c

Pistlar:

6. janúar 2015 kl. 20:19

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Kynþokki fyrr og nú

Það hefur þótt vera upphefð í því, í gegnum tíðina, að vera Bond stúlkan. James Bond mundar gallkaldur byssuna, hrist Martíní-ið og stúlkuna jöfnum höndum. Þær hafa hingað til verið ungar, og vaxtalag þeirra í samræmi við tíðaranda hverju sinni.  

Bond er töffari sem svífst einskins við njóstnastörfin og Bond stúlkurnar eru alltaf þokkagyðjur sem hrífast á endanum af Bond. Allt frá árinu 1962 hafa þær verið kynþokkafyllstu leikkonur samtímans. Nýjasta þokkagyðja Bond er fimmtíu ára gömul ítölsk leikkona. Ég hlakka til að sjá hana heilla Bond upp úr skónum. Í fyrsta sinn er Bond, sem sagt, að daðra við jafnöldru sína, en sá sem leikur hann Daníel Craig er reyndar ekki alveg orðin fimmtugur, en nálgast það.

Kvikmyndir endurspegla samtímann, eru spegill sem við getum mátað það sem er "inn" hverju sinni. Bond hefur áhrif á hvernig karlmennska er skilgreind, hverju sinni (bílinn, græjurnar, útlitið og taktarnir..). Það er enginn tilviljun að sú sem tálgregur Bond karlinn sé fimmtug - því bæði konur og karlar eru einfaldlega "ung" eða öllu heldur kynþokkafull lengur - allt fram til 100. ára! Maður þarf ekki annað en að horfa í augun á ölduðum kynþokkafullum manni til að sjá hvaðan kynþokkinn sprettur: úr sálinni og andanum sem er síungur.

Uppáhaldsleikarinn minn í Bond er Judi Dench, hún lék M í 17. ár í 7. myndum, en hún er hætt núna vegna þess að þetta er nóg. Ekki vegna aldurs, hún er að verða áttatíu ára, heldur vegna þess að henni fannst áskorunin ekki næg. Í nýju viðtalið við hana er fyrirsögnin "Retire? It´s the rudest word in my dictionary" eða: Starfslok eru dónalegsta orðið í minni orðabók!

Jane Fonda, fædd 1937, er sexý og töff, kannski verður hún næsta Bond stúlka þegar Bond sjálfur er orðin eldri og komin í seinni hálfleik!

Þetta eru svo skemmtilegir tímar að lifa og fjölbreytileikinn í því sem er kynþokkafullt hefur aldrei verið meiri. Hver hefði til dæmis látið sér detta í hug að unga kynslóðin hugsaði sér fátt kynþokkafyllra en rass? Þar er ekki Martíni-ið hrist heldur bossinn ... oh well, hverjum finnst sinn fugl fagur! Hver kynslóð hristir eitthvað, alla vega :-)