c

Pistlar:

8. apríl 2015 kl. 11:25

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Hvernig vinnustað viltu vinna á?

Vinnustaðir hafa "sál" þrátt fyrir að margur stjórnendagúrúin hafi gert heilmikið í því að taka sálina  úr fyrirtækjamenningunni. Gæðastjórnun, verkferlar, "Lean" stjórnun, stimpilklukkur og mælingar eru svo sem góð og gild, en sálarlaus verkfæri út af fyrir sig.

Er til dæmis rétt að segja að það eigi að taka 10 mínútur að baða "gamalt" fólk, að læknaviðtal eigi að vera 10 mínútur eða að staðlaðar bekkjastærðir séu allar eins? Er rétt að starfsmannaviðtal með frammistöðuumræðu eigi að fara fram einu sinni á ári? Er gott að fullfrískt fólk hætti að vinna 70 ára? Eða að umræðan snúist um hvað maður eigi "rétt" á mörgum veikindadögum? Er rétt að setja upp eftirlitsmyndavélar? Eða tala um störf fólks þannig að ekkert mál sé að "fá sér unga og graða stjórnendur". Er rétt að flytja fólk milli byggðarlaga án samráðs við það? 

Á vinnustaðurinn að einkennast af eftirliti? Mælingum á því sem miður fer - eða á hann að einkennast af mannúð, hjarta, sál og samhyggð? Eiga stjórnendur að fá himinháar upphæðir fyrir störf sín en aðrir ekki að vita af því? Á að meta árangur vinnustaðar ársfjórðungslega eftir vexti eða eftir því hvort fólki líði vel og nái árangri. Má ekki leika sér á vinnustaðnum? 

Konum í stjórnunarstöðum er sérstaklega hætt við streitu samkvæmt rannsóknum, næstum 40% aukin hætta á hjartasjúkdómum og 60% meiri líkur á sykursýki. Á undanförum áratugum hafa rannsóknir sýnt að konur telja að steita hafi aukist (bandarískar rannsóknir en ég geri ráð fyrir að þær eigi við hér á landi líka). Ég held að hluti af skýringunni séu sálarlausir vinnustaðir þar sem stjórnendur líta á starfsfólk eins og vélar sem þurfi að smyrja "rétt" til þess að ná sem mest út úr þeim. Allir tapa á endanum á því. 

Hvernig vinnustað viljum við vinna á? Ég held að við viljum flest vinna á vinnustað með sál þar sem umhverfið er fallegt og reynt er að horfa á hvað við gerum vel en ekki hvað við gerum ekki vel. Hvað má betur fara út frá manneskjunni en ekki tímaplaninu. Það getur nefnilega tekið 20 mínútur að baða einn en 5 mínútur að baða annann. Manneskjan er ekki vél heldur hefur hún sál sem blómstar ef umhverfi og aðstæður styðja rétt við hana.