c

Pistlar:

26. nóvember 2013 kl. 10:08

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Að samgleðjast.

Nú streyma inn jólablöðin þar sem allir eru svo sætir og fínir og baka svo margar sortir og eiga svo fallegar jólahefðir. Ég sat með kaffibollann yfir blaðinu og horfði á dýrðina og áður en ég vissi af var ég farin að hugsa "ohhhhh... það eru engar sniðugar jólahefðir hjá okkur.. Ég er alveg hætt að baka... ég vona að ég komist í jólakjólinn.." Í stað þess að samgleðjast fólkinu á myndunum var ég ósjálfrátt farin að bera mitt smákökujólahefðasnauða líf saman við þau. Ég hrökk við, sló sjálfa mig utan undir (í huganum) og minnti mig á að stærsta synd mín (samkvæmt mínum boðorðum) er að samgleðjast ekki fólki.

Í nýlegu viðtali við Jack Welch, fyrrverandi forstjóri General Electrics í Bandaríkjunum, og núverandi frægasti fyrverandi forstjóri segir hann: Það sem skiptir mestu máli þegar stjórnendur eru ráðnir eru að þeir kunni að samgleðjast fólki. Ef þeir kunna það ekki þá látast þeir stjórnast af öfund og eru líklegri til að ráða fólk í kringum sig sem eru lélegri en þeir sjálfir. Þeir eru líka líklegri til að halda aftur af fólki sínu og vilja sýnast bestir og mestir. Þeir sem kunna að samgleðjast vilja sjá fólkið sitt blómstra. Þessir stjórnendur njóta þess að ýta undir aðra og hafa fólk í kringum sig sem er klárt og kann jafnvel meira en það sjálft. Þeir stjórnendur sem kunna að samgleðjast eru oftast forvitnir, auðmjúkir og reyna að laða það besta fram í fari annarra. 

Ég er svo sammála Jack og vildi bæta því við að þeir vinir sem kunna raunverulega að samgleðjast manni eru sannir vinir. Þeir sem þola að maður láti ljós sitt skína og standa með manni þegar vel gengur með raunverulegu vinaþeli en ekki öfund eru sannir vinir. Það er auðveldara að finna til með fólki þegar illa gengur en þegar vel gengur. Þar skilur á milli þeirra sem kunna að ýta undir aðra og hinna sem láta öfundina stjórna sér.

Ég horfi nú á alla jólagleðina í blöðunum og "ég geri svona rjúpur og þessa rétti og hefðirnar eru hundrað ára gamlar og allir eru hamingjusamir um jólin" (ekkert allt á síðustu stundu og öskra á krakkana.. hvernig á að redda síðustu jólagjöfinni...) með gleði í huga. Ég samgleðst innilega öllum (og sjálfri mér líka) jólabörnum. Samgleðst þeim sem láta ljós sitt skína og samgleðst þeim sem kunna að leita velgengina uppi. Dásamlegar fyrirmyndir okkar um það sem hægt er að gera. Eins og baka margar sortir og vera búin að því. Fabílös!