c

Pistlar:

3. september 2014 kl. 13:06

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Varðveittu regluna og hún varðveitir þig

Nú er runnin upp uppáhaldsárstími minn, haustið. Ég er svo heppin að starfa við það að taka vð nýjum nemendum á hverju hausti. Það er alveg ótrúlegt að ég virðist alltaf fá skemmtilega og gefandi einstaklinga sem miðla svo miklu til mín, í mín námskeið. Lyktin af nýopnaðri bók, strokleðri og blýant minnir mig á nýtt upphaf, nýjar væntingar og nýja drauma.

Í tímum hjá mér nota nemendur ekki tölvur og er það hluti af átaki mínu um að þau - og ég, geri eitthvað nýtt. Þau halda dagbók allt misserið og í morgun spurði einn nemandi mig með spurn í augum "áttu þá við að við eigum að handskrifa í dagbókina?" Þið hefðuð átt að sjá svipinn á þessum nemanda þegar ég svaraði játandi. Handskrifa!

Ég útskýrði að þetta misserið værum við að prófa okkur áfram með nýjar venjur vegna þess að til að læra stjórnun er ekki bara nóg að kunna fræðin. Menntun er einn lykil að því að ná árangri en menntun snýr ekki bara að því að lesa um aðferðir heldur að prófa sig áfram. Við ákváðum að prófa að skrifa dagbók (eða ég þvingaði það fram...), hugleiða (frjálst val), lesa nýtt efni, hlusta á fólk, prófa að gera eitthvað nýtt í hverri viku sem eykur jákvæðni (samkvæmt rannsóknum) og að vera nokkuð opin. Svona eins og er hægt, maður getur ekki alltaf verið jákvæður.

Þannig er haustið tækifæri til þess að koma nýjum venjum að. Til þess að venjur verði að reglu þarf að æfa þær (óþolandi staðreynd). Það er þannig að ef maður varðveitir regluna, þá varðveitur hún mann. Flestir, til dæmis, fara aldrei að sofa nema tannbusta sig en leiða sjaldan hugan að þeirri reglu. Margir horfa/hlusta alltaf á fréttir á sama tíma án þess að velta því sérstaklega fyrir sér. Ef maður ætlar að taka upp nýjar venjur eins og að skrifa í dagbók er best að gera það alltaf á sama tíma dagsins þá hættir maður að velta því fyrir sér og sést niður á "autómatinu".

Hvað langar þig að byrja á að gera þetta haustið? Hvaða litla eða stóra atriði myndi gera líf þitt svo miklu betra? Misserið okkar eru þréttan vikur, í Félagsvísindadeild HÍ, og ég legg áherslu á það við nemendur að við erum að gera tilraun sem við metum eftir 13 vikur hvort ber árangur. Ég veit að sumir nemendur munu til dæmis finnast dagbókaskrif bjarga geðheilsunni meðan aðrir eru þeirri stundu fegnastir þegar þeim líkur. En án þess að prófa veit maður ekki.

Hvað langar þig að prófa? Byrjaðu bara nú er rétti tíminn.