c

Pistlar:

3. apríl 2014 kl. 10:11

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Skilyrðislaus ást

Við stöndum öll í skugga dauðans. Nú í vetur hef ég misst tvær mikilvægar konur úr lífi mínu, inn í draumalandið, inn úr skugga dauðans í fang hans. Önnur er amma mín, sem er nýlátin, en hin var amma dóttur minnar.

Ömmur er svo dýrmætar að þegar þær yfirgefa þessa jarðvist þá skekur það manns eigin tilveru. Ef maður er heppin, eins og ég og dóttir mín, þá elska þær mann skilyrðislaust. Þær bera ekki ábyrgð á uppeldi manns en eru ábyrgar fyrir því hvort maður nær að fóta sig í heiminum af öryggi. Foreldara eiga sitt hlutverk en ömmur og afar geta víkkað hjartapláss barnabarna sinna margfalt. Ég var heppin að eiga ömmu mína svona lengi því ég er að verða fimmtug og hún var komin yfir níræð. Ég hélt samt að hún væri ódauðleg eins og sál hennar vonandi er.

Tengingin við fyrri kynslóðir liggur í gegnum ömmur og afa. Sögur af háttum og fólki, sem áður gékk á þessari jörð. Sögur af lífsbaráttunni, torfbæunum, sjósókn, tímanum sem vakað var yfir ánum, skrýtnu fólki og ekki svo skrýtnu fólki. Sögur af langa,langa, langaömmu sem læknaði fólk með hákarlalýsi og talað við krumma. Römm er sú taug sem bindur okkur við þetta harðbýla land. Nú er sú kynslóð að hverfa frá sem bjó við þessar aðstæður en sú kynslóð upplifði einhverjar mestu breytingar á högum sínum sem um getur. Frá því að fæðast í torfkofum yfir í að ferðast um heiminn. Frá því að lifa við lýsisljós yfir í að nýta öll rafmagnstæki nútímans. Frá því að ganga í sauðskinnskóm yfir í handgerða ítalska leðurskó. Frá því að hafa ekki útvarp yfir í alla heimsins afþreyfingu. Það sem þessi kynslóð hefur kennt okkur er æðruleysi. Að taka því sem að höndum ber. Ég, og við, berum með okkur þeirra gjöf og tökum því þegar eldri kynslóðir ganga inn i draumalandið. Nýr kafli tekur við og hver kynslóð kennir hinum ungu, áfram höldum við á herðum þeirra sem hafa undan gengið og kennum vonandi hverju barni sem fæðist inn í heiminn það sem fyrir okkur var haft.

Ömmur og afar eru svo dýrmæt að einn dagur eða einn mánuður eða jafnvel ár ættu að vera helguð þeim sem kunna að elska skilyrðislaust. Er eitthvað annað að læra í þessari stuttu jarðvist?