c

Pistlar:

27. október 2014 kl. 10:54

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Heppni

"Hún er svo heppin...", smá öfundarglampa brá fyrir í augum hennar um leið og hún sagði "ég meina hún hefur allt!". Ég hugsaði með mér að sú sem um væri rætt hefði líka undirbúið sig vel og haft mikið fyrir því að "hafa allt." Hvað sem það nú þýðir.

það er svo auðvelt að falla í þá freistingu að finnast allir aðrir hafa mun minna fyrir lífinu, að finnast sem maður sjálfur þurfi að sigla endalausan öldusjó. Sérstaklega þegar maður getur ekki sofnað og hugsanaspírallinn spinnur sig niður í dý sjálfsvorkunnar.

Ég skrifaði bók um vongott fólk (Móti hækkandi sól. Virkjaðu kraft vonar og heppni í lífi þínu - fæst í betri búðum...) sem kom út árið 2006. Þegar ég var að kynna bókina fékk ég  fágætt tækifæri til að ræða við fólk um heppni. Þeir sem töldu sig heppna gátu sagt endalausar sögur um heppni sína. Uppáhaldssagan mín er að konunni sem datt á hálkubungu fyrir utan búð en maður sem var staddur þar á sama tíma greip hana - og svo giftu þau sig í framhaldinu. Ekki samt sama dag en seinna. Sögur af fólki sem fann ástina á ólíklegustu stöðum, draumavinnuna, draumahúsið, "datt" inn í heppnina (sumir bókstaflega). En ég heyrði líka annars konar sögur, sögur af fólki sem fannst það alltaf hafa verið óheppið og fann ekkert í lífi sínu sem það týnt til sem heppni. Oft sat það fólk soldið hokið og fannst allt sem ég hafði að segja algjörlega óþolandi og vitlaust. Rannsóknir á heppni sýna að fólk sem telur sig vera heppið er það oftast (sjálfssprottin örlög.) Heppnir einstaklingar eru líka opnir, forvitnir, tilbúnir til að reyna nýja hluti og styðja aðra - og ekki síst undirbúðið!

Móttó mitt í lífinu, síðan ég skoðaði þetta málefni ofan kjölin er: Heppni er þar sem undirbúningur og tækifæri mætast. Þegar maður leitar að tækifærum og veit hvað maður vill þá er maður með græna fingur. þeir sem planta niður að hausti vita að það koma blóm að vori en þeir sem ekki planta neinu í sinn garð geta ekki gert ráð fyrir blómum að vori.

Það gagnar lítið að horfa öfundaraugum á aðra, maður verður að horfa í spegilinn og undirbúa sig, undirbúia jarðvegin og hafa grænar fingur í lífinu. Auðvelt er að detta í sjálfsvorkunardý af og til, við gerum það öll, en ekki dvelja þar, það er svo myrkt. Grænir fingur vonarinnar leiða oft til ansi fallegra blóma lífsins.