c

Pistlar:

14. október 2013 kl. 17:36

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Alveg ónotuð

Ég hitti fyrrum starfsfélaga mína í sumar, sem er ekki í frásögur færandi, nema hluti af hópnum eru íþróttakempur miklar. Þar sem við sátum og spjölluðum um daginn og veginn kom í ljós að flestir þeirra iðka skíði. Ég sagði ekki farir mínar sléttar af skíðaiðkun.

Eina skiptið sem ég hef farið á skíði var þegar ég fékk vélsleðagalla lánaðann hjá frænda mínum til að fara í Bláfjöll í skólaskíðaferð sjöundabekkjar. Þegar ég kom í fjöllin í appelsínugula vélsleðagallanum, eins og Michelin maðurinn, nema appelsínugul þá vatt ég mér með vinkonu minni í skíðalyftuna. Eina vandamálið var að við vorum ekki með skíði á fótunum og þegar áfangastaður nálgaðist jókst angistin yfir að komast ekki úr lyftunni nema með skíði á fótunum. Svo við stukkum niður... (ég held að vélsleðagallinn hafi bjargað miklu). Hef ekki farið á skíði síðan!Ekki hef ég nú heldur verið neinn íþróttaálfur, meira svona bókaormur sem grúfði og grúfir sig yfir bækur með súkkulaði á kantinum. Ég taldi þess vegna að ég myndi ekki fara á skíði á næstunni.

"En þú heppin" sögðu fyrrum samstarfsmínir sterkir og stæðilegir karlmenn sem áður voru frægir kappar í boltaíþróttum. Ég leit hissa á þá og hélt að þeir hefðu drukkið of mikið... "Þú ert alveg ónotuð" sögðu þeir svo með aðdáun í augum. "Ónotuð?" Þeir útskýrðu fyrir mér að þeir væru búinir að fara í liðþófa (það er eitthvað í hnéskelinni) aðgerðir og axlar aðgerðir og mjaðmirnar væru orðnar ansi tæpar. Skíðaferðirnar, hlaupin og boltinn var allt farið að valda sársauka (ég tek fram að þeir eru nokkrum árum yngri en ég - sem sagt á besta aldri).

Eftir þessa ræðu varð ég fyrir vitrun! Við sem sátum á varamannabekknum (ég var mjög þaulsetin þar í körfunni í gamla daga) eigum séns núna! Meðan þeir sem kepptu fyrir okkar hönd í íþróttunum eru aðeins "notaðri" en við. Þannig að nú geng ég eins og kempa um allt og er búin að bóka fjallgönguferðir vinstri og hægri og segi við sjálfa mig á leiðinni upp: Þetta er ekkert mál ég er alveg ónotuð og næstu fimmtíu árin geta farið í að nota það sem hefur verið ónotað hingað til! Svona er maður nú alltaf heppin.