c

Pistlar:

19. nóvember 2013 kl. 10:38

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Sólarvakning og skömm

Ég er enginn morgunhani og á þessum árstíma finnst mér að vinnudagurinn eigi ekki að byrja fyrr en í fyrsta lagi klukkan 10. Bætum við roki, éli og kulda og þá fáum við niðurstöðuna að byrja á hádegi... En það er alveg sama hvað mér finnst (lífið er ekki sanngjarnt og allt það) hversdagurinn byrjar klukkan 7 allt árið um kring. Þess vegna fékk ég mér vekjaraklukku sem er eins og sólarljósið. Ljósið byrjar mjög veikt en eftir hálftíma er ljósið orðið sterkt og þá kveikir hún á útvarpinu. Maðurinn minn, aftur á móti, er nokkuð hress á morgnana og er því meinilla við þessa klukku (hjónaband er ekkert nema komprimí..). Eftir að klukkan hafði verið inn í skáp í langan tíma samdi ég um að nú væri komin tími til að leyfa henni að senda sólargeisla sína inn í herbergið (halló, nóvember..). Hann féllst á rök mín og setti varasólina í samband og fann greinilega bara einhverja útvarpsstöð til að vekja okkur.

Í gær, þar sem ég lá hálfrænulaus hrökk sólarútvapið í gang og áður en ég gat opnað annað augað þrumaði suðræn enskumælandi rödd yfir mér "I am an alcoholic and before I thought I was bad but now I know that I have a disease.." Þar sem ég hlustaði á John frá suðurríkjum Bandaríkjanna þruma þá fékk ég svona aha-augnablik! Og mundi eftir konu sem ég hitti fyrir nokkru síðan.

Brené Brown er rannsakandi sem hefur rannsakað skömm í áratugi. Hún hefur orðið mjög þekkt eftir að hún flutti fyrirlestur á ted.com. Brené heldur því fram að skömm sé ein erfiðasta tilfinningin sem við upplifum vegna þess að þegar við skömmumst okkar þá finnst okkur, við ekki vera tengd öðrum. Við upplifum að við séum ein á báti. Svona "nú ætti ég að skríða í mína holu tilfinning..."

Ég fór að hugsa um það sem alkinn John var að segja um skömmina. Hann gat tekið á sjúkdómnum eftir að hann hætti aði skammast sín. Um leið og hann tendist öðrum hafði hann kjarkinn og sá að hann var ekki einn með sína líðan. Skömmin er svo erfið af því hún einangrar okkur hvort frá öðru. Því þurfum við að finna fyrir henni og viðurkenna veikleika okkar sem er erfiðara en nokkuð annað. Til þess þurfum við slatta af kjarki, eins og John. Þar sem ég opnaði hitt augað hugsaði ég með mér að það væri mikilvægt að finna leið til þess að allir skólar, vinnustaðir og heimili væru laus við skömm. Að umhverfi þar sem ekki væri verið að skammast út í hvort annað væri það besta (eigum við eitthvað að ræða athugasemdarkerfin í netheimum..). Að við gætum hætt að segja við börnin okkar "skammastu þín". Samfélag þar sem við viðurkennum  vanmátt okkar og veikleika og höfum kjark til að stíga inn í skömmina til sð breyta. Breyta okkur til hins betra án þess að skammast okkar. Ég ætla að fara að lesa Bréne aftur, hugsaði ég og drattaðist á fætur.

Segir svo ekki máltækið: Morgunstund gefur gull í mund :-). Ég bæti hér við að sólarútvarp getur gert daginn betri.