c

Pistlar:

16. júlí 2014 kl. 10:25

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Af hverju ég hélt með Þýskalandi

Það var á föstudagseftirmiðdegi í júni að ég ákvað að kaupa pizzu fyrir fjölskylduna. Ég var þreytt og dálítið döpur, nýkomin úr erfiðri heimsókn, hafði ekki orku til að elda. Um leið og ég settist upp í bílinn til að panta flatbökuna hugsaði ég um hvað lífið væri stundum erfitt (vorkenndi mér smá, ég viðurkenni það..). Ég keyrði extra hring til að fá smá stundarfrið en fór síðan inn á pizza staðinn til að ná í pöntunina. Ég var heldur snemma á ferðinni, eftir að hafa borgað settist ég niður í þungum þönkum. Við vorum u.þ.b. fimm sem sátum og biðum og allir horfðu eitthvað annað en á hvort annað þennan fallega sumardag. Ungur maður sem sat við hliðina á mig rauf allt í einu þögn biðgestana og leit á mig glettin á svip "hefur þú áhuga á HM". Ég leit hissa á hann og sagðist ekki hafa mikinn áhuga. "Ég elska HM hélt hann áfram og mitt uppáhaldslið er Þýskaland."

Svona hófust samræður okkar og eftir nokkrar mínútur var ég búin að komast að því í hvaða framhaldsskóla hann er, hvar hann býr, hvaða er uppáhaldsveitingastaðurinn hans og af hverju hann heldur með Þýskalandi. Ég vissi líka að hann var að fara að borða með mömmu sinni og njóta leiksins sem var þetta kvöld í sjónvarpinu.  Hann brosti hringinn og þegar biðfólkið týndist út gat það ekki annað en kvatt okkur með brosi því allir voru farnir að taka þátt í þessum áhugaverðu samræðum. Hann fékk sína pöntun á undan mér og við kvöddumst með virktum, framhaldsskóladrengurinn og ég. Ég horfði út í vorblíðuna og gat ekki annað en brosað yfir því hvað það væri yndislegt að hitta svona skemmilegan mann og að það væri mjög líklegt að Þýskaland myndi vinna. Depurðin og þreytan hafði látið undan síga af því að ókunnugur maður hafði smitað mig af lífsgleði sinni á biðstöð pizzunnar. Fyrir það var ég þakklát. Við höfðum öll svo mikil áhrif og oft án þess að gera okkur grein fyirr því.

Þess fyrir utan, þá hélt ég með Þjóðverjum af því að þeir hafa kosið Angelu Merkel, minn uppáhaldsleiðtoga þrisvar sinnum og af því að þeir framleiða fallega og sterka hluti. Vinnumarkaður þeirra er aðdáunarverður og það er fallegt í Þýskalandi og Berlín er ein af mínum uppháhaldsborgum.  Þeir eru með fótbóltalið sem leggur áherslu á samheldni hópsins en ekki stjörnur og af því að þeir hafa gert heiðarlega tilraun til að líta í eigin barm eftir erfiða og sársaukafulla fortíð.

Strákurinn á pizzastaðnum hafði rétt fyrir sér í júni, þýska liðið vann. Nú er bara að halda áfram að fylgjast með boltanum svo ég geti spjallað við áhugamenn um fótbolta ef þeir skyldu vekja mig upp úr döprum hugsunum í framtíðinni. Ég er þakklát fyrir að hann góndi ekki bara á símann sinn heldur hafði kjark til að beiða bros yfir andlit okkar sem sátum og biðum saman.