær eru eldri. Stundum geta þær verið viðmiðunarhópur um hvernig eigi ekki að lifa lífinu (ég æltla rétt að vona að mín systir endurtaki ekki öll mín mistök). Þær styðja okkur þegar við þurfum mest á því að halda, snýta og þurrka tár. Hjálpa við barnapössun og hver er betri til að skilja mann þegar maður er alveg ótrúlega fúll útí foreldrana... Systur eru líka óþolandi þegar þær koma með athugasemdir um hvernig maður á að haga sér eða í hvaða fötum maður á að klæða sig eða hvernig maður á að ala upp börnin sín. Fáír geta sært eins mikið og fáir eru eins megnugir um stuðning og væntumþykju.

Af því að maður getur ekki átt margar systur (nema örfáir) þá á maður líka sálarsystur sem eru manni eins og systir. Þær minna mann á ef maður er komin af leið og mynda plóg gegn lífsins þrautum. Þær gefa manni yl þegar manni er kalt og finna manni skjól. Sálarsystur geta hlegið með manni af mistökum og glaðst yfir sigrum. Þær hvetja og segja manni sannleikann þegar maður vill helst ekki heyra hann. Síðan eru starfssystur sem geta staðið saman þegar á þarf að halda og blása hver annarri hugrekki í brjóst. 

Systraþel er eitt af þessum fallegu íslensku orðum, en nú stendur yfir leit af fallegum íslenskum orðum.Kvenfélög Íslands hafa byggt upp og staðið við mikilvæg málefni m.a.er Landspítalinn byggður fyrir þeirra verknað. Þannig er systraþel. Taka ber fram að bræður eru líka dásamlegir  - nógu dásamlegir til að setja í annan pistil :-).

Þegar systur (bæði blóðtengdar og aðrar) eru nánar þá er lífið léttara. Nú er um að gera næra sambandið við sytur sínar.  Fagna systraþeli.